15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (2759)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan um réttarstöðu í þessum efnum, að það var orðrétt á þess leið: „Að samkvæmt íslenzkum lögum hefur ríkisstj. ekki umfram það, sem ákveðið kann að vera með sérstökum samningum, heimild til að setja reglur um það, hve lengi menn, er hér dvelja löglega, megi vera á ferli að næturlagi eða hvenær þeir skuli vera komnir heim til sín.“ Þetta er nokkuð annað en það, sem hv. þm. hafði eftir mér.

Það, sem hér liggur þá fyrir, er mat á því, hvort um þetta hafi verið gerðir sérstakir samningar. Nú geta menn vel haldið því fram, og mér skilst á hv. þm., að hann telji, að um þetta hefði átt að semja á sínum tíma. En það segir ekki, að slíkir samningar hafi verið gerðir. Það eitt út af fyrir sig getur þá leitt til þess, að menn telja, að úr þessu eigi að fá bætt, en sú skoðun manna, að þarna hafi eitthvað undan fallið í samningum, getur ekki fengið því áorkað, að samningar eigi sér stað, ef þeir eru ekki fólgnir í þeim samningum, sem fyrir liggja.

Varðandi þá grein samningsins, sem hv. þm. vitnaði í, þá gleymdi hann að geta þess, að það hafa verið gerðir mjög ýtarlegir samningar um réttarstöðu þessara manna hér á landi. Og það er auðvitað undir þeim ýtarlegu samningum og túlkun á þeim komið, hvað talið verður gilda í þessum efnum, ekki síður en undir slíku almennu ákvæði, sem ekki á beinlínis við það tilfelli, sem hér um ræðir og hv. þm. vitnaði í. Það er sjálfsagt, að það sé grandskoðað, og sízt hef ég á móti því, að það sé grandskoðað, hvað í þessum fyrirmælum felst, en því verður ekki neitað, að á samningunum verður að byggja eins og þeir eru, og sú almenna regla er í íslenzkum lögum, að íslenzku stjórnina skortir lagaheimild til þess að kveða á um þessi efni fyrir þá menn, sem á annað borð eru löglega staddir í landinu.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að það mundu vera margir, sem væru taldir foringjar. Um það fer auðvitað eftir þeim almennu reglum, sem um slíka menn gilda, en ég vil vekja athygli á því, að það hafa einnig verið settar reglur um fjarvistir þessara manna og sérstaklega dvöl þeirra á skemmtistöðum, og hygg ég, að þær reglur séu út af fyrir sig mjög strangar. Og ég á eftir að sjá, — það er bezt, að reynslan skeri úr um það, — hvernig þessar reglur reynast í framkvæmd, áður en menn segja til um, hvort þeir telji hér vera um allsendis ófullnægjandi ákvæði að ræða eða ekki.

Varðandi fyrirmælin um það, hvort þessir menn eigi að vera einkennisklæddir eða óeinkennisklæddir utan vallarins, þá er sjálfsagt einnig farið eftir þeim reglum, sem tíðkast um slíka starfrækslu. Ég minnist þess, að þegar verið var að undirbúa þessa samninga, þá vildu sumir beinlínis láta taka það inn í samningana, að þessum mönnum ætti að vera óheimilt að vera einkennisklæddir utan hinna umsömdu svæða. Sú var skoðun sumra manna þá. Það þótti ekki ástæða til að taka þetta upp í samningana, en ég tel, að það sé ekki heldur ástæða til að kippast mjög við yfir einhverjum fregnum um þetta, fyrr en sýnt er, hvernig það verður í framkvæmd. Og ég þori að fullyrða, að það út af fyrir sig, hvort menn eru einkennisklæddir eða óeinkennisklæddir, hefur engin áhrif á fjarvistarleyfi þeirra. Það er það, sem mergurinn málsins er.

Það er auðvitað ekki því að leyna, að það skapast ýmis vandamál í þessari sambúð. Það er eins og hæstv. forsrh. einu sinni réttilega komst að orði, að við skulum ekki loka augunum fyrir því, að það er vandi og erfiðleikar og jafnvel hætta því samfara að hafa slíkt erlent varnarlið í landinu. Gallinn er einungis sá, að hættan er enn þá meiri af því að hafa það ekki. Og eins og til háttar í heiminum þá væri Íslandi búinn vís voði og raunar friði í öllum þessum heimshluta, ef okkar land væri með öllu látið vera varnarlaust.

Þess vegna er það svo, að við verðum að taka á okkur nokkurn vanda, nokkra örðugleika vegna þessara óhjákvæmilegu ráðstafana. Hinu er auðvitað sjálfsagt að halda fram og fylgja eftir, að þennan vanda ber að gera eins lítinn og hægt er, það ber að reyna að draga úr ágöllunum eftir því, sem þeir koma fram. Það verður að fylgja eftir gerðum samningum og landsins lögum. Og í því sambandi vil ég einnig drepa á það, að ekki tjáir eingöngu að gera kröfur á hendur öðrum aðilanum, heldur verðum við einnig að gera kröfur á hendur íslenzkum mönnum, fyrst og fremst um það, að þeir brjóti ekki lög og gerða samninga, jafnvel þótt þeir geti haft af því einhvern ávinning eða hag í bili, og eins um það, að þeir komi fram með þeirri sómatilfinningu og sjálfsvirðingu, að þjóð okkar skapist ekki hætta þar af.

