14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (2834)

144. mál, risnukostnaður

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og fyrst og fremst til að leiðrétta eitt atriði í þessari ræðu hv. fyrirspyrjanda, sem ef til vill stafar af því, að ég hef komizt dálítið klaufalega að orði. Það var varðandi risnu til ráðherra og ráðuneyta, eins og ég orðaði það. Þetta á ekki að skilja þannig, að nokkur einstaklingur í ráðuneytunum hafi risnu umfram það, sem áður er tekið fram um þá ákveðnu upphæð, sem skrifstofustjórarnir hafa, heldur er það svo að það eru stundum ráðuneytin sjálf, en ekki ráðherrarnir, sem standa fyrir veizlum að fyrirlagi þeirra til ýmissa manna, og þess vegna orðaði ég þetta þannig. Vænti ég þess, að hv. alþm. sé það algerlega ljóst, að það á ekki að skilja það þannig og er langt frá því, að nokkrir einstakir menn í ráðuneytunum fái nein slík hlunnindi.

Hv. fyrirspyrjandi sagði, að sér hefði ekki verið kunnugt um, að varaforsetar Alþingis hefðu haft risnu. Þessi venja hefur verið, — ég veit ekki hvað lengi, — en ég hygg, að sú upphæð sé nú miðuð við 300 kr. á hvern mann, að því er ég held, svo að það er nú ekki um stórt að ræða, en þetta er venja, sem Alþingi sjálft hefur skapað hér gagnvart því.

Hv. fyrirspyrjandi sagðist hafa heyrt, að það mundi vera nærri lagi að margfalda með sex til að fá útsöluverð áfengis. Þetta er, eins og ég tók fram áðan, ákaflega breytilegt. Það getur í ýmsum tilfellum átt að margfalda bara með 2 eða 3, og mikið af því víni, sem keypt er í veizlur, er einmitt í þeim flokki, mikið af borðvínunum. Þetta vildi ég aðeins benda á, þannig að slík margföldun yrði í raun og veru bara út í loftið, þegar ekki er vitað, hvaða tegundir er um að ræða.

Ég hef engu við það að bæta, sem ég sagði áðan um risnu hinna einstöku embættismanna. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að hún er ekki færð sérstaklega inn á fjárlagafrv., en ég hygg og hef haldið, að Alþingi væri kunnugt um það, hvaða menn það væru, sem á þennan hátt hefðu öðlazt þessi hlunnindi fyrir alllöngu, líklega allir. Ég hef ekki grafið það upp, hvenær þau hafa byrjað, að neinu leyti. Náttúrlega er það á valdi Alþingis að gera einhverja skipan á þessum málum, ef því sýnist, t. d. að fyrirskipa, að ef þeir haldi þessum hlunnindum, þá láti þeir fylgja með reikninga yfir risnukostnað sinn o. s. frv. Það er náttúrlega á valdi Alþingis að gefa einhverjar slíkar fyrirskipanir í því efni, ef því þykir ástæða til.

Um það, að risnukostnaðurinn í heild hvað snertir ríkisstj, sé hár, má oft deila, hvað er hátt og hvað ekki hátt. En ég vil þó segja það, að það hefði sjálfsagt verið hægt að leggja fram nokkurn veginn ákveðinn lista um það, hvað margar veizlur hafa verið haldnar fyrir innlenda og erlenda gesti og hvað fjölmennar, svona nokkurn veginn, þær hefðu verið yfir þetta ár. Og þá hygg ég, að ef þetta væri athugað, þá mundi þetta ekki þykja hár risnukostnaður. Og ég er nú frekar á því, að ýmsir hafi haldið kannske, að risnukostnaðurinn væri miklu meiri en þetta, sem hér hefur verið nefnt í þessu sambandi. Það er hægt að bruðla, það skal ég viðurkenna, með risnu eins og annað. En hitt nær náttúrlega ekki nokkurri átt fyrir ríkisstjórn Íslands að taka ekki sómasamlega á móti bæði erlendum og innlendum gestum, sem þannig stendur á, að ástæða er til að gera það. Það hefur t. d. oftar en einu sinni verið tekið á móti mjög fjölmennum þingum hér eins og Alþýðusambandsþingi. Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja með einhverja risnu og ýmsar slíkar mjög fjölmennar stofnanir í þessu sambandi. Þetta er ekki árlegur vani, en þetta er gert stöku sinnum, og þetta er gert til þess að sýna, að í þessu félagsskaparins landi okkar vilji ríkisstj. hafa skynsamlegt og gott samband við þessar stofnanir og við skulum segja heiðra þær með því að hitta þær stöku sinnum, þegar þær koma til fundar hér í höfuðborg okkar, þar sem þær ráða sínum ráðum. Það eru margar fleiri, eins og búnaðarþing, fiskiþing og ýmsar slíkar stofnanir. Þetta vildi ég bara almennt taka fram um málið, án þess að ég sjái ástæðu til að fara frekar út í það.