29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (2792)

220. mál, þátttaka Íslands í Bernarsambandinu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég get nú því miður ekki nú svarað nema fyrstu spurningunni, sökum þess að rn. á ekki aðgang að þeim plöggum, sem geta gefið svar við spurningum 2–6. — Ég tel mjög vafasamt, að rn. hafi nokkurn íhlutunarrétt í starfsemi STEFS og geti heimtað af þeim upplýsingar. Hins vegar hefur rn. skrifað STEFI og óskað að fá þær upplýsingar, sem rætt er um í fsp., en hefur fengið það svar, að framkvæmdastjórinn sé erlendis og félagið óski að fá frest til að svara spurningunum. En svarið við fyrstu spurningunni sem að ríkisútvarpinu snýr, er það, að STEF hefur frá árinu 1947 og til 1. okt. 1952 fengið greitt frá ríkisútvarpinu kr. 663.037,95 og enn fremur framlag ríkisútvarpsins í Nótnasjóð Íslands samkv. sérstökum samningi við STEF, sem telst hluti af höfundalaunum fyrir árið 1947, en það er kr. 36.138.08.