15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Varðandi beina fyrirspurn hv. seinasta þm. um það, hvort það mundi vera samningsbrot, ef þessir menn færu óeinkennisbúnir út af sínum stöðvum, þá vitnaði hann sjálfur í, að það stæði „að jafnaði“. Það er því ljóst, að þarna er op, ef hv. þm. hefur rétt eftir það, sem í samningnum segir. Sjálfur hef ég samninginn ekki nú við höndina, og vitanlega er ekki hægt að ætlast til þess, að slíku atriði eins og því, hvort hér sé um samningsrof að ræða varðandi nýtt atriði, sé svarað án þess að það sé athugað, en vissulega mun bæði ríkisstj. og varnarnefndin athuga þetta mál. En það, sem mestu máli skiptir hér, er það, að þetta hefur engin áhrif á dvalarleyfi hermannanna. Það höfum við nú þegar fullvissað okkur um. Að öðru leyti er auðvitað sjálfsagt, að það sé athugað í ljósi samningsins, hvernig það kemur heim. Hins vegar er það rétt, að menn hafa haft fregnir af því, að til stæði einhver breyting á því, sem áður hefur tíðkazt í þessum efnum. En eins og ég segi, um það hefur ekkert ákveðið legið fyrir, og ég efast ekki um, að þetta muni enginn ásteytingarsteinn þurfa að verða, heldur sé hægt að leysa þetta mál með fullu samkomulagi aðila, þannig að það þurfi ekki að óttast, að til neins, sem jafnist á við samningsrof í þessum efnum, þurfi að koma.

Varðandi það, að þrenns konar reglur hafi verið settar, þá hélt ég nú, að það væri fyrir löngu vitað, og hefur raunar margoft verið sagt frá því í blöðum, að þeim fyrstu reglum, er settar voru, hefur verið breytt. En eins og ég sagði, bæði reglurnar sjálfar og breytingin var gerð án samráðs við íslenzku ríkisstj.; hvorugt var undir hana borið.

Út af því, er hv. aðalfyrirspyrjandi sagði, að honum hefði verið sagt í upphafi, að um þetta hefði verið samið, þá vil ég taka fram, af því að ég gleymdi að geta þess áðan, að slíka vitneskju hefur hann ekki frá mér. Ég hef haldið mig að þeim samningum, sem fyrir liggja, og þeim ýtarlega samningi um réttarstöðu varnarliðsmanna, sem gerður var og birtur og öllum liggur opinn til íhugunar.