12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

125. mál, gæðamat iðnaðarvara

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um er spurt: Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að koma á gæðamati iðnaðarvara? Í tilefni af þál. þeirri, sem samþ. var um gæðamat iðnaðarvara á þinginu 1951, útvegaði rn. upplýsingar um löggjöf varðandi gæðamat iðnaðarvara í ýmsum löndum, m. a. Danmörku, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Voru þessar upplýsingar þegar sama árið sendar rannsóknaráði ríkisins til athugunar. Till. rannsóknaráðs hafa ekki borizt, en þær munu nú í undirbúningi hjá iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, að því er Gísli Þorkelsson, forstöðumaður iðnaðardeildar Atvinnudeildar háskólans, hefur tjáð ráðuneytinu. Hefur Gísli ritað um þetta mál í Verzlunartíðindin, 3. tbl. 1952, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu, að heppilegast sé, að gæðamat sé frjálst og nái aðeins til innlendrar framleiðslu. Iðnrekandi, sem óskaði eftir að fá vörur sínar metnar, mundi þá snúa sér til n. þeirrar eða vöru dómstóls, eftir því hvað það yrði nú kallað, sem skipaður yrði fulltrúum neytendasamtakanna, og óska eftir, að gæðamat færi fram. Fengi hann þá leyfi til að láta sérstakt merki á þær vörutegundir, sem stæðust matið. Til þess að slíkt mat gæti komizt á, yrði vörudómstóllinn í fyrsta lagi að ákveða vissar „standard“-kröfur og síðan vaka yfir, að um þessar vörur væri alltaf haldið við þær kröfur af þeim, sem merkin nota.

Hinn 28. des. 1951 skipaði iðnaðarmálaráðherra 3 manna nefnd, Pál S. Pálsson, Þorstein Gíslason og Kristjón Kristjónsson, er m. a. skyldi gera till. um eftirlit með vörugæðum innlends iðnaðar í því skyni að hefja iðnreksturinn á hærra stig í vöndun framleiðslunnar. Skyldi n. skila áliti fyrir árslok 1952, og hefur hún miðað störf sín við það. N. hefur jafnhliða öðrum störfum, sem henni voru falin með skipunarbréfinu, undirbúið till. um gæðamat, en ekki gengið endanlega frá þeim enn þá. Varðandi undirbúning þessara tillagna er þess að geta, að formaður n. fékk s. l. sumar aðstöðu til að kynna sér framkvæmd þessara mála í Bretlandi. Eftir heimkomu sína ritaði hann ýtarlega skýrslu um framleiðsluafköst og vöruvöndun í Stóra-Bretlandi og ræðir þar um ráðstafanir ríkisvaldsins til úrbóta þessum vandamálum iðnaðarins. Einnig er þarna skýrt frá fsp. og umr. um gæðamat iðnaðarvara í neðri deild brezka þingsins. Skýrsla þessi var fjölrituð, og það munu enn vera til nokkur eintök af henni. Ef einhver þingmanna óskaði að kynna sér frekar þetta mál, þá munu þessar skýrslur vera til reiðu. Ég vil í þessu sambandi lesa hér smákafla, þar sem hann greinir frá samtali við aðstoðarframkvæmdastjóra hinnar heimskunnu stofnunar „The British Standard Institution“, sem hefur þessi mál með höndum. Honum farast orð á þessa leið:

„Ef þið hugsið ykkur á Íslandi að setja upp stofnun á þessu sviði, þá vil ég gefa ykkur heilræði. Verið ekki metnaðargjarnir um of, reisið ykkur ekki hurðarás um öxl. Margar smáþjóðir hafa brennt sig á því soðinu. Þær hafa reynt að koma sér upp sínu eigin gæðamati, setja upp sinn eigin mælikvarða án þess að gera sér grein fyrir, hve óhemju dýrt það er í framkvæmdinni. Ég álít því, að hugmyndin um eins konar miðstöð á Íslandi, er safni gögnum og upplýsingum frá stofnunum stórþjóðanna á þessu sviði og reyni að nota sér niðurstöður þeirra eftir föngum, sé alveg rétt aðferð og hefur gefizt vel í ýmsum löndum, þar sem það hefur verið reynt. Tel ég, að gæðamat sé nauðsynlegt í hverju landi, ekki eingöngu vegna innlendra iðnaðarvara, en einnig vegna erlendra iðnaðarvara, því að ella veit kaupandinn aldrei, hvers konar vörur hann hreppir, og landslýðurinn getur á þann hátt algerlega verið háður miskunn erlendra framleiðenda eða vöruseljenda.“

Þetta var það álit, sem þessi maður lét í ljós. Ég hef ekki neinu við þetta að bæta og hygg, að hv. fyrirspyrjandi telji, að með þessu sé fsp. svarað.