29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (2766)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Þau töluðu sínu skýra máli, þótt það væri á annan hátt en hæstv. ráðh. hefur ætlazt til. Hæstv. ráðh. vék ekki einu einasta orði að þeim einstöku sakargiftum, sem ég talaði um í minni fyrri ræðu. Hann vék ekki einu orði að því, hvað réttarrannsóknin hefði leitt í ljós um hvert einstakt þessara atriða. Hæstv. ráðh. sá ekki heldur ástæðu til að svara þeirri fyrirspurn minni, hvernig rannsóknin hefði verið framkvæmd, hvort t. d. hefði verið lagt hald á bækur S. Í. F. á svipaðan hátt og Olíufélagsins í hliðstæðu máli. Hann svaraði því ekki heldur, hvort framkvæmd hefði verið sjálfstæð rannsókn í Ítalíu og Grikklandi og hvort yfirvöldin þar hefðu verið beðin um aðstoð. Hins vegar sá ráðh. ástæðu til þess að vera með nokkuð sérstæða tegund af skætingi, og sást á því, að komið hafði verið við mjög auman blett á hæstv. ráðh. M. a. lagði hann á það mikla áherzlu, að ég hefði fengið dóma fyrir ummæli Þjóðviljans um saltfisksölumálin. Það er rétt. Ég hef fengið dóma fyrir þau ummæli. En þeir dómar eru mjög gott dæmi um réttarfarið í landinu undir stjórn þessa hæstv. ráðh. Ég var dæmdur fyrir uppljóstranir Þjóðviljans, áður en réttarrannsóknin hafði verið framkvæmd og áður en nokkrir dómstólar höfðu fengið nokkurt tækifæri til að fjalla um málið. Það þurfti sem sé enga vitneskju um það, hvort rétt eða rangt var sagt frá, til þess að dæma mig í sektir og fangelsisvist til vara. Þetta er háttur hæstv. ráðh. í mörgum málum. Og forsenda þessara vinnubragða er meiðyrðalöggjöf, sem er svo ströng, að hægt er að dómfella menn fyrir svo að segja hverja ádeilugrein, sem birt er, jafnvel þótt hvert atriði hennar sé óhagganlegar staðreyndir. Og mér finnst sitja illa á þessum hæstv. ráðh. að hælast um yfir því, að ég hafi verið dæmdur í meiðyrðadóma. Það hefði verið hægt að láta dæma þennan hæstv. ráðh. í tugi og hundruð skipta, ef hann hefði haft manndóm í sér til þess að bera persónulega ábyrgð á þeim níðskrifum, sem hann hefur birt í Morgunblaðinu, stundum daglega vikum og mánuðum saman. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. ekki haft manndóm til þess að bera persónulega ábyrgð á þessum skrifum sínum, og ég held, að hann hafi ekki um neitt að hælast í þessu sambandi.

Hvað málinu viðvíkur að öðru leyti, þá get ég skýrt hæstv. ráðh. frá því, að ég hafði í vor tækifæri til að athuga af eigin raun verðlag á íslenzkum saltfiski í þessum löndum. Blautfiskur, sem er aðalhluti útflutningsframleiðslunnar til Ítalíu, kostaði þá í heildsölu hjá fyrirtæki því, sem þeir Hálfdán Bjarnason og Marabotti standa að, 225 lírur kg, en í smásölu kostaði hann, hjá smásöluhring þessara félaga, 370 lírur. Í íslenzkri mynt verður heildsöluverðið kr. 5.88 kg, en smásöluverðið kr. 9.66 kg. Um þessar mundir fengu íslenzkir framleiðendur hins vegar greiddar hér á landi kr. 2.90 fyrir kg af blautfiski. Sú framleiðsluvara, sem Íslendingar fá kr. 2.90 fyrir, kostar þannig hvorki meira né minna en kr. 9.66, þegar hún er komin til ítalskra neytenda. Hækkunin nemur kr. 6.76 á hvert kg, eða hvorki meira né minna en 233%. Auðvitað er hluti af þessum mismun flutningskostnaður, verzlunarkostnaður og önnur eðlileg útgjöld, en það er óþarfi að skýra það engu að síður, að þarna er um óhemjulegt milliliðaokur að ræða. Þegar þessar tölur liggja fyrir, er það auðskilið, að ítalskir fiskkaupmenn geta aftur og aftur boðið íslenzkum framleiðendum mun hærra verð en Hálfdán Bjarnason segist geta útvegað. Og þrátt fyrir allar vífilengjur hæstv. ráðh. er það óhæfa og hneyksli, að sá maður, sem á að hafa að aðalverkefni að útvega íslenzkum framleiðendum sem hæst verð og sem víðtækasta sölu, skuli vera þátttakandi í þessari fjárplógsstarfsemi og hafa þar hag af því að kaupa íslenzka framleiðslu fyrir sem lægst verð. Og þótt hæstv. ráðh. kunni að hafa gengið þannig frá hnútunum, að þeir menn, sem að þessu fyrirkomulagi standa, verði ekki sakfelldir af dómstólunum um sinn, hafa Íslendingar, sjómenn og útvegsmenn, þegar kveðið upp sinn þunga dóm um þetta mál.