29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (2776)

217. mál, rannsókn sjóslysa

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn hv. þm. er í þrennu lagi, eins og hann gat um. Í fyrsta lagi er spurt um: Hefur ríkisstj. látið framkvæma þá rannsókn á sjóslysum, sem henni var falin með þál. frá 12. des. 1951? Við þessari fyrirspurn er því að svara, að í tilefni af þál. um rannsókn á slysum á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum, sem samþ. var á Alþ. 12. des. 1951, var skipaskoðunarstjóri beðinn um að semja skýrslu úr sjóferðaprófum um þau slys, sem orðið hafa á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum frá ársbyrjun 1948, og hverjar höfuðorsakir megi telja til slysanna. Þetta var gert í samráði við dómsmrn. Jafnframt óskaði samgmrn. eftir, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannafélag Reykjavíkur og Slysavarnafélag Íslands tilnefndu hvert sinn mann til að fylgjast með skýrslugerðinni, athuga sjóprófin og gera síðan athugasemdir eftir óskum. Skipaskoðunarstjóri sendi sitt álit og skýrslur með bréfum, dags. 23. sept. og 2. okt. s. l. Þremenningarnir, sem ég áður greindi og tilnefndir voru af þeim aðilum, sem ég gat um, hafa einnig sent sínar till. í bréfi dags. 15. sept., ásamt fylgiskjölum. Öll þessi skjöl voru svo send dómsmrn. til athugunar með bréfi, dags. 7. okt. Samgmrn. barst umsögn dómsmrn. skömmu seinna eða með bréfi 21. þ. m. Þetta er varðandi fyrsta lið fyrirspurnarinnar

Annar liðurinn er: Hver hefur orðið niðurstaða þeirrar rannsóknar? Niðurstöður framangreindra rannsókna má segja að lýsi sér í till., sem fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannafélags Reykjavíkur og Slysavarnafélags Íslands hafa borið fram. Þeir komu sér allir saman um till., en mennirnir eru Guðbjartur Ólafsson, Garðar Jónsson og Lúther Grímsson. Till., sem þeir gerðu, eru, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið, — umsögn þeirra og till.:

„Eftir beiðni samgmrn. vorum við undirritaðir tilnefndir til að rannsaka sjópróf út af sjóslysum og gera athuganir við þau. Við yfirlestur og athugun á réttarskjölum þeim, sem við höfum fengið hjá skipaskoðunarstjóra út af slysförum á fiskiskipum, vildum við taka eftirfarandi fram og gera að till. okkar.

1) Að í hvert sinn, sem slys skeður um borð í skipi, sé skipstjóra skylt að láta fara fram réttarrannsóknir strax þegar skipið kemur í höfn, jafnt erlendis sem hérlendis, og vitni þau, sem kölluð eru fyrir, séu ekki valin af skipstjóra, heldur þeim, sem rétti hefur stjórnað, í samráði við stjórn stéttarfélags þess manns, sem fyrir slysinu varð. Á Íslandsmiðum skal skip strax leita hafnar, ef um dauðaslys er að ræða.

2) Að ekki sé látið hjá líða að leita læknishjálpar strax og menn verða fyrir meiðslum, svo að full vissa fáist fyrir því, hve alvarleg þau eru.

3) Að réttarrannsóknir vegna sjóslysa séu fullkomlega framkvæmdar á sambærilegan hátt og slys þau, sem verða á landi, t. d. bifreiðaslys.

4) Þegar slys ber að höndum á hafi úti og orsakir eru taldar vindur og sjólag, sé ávallt leitað umsagnar skipshafna á nálægum skipum til samanburðar á vinnuskilyrðum, þegar slysið skeður.

5) Að í hvívetna, sem sannast, að ef slys orsakast af vangá eða vanrækslu skipstjórnarmanna eða annarra skipsmanna, séu þau þá látin ganga til dómsúrskurðar.“

Þetta eru till. þær, sem þessir fulltrúar sjómannastéttarinnar og öryggisins á hafinu hafa nú borið fram í málinu. Eftir að þessar till. voru komnar fram, þá ráðfærði samgmrn. sig við dómsmrn. að nýju um málið. Og ég hygg, að varðandi þriðju fyrirspurnina, hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. að gera í þessum efnum, þá komi hin rétta mynd gleggst fram með því, að ég lesi hér upp athugasemdir dómsmrn. í sambandi við till. þessara þriggja umboðsmanna sjómannastéttarinnar og öryggisins á hafinu. Varðandi 1. till. segir dómsmrn. á þessa leið:

„Öll sjópróf fara fram að hætti sakamála samkv. 50. gr. l. nr. 68 1947. Í því felst, að þau

ber að halda svo fljótt sem unnt er, og ákveður dómurinn að sjálfsögðu, hvaða vitni eru yfirheyrð, þótt á skipstjóra hvíli sú skylda að gefa upplýsingar um þá menn, sem ætla má að skýrt geti málið, sbr. 45. gr. l. nr. 56 1914.“ Og dómsmrn. heldur áfram: „Það er því misskilningur, sem fram kemur í till. og bréfi skipaskoðunarstjóra, að vitni séu valin af skipstjóra.“ En í umsögn skipaskoðunarstjóra í þessum efnum kom sá skilningur fram. — Ég held svo áfram með umsögn dómsmrn.: „Samkv. 2. málsgr., sbr. 29. gr. nefndra l., nr. 68 1947, geta stéttarfélög eða félög sjómanna krafizt sjóprófs og geta beint þeim tilmælum til sjódóms, að ákveðin vitni verði yfirheyrð við rannsókn einstakra sjóslysa.“ Þetta er umsögn dómsmrn. um fyrstu till. — Um 2. till. segir dómsmrn.: „Um þetta eru ákvæði í sjómannalögunum, nr. 41 1930, 2. kafla 4, einkum 27. gr.“ — Um þriðju till. segir dómsmrn.: „Bifreiðaslys og önnur slík slys á landi eru rannsökuð af héraðsdómurum, hverjum á sínum stað, en sjóslys af fjölskipuðum dómum, sjódómum og siglingadómi. Tilgangurinn með því að láta fjölskipaða dóma rannsaka sjóslys er sá að gera rannsókn þeirra sem öruggasta, og gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir, að það sé meining með till. þessari,“ þ. e. a. s. frá þremenningunum, „að sleppa því öryggi, sem felst í því að láta fleiri en einn mann framkvæma rannsókn sjóslysa.“ — Um 4. till. segir dómsmrn.: „Þessari ábendingu mun þetta ráðuneyti koma á framfæri við þá dómendur, sem rannsaka sjóslys.“ — Og svo loks um 5. till.: „Um þetta eru lagafyrirmæli í siglingalögum, sjómannalögum og almennum hegningarlögum.“

Ég vænti, að af þessari umsögn hæstv. dómsmrn. sé ljóst, að allt, sem fram á er farið í till. umboðsmanna Sjómannafélagsins, Slysavarnafélagsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins, er ýmist nú þegar í l. eða verður tekið til greina á annan hátt. Með skírskotun til framangreinds frá dómsmrn. er ekki talið nauðsynlegt að breyta gildandi l. eða reglugerðum um eftirlit með skipum vegna umræddra till. fulltrúa Farmannasambandsins, Slysavarnafélagsins og Sjómannafélagsins í Reykjavík. Þetta er einnig allt í samræmi við það álit, sem skipaskoðunarstjóri ríkisins hefur gefið ráðuneytinu um þetta mál.