29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (2781)

218. mál, uppbót á sparifé

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gengisskráningarlögunum, nr. 22 frá 1950, segir svo í 13. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Af skatti þeim, sem innheimtur er samkv. 12. gr. (þ. e. stóreignaskattinum), skal 10 millj. kr. varið til þess að bæta verðfall, sem orðið hefur á sparifé einstaklinga, þ. e. einstakra manna, en ekki félaga, stofnana, sjóða eða annarra ópersónulegra aðila. Til sparifjár telst í þessu sambandi það fé, sem lagt hefur verið til ávöxtunar í banka, sparisjóði, innlánsdeildir samvinnufélaga og aðrar lánsstofnanir, sem eins stendur á um að þessu leyti. Enn fremur innstæður einstaklinga í verzlunarreikningum, sem venjulegir innlánsvextir sparisjóða hafa verið greiddir af, enda liggi fyrir yfirlýsing skattanefnda um innstæðuna og skattgreiðslu af henni.“ Nokkur nánari ákvæði eru síðan í greininni um framkvæmd á greiðslu þessarar uppbótar. Hér var m. ö. o. gert ráð fyrir því, að 10 millj. kr. skyldu greiddar sparifjáreigendum sem uppbót fyrir það verðfall, sem orðið hefði á sparifé einstaklinga og mundi verða enn frekar á sparifénu vegna þeirra ráðstafana, sem gert var ráð fyrir í lögunum, þ. e. gengislækkunar krónunnar.

Þess hefur ekki orðið vart enn, að þessar uppbætur hafi verið greiddar. Landsbankanum var falin framkvæmd úthlutunarinnar í lögunum, en hann mun ekki hafa hafið greiðslu uppbótanna, enda engu fé verið ráðstafað til hans í því skyni. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það, hverju þetta sæti, að skýr og ótvíræð lagafyrirmæli hér að lútandi séu ekki framkvæmd. Það, sem hér hefur gerzt, er í raun og veru, að almennir sparifjáreigendur hafa verið sviptir 10 millj. kr., sem löggjafinn hefur ætlað þeim. Það er því ekki að ástæðulausu, að spurt er. Ríkisstjórninni ber skylda til þess að gera skýra grein fyrir því, hvers vegna hún virðir algerlega að vettugi skýr og ótvíræð fyrirmæli um 10 millj. kr. greiðslu til sparifjáreigenda í landinu.