12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2822)

223. mál, fjárhagsráð

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við spurningum mínum. Ég hygg, að ég muni það rétt, að hæstv. ráðh. hafi látið þess getið í umr. um verðlagsmál, að það mundi hljótast verulegur sparnaður af afnámi verðlagseftirlitsins. Það er hins vegar tvímælalaust, að annar hv. stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., hv. þm. V-Húnv., hefur hvað eftir annað lagt mjög mikla áherzlu á það atriði í umr. um verðlagsmálin, að baráttan fyrir verðlagseftirliti sé barátta fyrir nýju skrifstofubákni og að það sé einvörðungu af áhuga fyrir auknu skrifstofuhaldi, sem við Alþfl.-menn höfum barizt fyrir því, að komið verði aftur á verðlagseftirliti.

Nú hafa hv. þm. heyrt sannleikann um þetta mál. Það, sem hefur sparazt við afnám verðlagseftirlitsins, er í krónum reiknað, að því er hæstv. ráðh. sagði síðast í sinni ræðu, 135.000. Kostnaðurinn var 635.000 kr., en er áætlaður á þessu ári um 500.000 kr. Það er sem sagt nokkuð á annað hundrað þúsund krónur, sem ríkinu hefur tekizt að spara við afnám verðlagseftirlitsins. Það er allt og sumt. Og þá ætti að mega halda því fram, að kostnaðurinn þyrfti ekki að aukast nema um nokkuð á annað hundrað þúsund krónur, þó að aftur væri tekið upp verðlagseftirlit með öllum innfluttum vörum og öllum innlendum iðnaðarvörum, eins og við þm. Alþfl. höfum lagt til í frv. okkar um verðgæzlu og verðlagseftirlit. Þarna sjá menn svart á hvítu sannleikann um þann áróður, sem beitt hefur verið gegn því, að verðlagseftirlitið væri tekið upp að nýju. Ef menn bera saman þessa upphæð, rúmlega 100 þús. kr., sem ríkið sparar við afnám verðlagseftirlitsins, og þær óskaplegu fúlgur, sem neytendur hafa orðið að greiða til milliliða, vegna þess að verðlagseftirlit hefur verið afnumið, þá sjá menn, hvert gildi þessi röksemd gegn nýju verðlagseftirliti raunverulega hefur. Það eru ekki milljónir, það eru tugir milljóna, sem neytendur verða árlega að greiða milliliðum vegna þess, að hér er ekki verðlagseftirlit. Það, sem ríkið sparar hins vegar í útgjöldum á þessu, er svolítið á annað hundrað þúsund krónur. Þessi svör hæstv. viðskmrh. ættu því að verða til þess, að þessi röksemd gegn nýju verðlagseftirliti heyrðist ekki oftar hér í sölum Alþingis.