14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (2832)

144. mál, risnukostnaður

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess í sambandi við þessa fyrirspurn, þótt það komi henni ekki beint við, að það er langt síðan þessi fyrirspurn kom fram hér á hinu háa Alþingi, og mun oftar en einu sinni hafa verið spurt eftir henni af flm., eins og ekki er undarlegt. En ég vil aðeins geta þess, að síðustu vikurnar fyrir jól hafði ég ýmsu að sinna, sem mér fannst meiru varða en það, að þessu yrði svarað algerlega á þeim tíma, sem annars er venja til að fyrirspurnum sé svarað. Ég vildi aðeins taka þetta fram, þótt hv. flm. væri ekki með neinar aðfinnslur nú út af þessu. En að öðru leyti mun ég gefa hér nokkur svör, eftir því sem ég tel mig geta það, við þeim fyrirspurnum, sem hér liggja fyrir á þskj. 218, frá hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf.

Þessar fyrirspurnir eru í 8 liðum með nokkrum undirliðum, og suma liðina tek ég saman, því að hægast er að ná því þannig.

3 fyrstu liðirnir eru þannig:

„1) Hvaða starfsmenn ríkisins eða flokkar starfsmanna fá greitt risnufé?

2) Hversu miklu nam þetta risnufé árið 1951:

a. í heild,

b. til hvers flokks starfsmanna?

3) Gera þessir aðilar grein fyrir því, hvernig fé þetta er notað?“

Þessu vil ég svara á þennan hátt, að auk risnu ríkisstjórnarinnar, sem sérstaklega er spurt um og verður gerð grein fyrir síðar, fá þessir aðilar greitt risnufé, þ. e. forseti Íslands 70 þús. kr. á ári, skrifstofustjórar 7 ráðuneyta 2.400 kr. hver, eða alls 16.800 kr.; skrifstofustjóri utanríkisráðuneytisins 4.000 kr.; aðalendurskoðandi ríkisins 2.400 kr.; forseti hæstaréttar 5.500 kr.; biskupinn yfir Íslandi 6.000 kr.; rektor Háskóla Íslands 7.500 kr.; rektor menntaskólans í Reykjavík 6.000 kr.; skólameistari menntaskólans á Akureyri 6.000 kr. — Samtals nemur þetta 124.200 kr. þetta ár, sem um er spurt.

Ég vil geta þess, að á þessu hefur engin breyt. orðið á neinn hátt síðan núverandi ráðuneyti tók við. Er þetta því samkv. þeim reglum, sem áður hafa um það gilt. Þessum embættismönnum hefur ekki verið gert að skyldu að gera grein fyrir, hvernig risnufénu er varið, og munu þeir ekki hafa gert það. — Þetta tel ég svör við þremur fyrstu liðunum.

Þá er fjórði liður:

„Hvaða starfsmenn ríkisins eða flokkar starfsmanna fá áfengi til risnu með sérstökum kjörum hjá Áfengisverzlun ríkisins?“

Það er í fyrsta lagi forseti Íslands í öðru lagi ríkisstjórnin, þar með talin vitanlega ráðuneytin, sem undir það heyra; í þriðja lagi forsetar Alþingis og fyrstu varaforsetar; í fjórða lagi íslenzkar sendisveitir erlendis; í fimmta lagi Áfengisverzlun ríkisins. Og svo er nokkur viðbót við þetta, sem ég kem að síðar.

Þá er 5. liður fyrirspurnarinnar:

„Hversu miklu nam áfengissala til þessara aðila árið 1951, miðað við útsöluverð verzlunarinnar:

a. í heild,

b. til hvers flokks starfsmanna?“

Forseti Íslands hefur fyrir þetta ár, 1951, fengið vínföng án tolls að upphæð 8.744 kr.; forsetar Alþingis og Alþingi 13.310 kr.; ríkisstjórnin öll, þar með ráðuneytin öll náttúrlega og þar með talin risna Áfengisverzlunar ríkisins, 64.469 kr. — Alls nemur þetta því 86.550 kr.

Auk þessa eru svo áfengiskaup Flugfélags Íslands vegna millilandaflugs, sem að kostnaðarverði á sama hátt og hitt nema 14.510 kr. Þá er það til erlendra sendisveita á Íslandi; nemur það 5.6543 kr. Til íslenzkra sendisveita erlendis 2.558 kr. — Þetta nemur því samtals 77.646 kr.

