29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (2791)

220. mál, þátttaka Íslands í Bernarsambandinu

Fyrirspyrjandi. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Íslendingar gerðust aðilar að Bernarsambandinu á Alþingi 1946–7. Nokkru síðar var stofnað Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF. 1. febr. 1949 var sett reglugerð, sem löggilti STEF sem samningsaðila gagnvart íslenzkum flytjendum tónlistar, þ. e. a. s. flytjendum tónlistar hér á landi. Sama dag, 1. febr. 1949, var og staðfest gjaldskrá STEFS af menntmrn. Þessi gjaldskrá þótti strax fráleit að ýmsu leyti. Hún var hærri á ýmsum sviðum, en tíðkaðist í nágrannalöndunum. Starfsemi STEFS, síðan það félag tók til starfa, hefur sætt nokkurri gagnrýni og verið talin með næsta undarlegum hætti.

Félagið hefur haft miklar tekjur, ekki sízt frá ríkisútvarpinu. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja um, hverjar heildartekjur STEFS hafi verið, síðan það var stofnað, frá ríkisútvarpinu og frá öðrum aðilum. Hins vegar hefur þess lítið orðið vart, að íslenzkir höfundar hafi fengið greiðslur fyrir sinn höfundarrétt. svo að nokkru næmi. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja um, hversu mikið STEF hafi greitt fyrir höfundarrétt, annars vegar íslenzkum mönnum og hins vegar útlendum mönnum. Það hefur verið sagt manna á milli af þeim, sem kunnugir eru, að ýmis af kunnustu tónskáldum landsins hafi fengið sendar frá STEFI sem greiðslu fyrir höfundarrétt sinn hlægilegar smáupphæðir, sumir nokkrar krónur, aðrir nokkra tugi króna. Af þessum sökum er þriðja fyrirspurnin fram borin, þ. e. a. s. hversu miklu muni nema greiðslur til hvers um sig af þeim tíu íslenzkum höfundum, sem hæstar greiðslur hafa fengið. Ég er ekki að spyrja um nöfn hlutaðeigandi manna, heldur aðeins um upphæðirnar, sem hver hinna tíu hæstu hafi fengið, og hversu miklu greiðslurnar til hvers um sig hafi numið af þeim tíu, sem lægstar greiðslur hafa fengið. Þetta tel ég nauðsynlegt að fá upplýst, til þess að full vitneskja fáist um starfsemi þessarar stofnunar. Það hefur og verið talið af ýmsum, sem kunnugir eru málum, að langmestur hluti hinna miklu tekna STEFS hafi farið til greiðslu stjórnar- og skrifstofukostnaðar. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja, hversu miklu stjórnar- og skrifstofukostnaður þessa fyrirtækis hafi numið, síðan það var stofnað.

Reglur STEFS eru strangar og allmikilli hörku hefur verið beitt á sumum sviðum við innheimtu af gjaldskyldum aðilum, og nýlega hefur verið látið boð út ganga samkv. nýföllnum hæstaréttardómi, að nú muni á næstunni fram gengið með sérstakri hörku gagnvart aðilum, sem eru taldir gjaldskyldir samkvæmt fyrrnefndri reglugerð STEFS og munu eiga að greiða mjög verulegar upphæðir, tugi ef ekki hundruð þúsunda á ári, til þessa fyrirtækis. Má segja, að sök sér væri að innheimta gjald samkv. nefndri reglugerð af mikilli hörku, ef það rynni aðallega til innlendra höfunda, en svo virðist alls ekki vera. Að svo miklu leyti sem það fer ekki til stjórnar- og skrifstofukostnaðar, eins og mestur hluti þess virðist hafa farið á undanförnum árum, þá mun það renna til útlendinga, til útlendra aðila, sem sjálfum virðist ekki hafa hugkvæmzt að gera kröfu um þetta fé, heldur verið bent á það af íslenzkum aðilum, að þeir skyldu gera fullar kröfur.

STEF hefur þannig eða mun á næstunni reynast, ef ekki verður að gert, innheimtustofnun á verulegum fjárhæðum fyrir útlendinga, þ. e. a. s. umboðsmaður útlendra aðila til þess að heimta gjöld af innlendum fyrirtækjum. Þetta mun að sjálfsögðu ekki aðeins kosta innlend fyrirtæki fjárútlát í íslenzkum krónum, heldur einnig þýða það, að yfirfæra verður verulegar gjaldeyrisupphæðir til þessara útlendu aðila. Hins vegar hefur verið sagt, að íslenzkir höfundar hafi engar eða nær engar gjaldeyristekjur haft á vegum þessa fyrirtækis. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram 5. og 6. fyrirspurnina, hversu mikið hafi verið yfirfært á vegum STEFS til erlendra manna vegna höfundarréttar, síðan Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu, og hversu mikið sé óyfirfært af fé, sem greiða skal, og svo í 6. lagi, hversu miklar gjaldeyristekjur á vegum STEFS íslenzkir menn hafi hlotið á sama tíma.

Það er nauðsynlegt að fá allt þetta mál upplýst til hins ýtrasta, því að mér virðist ýmislegt benda til þess, að hér sé merkismál á ferðinni, sem nauðsynlegt er að skýra til fullnustu.