Þetta er okkar hlutur af þessu máli, og um leið og við gerum kröfur á hendur öðrum og ætlumst til, að þeir komi fram á þann veg, að sem minnst vandræði skapist af, þá megum við ekki gleyma þeim skyldum, sem á okkur eru í þessu efni, skyldum, sem vissulega eru því ríkari sem okkur er ekki síður en öðrum þjóðum nauðsynlegt, að land okkar sé varið, en smæð þjóðarinnar gerir það að verkum, að við getum ekki gert það á þann veg sem aðrar þjóðir gera. Og án þess að ég geri lítið úr þeirri hættu, sem þessu er samfara, og þeim vandamálum, sem fyrir hendi eru, því að þau eru vissulega erfið og þau verður að reyna að leysa, eftir því sem mannlegur máttur fær við ráðið, þá verð ég að segja, að ég tel of lítið gert úr þreki, sjálfstæðisvilja og getu íslenzku þjóðarinnar með ýmsu af þessu tali um yfirvofandi hættu í þessum efnum. Íslenzk þjóð hefur áreiðanlega staðið af sér þyngri þrautir en þessa, og hennar manndómur og kraftur verður áreiðanlega svo mikill, að þetta verði ekki hennar banabiti.

Hins vegar er með þessu ekki sagt, að vandi sé ekki fyrir hendi. Þvert á móti. En ráðið til þess að sigra hann er að gera sér grein fyrir, hver hann er. Það er m. a. með því með rólegri athugun að íhuga, hve mikið kveður t. d. að þessum heimsóknum, um það liggja ekki fyrir, því miður, svo fullnægjandi skýrslur sem skyldi. Það er að vísu hægt fljótlega að átta sig á, hversu margir menn koma hér í bæinn yfirleitt, en það þarf þá einnig að athuga miklu betur en gert hefur verið, hversu mikið kveður að heimsóknum þeirra á skemmtistaði og samneyti þeirra yfirleitt við Íslendinga. Hef ég gert ráðstafanir til þess, að með því verði betur fylgzt, en enn hefur verið og frekari skýrslur geti legið fyrir um það, til þess að menn geti betur gert sér grein fyrir, hvar skórinn kreppir að, hvað það er, sem úr þarf að bæta.

Hins er svo einnig að minnast í þessu sambandi, að í þessu tilfelli eins og öðrum eru bönn og slík fyrir mæli, síður en svo einhlít. Þau kunna oft að vera góð og nauðsynleg, en þau duga ekki ein, Siðferðisvitund og þroski almennings verður þar að koma til hjálpar, og það er sjálfsagt, ef menn verða varir við lögbrot af hálfu þessara erlendu manna eða af hálfu íslenzkra manna í samskiptum við þá, að það sé jafnóðum kært, og skal ég þá lofa því, sem raunar ekki ætti að þurfa, að það skal röggsamlega í það gengið að rannsaka hvert einstakt tilfelli og koma fram refsingum, þar sem sakir eru fyrir hendi. Skal þó játað, að bein lagabrot eru ekki nema lítill hluti af því vandamáli, sem hér er fyrir hendi. Málið er miklu umfangsmeira en svo.

Í framtíðinni verður að reyna að leysa þetta mál með ýmsum ráðum, m. a. og fyrst og fremst með því að búa þannig að þessum mönnum á sínum stöðvum, að þeir hafi minni löngun, minni hvöt en ella til þess að vera að slíkum heimsóknum, sem oft eru hvorugum aðila til ánægju né sóma. Og það er mest um vert, að slíkt sé gert sem allra fyrst. En það er ekki í þessu né öðru hægt að ætlast til þess, að engir gallar komi fram. Til hins verður að ætlast, og það er eðlilegt, að eftir því sé gengið, að menn læri af reynslunni og reyni að bæta úr þeim göllum, sem á kunna að finnast.

Einn þáttur, sem þetta mál varðar mjög, er auðvitað það, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar til þess, að þessir menn kynnist öðru en því lakasta í okkar þjóðlífi. Þessir menn eru hingað komnir með okkar samþykki og af ríkri nauðsyn, ekki hver og einn persónulega eftir sinni ósk, heldur eru atvikin önnur, eins og við vitum. Mikið af þessu eru ungir menn, sem eiga eftir að lifa um langan aldur, og það er vissulega ekki einskis virði, heldur þvert á móti mikils virði, að ráðstafanir séu gerðar til þess, að þessir menn fræðist um betri hliðar íslenzks þjóðlífs og hverfi héðan með raunverulega þekkingu á því bezta í íslenzku þjóðlífi, en ekki því lakasta.