10.11.1952
Neðri deild: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

36. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Pétur Ottesen):

Sjútvn. hefur athugað þetta frv., og eins og nál. ber með sér, þá hefur orðið samkomulag um það í n. að mæla með framgangi þess, en frv. er borið fram til staðfestingar á brbl., sem ríkisstj. gaf út á s.l. sumri um breyt. á 1. um hafnarhótasjóð. En jafnframt því, sem n. mælir með framgangi frv., leggur hún til, að á því séu gerðar tvær breytingar.

Í þessu frv. er gerð allveruleg breyting á ráðstöfun á fé hafnarbótasjóðs frá því, sem verið hefur frá öndverðu, eða frá árinu 1945, að fyrst var farið að ráðstafa fé úr þessum sjóði. Ráðstöfun á fé úr sjóðnum hefur farið fram með þeim hætti, að ríkisstj. hafði heimild til að verja á hverjum tíma 2/3 hlutum af höfuðstól sjóðsins til viðbótarframlaga til hafnargerða, þar sem svo stóð á, að hraðar var farið í framkvæmdi, en svo, að framlög á fjárlögum hverju sinni hrykkju til, að hluti ríkissjóðs yrði að fullu greiddur. Hefur á þennan hátt verið árlega veitt nokkurt fé úr sjóðnum til viðbótar framlögum ríkisins á fjárlögum, og hefur þetta orðið til þess að auðvelda allverulega hraðari framkvæmdir í hafnargerðum, en annars hefði orðið. En svo er ákveðið, að það fé, sem varið er úr hafnarbótasjóði á þennan hátt, skuli endurgreiðast sjóðnum aftur úr ríkissjóði á næstu þremur árum. Sjóðurinn hefur þess vegna vaxið, bæði af því að í hann rennur árlegt framlag til hans í fjárlögum og enn fremur af vöxtum af þeim 1/3 af sjóðnum, sem ekki má hreyfa, en með endurgreiðsluskyldunni er tryggt, að engin rýrnun verður á sjóðnum endanlega. Höfuðstóll sjóðsins nemur nú um 5.7 millj. kr. — Þetta er þá sú tilhögun, sem verið hefur á fjárframlagi úr hafnarbótasjóði allt til þess að þessi brbl. voru gefin út. En sú breyting er gerð samkv. þessum brbl., að nú er heimilað samkv. 1. tölul. 1. gr. brbl. að velta styrki til hafnargerða og lendingarbóta, þar sem tjón hefur orðið af náttúrunnar völdum, en hins vegar ekki gert ráð fyrir því, að það fé, sem veitt er úr sjóðnum með þessum hætti, verði endurgreitt úr ríkissjóði inn í sjóðinn aftur. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, sem einnig er breyting frá því, sem áður gilti, að vaxtalaus lán verði veitt til hafnar- og lendingarbóta úr sjóðnum; að öðru leyti verði haldið áfram sams konar framkvæmd og verið hefur með fjárframlög úr sjóðnum.

N. leit svo á, að með þessum breytingum um óendurkræfan styrk og vaxtalaus lán væri stigið spor, sem gæti haft í för með sér, að mjög yrði gengið á sjóðinn, og ef til vill gæti, þegar frá líður, svo farið, að sjóðurinn yrði ekki einasta skertur, heldur gæti að því rekið, að hann yrði étinn upp. Þetta taldi n. að þyrfti að fyrirbyggja. Reynslan, sem fengizt hefur af hafnarbótasjóði, sýnir það, að hér er um mjög þarfa stofnun að ræða, sem hefur auðveldað mjög framkvæmdir í hafnargerðum, og aðstaðan til þess batnar hröðum skrefum, eftir því sem sjóðurinn vex, og gætu þá fleiri orðið þessarar aðstoðar aðnjótandi heldur, en enn hefur verið. N. leit þess vegna svo á, að það yrði að gera ráðstafanir til þess og taka upp í þetta frv. breytingar, sem fælu það í sér, að fyrirbyggt væri, að sjóðurinn yrði rýrður, bæði að því er snertir 1. og 2. lið, og lúta brtt. n. að þessu. Viðvíkjandi 1. liðnum leggur n. til, að það fé, sem veitt er sem styrkur til hafnargerða og lendingarbóta undir þeim kringumstæðum, sem þar um ræðir, verði endurgreitt í sjóðinn með sama hætti og verið hefur. Í öðru lagi, að því er snertir lánveitingar úr sjóðnum, verði tekið inn í frv. ákvæði um það, að ávallt sé fyrir hendi ríkisábyrgð á þessum lánum, svo að það sé einnig tryggt, að það fé komi aftur í sjóðinn að lánstíma liðnum, sem þannig er úr honum varið. Það á þess vegna að vera tryggt með þessum brtt. n., að sjóðurinn haldi áfram að vaxa og þrátt fyrir það að nokkuð sé breytt frá því, sem áður hefur verið um tilhögunina á greiðslum úr honum, þá verði það ekki til þess að skerða sjóðinn að neinu leyti endanlega. Ég vil taka það fram, að sjútvn. ræddi um þessar tillögur við vitamálastjóra, sem hafði átt nokkurn þátt í samningu þessara brbl., og var hann sammála n. um það, að það væri til bóta og öryggis að setja slík ákvæði inn í frv. Það hefur að vísu áður verið veitt nokkurt fé sem óendurkræfur styrkur, þegar svo hefur staðið á, að skemmdir hafa orðið af náttúrunnar völdum. Þetta fé hefur hingað til ávallt verið veitt á fjárl., en ekki varið fé hafnarbótasjóðs að neinu leyti til slíkra hluta. Það leiðir af sjálfu sér, eins og að er vikið í nál., að það er nokkur hætta á því, að menn muni gera sitt ýtrasta til að fá nokkurn grundvöll fyrir kröfum um að fá fé, sem ekki þarf að leggja fram á móti heima fyrir, eftir að slík ákvæði eru upp tekin, og þar verður vitanlega að gjalda varhuga við, og mundi vera út af fyrir sig nokkurt aðhald í því, að þetta fé eigi að greiðast aftur inn í hafnarbótasjóðinn. Nefndin leggur sem sé til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég nú hef lýst og eiga að dómi nefndarinnar að vera öruggar, til þess að sjóðurinn verði ekki skertur, heldur haldi áfram að vaxa og vinna það stóra hlutverk að stuðla að bættri aðstöðu til þess að hrinda í framkvæmd þeim nauðsynlegu málum, sem hafnar- og lendingarbætur eru hér á landi.