29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (2793)

220. mál, þátttaka Íslands í Bernarsambandinu

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Ég læt í ljós mikil vonbrigði mín yfir því, að hæstv. ráðh. skuli ekki hafa getað svarað þessum spurningum, og vil eindregið óska þess, að hann og ráðuneyti hans haldi þessu máli vakandi og strax þegar framkvæmdastjóri STEFS kemur til landsins verði hann látinn svara þessum spurningum og svörin birt hér á Alþingi. Það, sem hæstv. ráðh. upplýsti, var, að STEF hefur fengið greiddar nær 700 þús. kr. frá ríkisútvarpinu, síðan það var stofnað, fyrir flutning á tónlist í útvarpinu. Ég hygg, að það sé rétt, að íslenzkir höfundar hafi fengið, eins og ég sagði áðan, sumir sendar nokkrar krónur og aðrir nokkra tugi króna. Eitt af þekktustu tónskáldum landsins hefur t. d. fengið senda frá STEFI nokkra tugi króna sem tveggja ára greiðslu fyrir það, sem hefur verið flutt í ríkisútvarpinu af verkum þess. Ríkisútvarpið greiðir í sjóði STEFS á 4 árum 700 þús. kr., en þær gufa svo mikið upp á þessari leið, að tónskáldin, sem verið er að flytja verk eftir, fá nokkra tugi króna. Ég vona, að hæstv. ráðh. sjái, að hér er rannsóknarefni á ferðinni, og ég treysti því, að hann muni ganga eftir því, að svör berist varðandi þetta, og birti hv. Alþingi þau.