15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (2751)

53. mál, kjötútflutningur til Bandaríkjanna

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Ég hef aldrei haldið því fram, að landbúnaðarmálin ættu að vera sérstök feimnismál í umræðum hér á Alþingi. Ég hef haldið hinu fram, að það ætti að gilda sama um íslenzkan landbúnað og umræður um hans markaðsleit erlendis eins og gildir um annan hliðstæðan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar. Ég hef haldið því fram, að þó að það kæmu greinar, sem reyndu að ófrægja tilraun landbúnaðarins eða fyrirtækja hans til að leita að markaði, þá væri það einkennilegt fyrirbæri, að þm. hlypu upp til að taka undir þessa ófrægingu með því að gera fsp. hér á Alþ. til þess að láta senda í gegnum útvarpið slíkar fyrirspurnir, sem ætíð eða undantekningarlítið eru gerðar um atriði, þar sem talið er, að eitthvað meira en lítið sé bogið við hlutina og þurfi að draga fram í dagsljósið. Það er alveg nákvæmlega sama, hvað fyrirspyrjendur segja um þetta atriði, þetta er vitanlega í framhaldi af greininni gert til þess að ófrægja þessa tilraun og ófrægja íslenzkan landbúnað, eins og það hefur borið að.

Því er haldið hér fram, að verðið, sem fengizt hafi í Bandaríkjunum, sé lægra en fengizt hafi innanlands. Eru fyrirspyrjendur svo miklir reikningsmenn, að þeir geti reiknað það út hér á stundinni? Ég ætla að leyfa mér að efast um, að þeir séu það, enda býst ég við, að þeir hafi alls ekki gefin þau atriði í dæminu, að þeir geti reiknað það út. Ég mótmæli því algerlega, að þeir geti fullyrt það, nema fyrir blaðakostinn, sem á að flytja þær fregnir, að verð í Bandaríkjunum hafi verið lægra, — fullyrðingar, sem eru gripnar úr lausu lofti. Við, sem erum að tala saman hér, erum engin börn og vitum, til hvers þessar fullyrðingar eru gerðar. Það er þáttur í þessu sama, það er talað til neytendanna, án þess að nokkur vissa sé fyrir því, að sagt sé satt, heldur þvert á móti.

Fullyrt er, að samtök bænda hafi heimtað hækkað kjötverð í skjóli sölunnar til Bandaríkjanna. Til mín kom hv. 2. þm. Skagf. (JS) og segist ekki kannast við þetta, segist álita, að það séu ósannindi. Hann sagði, þegar hann talaði við mig áðan, að hann færi í síma til þess að spyrja framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda að því, hvort þessi frásögn þm. væri rétt. — Krafan var sem sagt aldrei gerð af samtökum bænda, búið að ganga úr skugga um það.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál eða tilefni til fsp., ég ræddi það nægilega mikið áðan. Ég held, að það væri æskilegt, að látnar væru gilda svipaðar reglur um alla atvinnuvegina, þegar rætt er um þá hér á Alþingi, og fyrirspurnatíminn ekki notaður til að ófrægja einn þeirra, eins og reynt hefur verið að gera með þessari fyrirspurn. Og þess vegna fjölyrti ég svo mjög um þessa fyrirspurn, að ég er að gera mér vonir um að hægt sé að kenna sumum þm. — þeim, er þess þurfa — almenna mannasiði í sambandi við umræður um landbúnaðarmál.