Ég vil geta þess, að Eimskipafélag Íslands er ekki þarna með neina upphæð, og stafar það af því, að það hefur — að minnsta kosti á þessu ári — tekið erlendis vínbirgðir til sölu utan íslenzkrar landhelgi, en ekki neitt hér heima. En það mun hafa verið talið ókleift fyrir þessar millilandasiglingar, að vínföng væru reiknuð með útsöluverði hér yfirleitt, eins og hefur verið.

Þetta er kostnaðarverð án tolls.

Þá er spurt að því, hve miklu þetta mundi nema á útsöluverði verzlunarinnar. Þessu sé ég mér því miður ekki fært að svara. Það er að minnsta kosti ómögulegt að gera það nema einhverja áætlunarupphæð, sem er lítið betra en ekki neitt, vegna þess að álagningin á vínið er svo geysilega breytileg; það er allt frá 200% og allt að 800%. Og ef ætti að fara að tína sundur hverja einustu flösku, sem keypt hefur verið, sem eru allmargar sjálfsagt, af öllum þessum aðilum, þá væri það verk, sem ég vil að minnsta kosti ekki leggja í að farið verði að gera, og verður því hið háa Alþingi að láta sér nægja þetta, og getur þá hver og einn tekið einhverja meðaltölu á þetta til að gera sér grein fyrir útsöluverðinu, eftir því sem unnt er. En þess má geta, að afar mikið af vínum, sem notuð eru til risnu, eins og öll borðvín, er með miklu lægra álagi, og kemur mjög mikið einmitt af þeim tegundum undir það, meðan aftur sterkustu vínin eru með mesta álagningu. Ég tel því, að hér með sé ég búinn að svara einnig 8. lið, af því að ég tel mér ekki fært að svara þessu á annan hátt en hér er gert, nema með áætlunartölum, sem lítils virði eru.

Ég vil svo geta þess, að auk þessarar risnu, sem hér er talin, hafa allir ráðherrarnir haft meiri eða minni risnu á heimilum sínum, sem þeir greiða sjálfir.

Þá er 6. liður, sem spyr um það:

„Gera þessir aðilar grein fyrir, til hvaða risnu áfengið er notað?“

Þessu vil ég svara á þann hátt, að fyrir öllum kostnaði við veizlur á vegum ráðuneytanna eru reikningar, þannig að þar liggur fyrir allur sá kostnaður samkv. reikningum, og sá risnukostnaður, sem er á fjárlögum. er vitanlega þar með talinn, eða það liggja reikningar fyrir notkun þeirrar risnu, eins og það liggur fyrir, og svo þær viðbætur, sem bætast ofan á. En frá öðrum þeim aðilum, sem hér hafa verið nefndir, liggja ekki fyrir neinir reikningar, enda er það nú þannig, að þess er ekki að vænta um flesta þeirra, t. d. eins og flugfélag og skipafélög og erlendar sendisveitir á Íslandi og íslenzkar sendisveitir erlendis; vitanlega liggur ekki fyrir um neitt af þessu, hvernig þetta er notað, eins og gefur að skilja.

Þá kemur hér 7. liður:

„Hversu miklu nam risnukostnaður ríkisstjórnarinnar árið 1951?“

Risnukostnaður ríkisstjórnarinnar, allra ráðuneytanna og sá risnukostnaður ráðherra, sem bókfærður er og samkv. reikningum, ásamt vínföngum talinn á kostnaðarverði, eins og ég hef áður lýst, nam alls árið 1951 146.842.61 kr. Það er, eins og allir vita, að ríkisstj. verður að halda uppi allmikilli risnu, bæði í heild og sömuleiðis einstök ráðuneyti og einstakir ráðherrar. Eru oft veizlur, þar sem sitja jafnvel fleiri hundruð manns í einu.

Ég tel mig með þessu í raun og veru vera búinn að svara algerlega því, sem um er spurt. Ég vildi aðeins geta þess til þess að sýna, að það muni ekki hafa verið gengið neitt lengra í risnukostnaði hjá núverandi ríkisstj. en áður, að árið 1948 nam risnukostnaður ríkisstj., reiknaður á sama hátt og hér hefur verið gert, alls 164.341.96 kr., eða réttum 20 þús. kr. meira en árið 1951, og voru þó, eins og allir vita, ódýrari tímar þá.