15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (2758)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör, sem hann hefur veitt við spurningum okkar. Þessar síðari mínútur mínar vil ég nota til þess að láta í ljós fáeinar athugasemdir við svar hans.

Hann taldi, að íslenzk yfirvöld hefðu ekki heimild til að setja reglur um það, hvar þeir erlendu menn, sem hér dvelja skyldu hafast við í frítímum sínum. Ég vil minna á, að 3. gr. varnarsamningsins hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.“

Ég hef frá upphafi litið þannig á, að þessi grein þýddi það tvímælalaust, að Íslendingar gætu sett reglur um þetta efni, og ég harma það mjög, ef íslenzka ríkisstj. er á þeirri skoðun, að þessi grein þýði ekki þetta, því að þá er réttur Íslendinga samkv. samningnum minni en ég hafði talið í upphafi og mér raunar hafði verið tjáð, að hann væri.

Ég skal láta það í ljós í tilefni af svörum hæstv. ráðh., að ég tel það ástand, sem skapazt hefur með hinum nýju reglum, ekki viðunandi og þær ekki nægilegar til þess að tryggja réttmæta hagsmuni Íslendinga í skiptum sínum við hina erlendu menn. Þessar reglur eru ekki fullnægjandi m. a. af því, að ég tel tvímælalaust, að það sé mjög verulegur hluti af liðinu, sem þær ná ekki til. Ég hygg mig hafa öruggar heimildir fyrir því, að skilgreining varnarliðsins á því, hvað séu yfirmenn, sé mjög rúm í þessu sambandi, þannig að reglurnar muni ekki ná til mjög verulegs hluta af varnarliðsmönnunum, og ef það svo bætist við, sem nú nýlega hefur verið frá skýrt, að varnarliðsmönnum verði heimilt að hagnýta sér leyfi sín til heimsókna í nágrannabæi óeinkennisklæddir, þá tel ég það svo alvarlegan ágalla á framkvæmd samningsins, að ég tel ekki við það unandi. Ég álít því nauðsynlegt og mun leggja til, að á þessum reglum verði gerðar breyt. og þær gerðar miklu gagngerari, miklu róttækari en þær, sem nýlega hafa verið gerðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að ástæðan til þess, að ríkisstj. hefði dregið svo lengi að gera nokkrar ráðstafanir í þessum efnum, hefði verið sú, að mjög hefði dregið úr heimsóknum hermanna til Reykjavíkur á s. l. sumri eða s. l. hausti. Ég held, að almenningur í Reykjavík sé þarna mjög á öðru máli. Almenningi í Reykjavík mun hafa þótt kveða allt of mikið að slíkum heimsóknum til Reykjavíkur, alveg frá því að fyrstu reglurnar voru afnumdar, svo að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þessa afsökun. Það ástand skapaðist mjög fljótt, sem lagði henni þá skyldu á herðar að grípa til gagngerðra ráðstafana. Hún hefur dregið það allt of lengi, og þær ráðstafanir, sem hún loksins grípur til, eru ekki nægilega gagngerar, þær koma ekki að fullu haldi, og þess vegna verður nauðsynlegt að beita sér fyrir því, að um þessi efni verði settar betri og gagngerari reglur.