17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

144. mál, risnukostnaður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrir 4 eða 5 vikum, að því er mig minnir, var útbýtt hér í Sþ. fyrirspurn á þskj. 218 frá okkur hv. þm. Ísaf. um risnukostnað ríkisstj. Þessi fyrirspurn hefur verið þrisvar á dagskrá, án þess að henni hafi verið svarað, og 2 eða 3 fundir hafa verið haldnir í Sþ., án þess að hún hafi verið tekin á dagskrá. Þetta er, hygg ég, þriðji fundurinn, sem þannig háttar um.

Samkv. skýlausum fyrirmælum þingskapa ber að ræða fyrirspurn viku eftir að hún hefur verið borin upp og leyfð. Það eru nú komnar 3 vikur frá því að fyrirspurn þessi átti að ræðast. Ég vil segja fyrir hönd okkar flm., að við unum því ekki, að þingsköp séu þverbrotin á þann hátt, sem hér er gert. Við getum ekki sætt okkur við það. Ég sé ekki, hvaða ástæða getur verið fyrir þessu. Ég hef einu sinni vakið máls á þessu. Þá fékk ég þau svör, sem ég tók algerlega gild, að hæstv. forsrh. hefði þá verið forfallaður. Gerði ég enga frekari athugasemd við það. En nú langar mig að vita, hvað því veldur, að fyrirspurnin er ekki tekin á dagskrá á þessum fundi. Ég skil ekki, að ástæðan geti verið sú, að hæstv. ríkisstj. hafi hér einhverju að leyna. Því vil ég ekki trúa fyrr en í lengstu lög. En skýringar á þessu vænti ég að ég fái.