26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2840)

156. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum hlutu staðfestingu 1. febr. 1952, og er ákveðið í lögunum, að þau öðlist þegar gildi. Þar er gert ráð fyrir, að öryggiseftirlitið taki við af eftirliti með verksmiðjum og vélum. Samkv. lögunum verður verksvið öryggiseftirlitsins allmiklu víðtækara en eftirlit með verksmiðjum og vélum hefur verið, og krefst því framkvæmd laganna allmikils undirbúnings. Auk þess sem meira starfslið þarf til eftirlitsins frá því, sem verið hefur, hefur það aukinn kostnað í för með sér, en á fjárlögum fyrir árið 1952 er ekki gert ráð fyrir þessum aukna kostnaði. Reglugerðir allar þarf að samræma hinum nýju lögum, og var þegar snemma á árinu byrjað að taka saman reglugerðir þær, sem mest voru aðkallandi, og lokið er nú við sumar þeirra. Þórður Runólfsson eftirlitsmaður vinnur nú að þeim, eftir því sem tími vinnst til frá öðrum nauðsynlegum daglegum störfum við eftirlitið. Á miðju ári var ætlun samgmrn., að byrja skyldi þá þegar að starfa eftir lögunum, en þegar lagðar voru fram till. til fjárframlaga fyrir öryggiseftirlitið, þótti fjmrn. rétt að binda breyt. við næstu áramót, þegar rekstur eftirlitsins hefur verið ákveðinn á fjárlögum fyrir árið 1953, og féllst samgmrn. á það. Það er gert ráð fyrir, að tekjur eftirlitsins hrökkvi nokkurn veginn fyrir gjöldum, og þess vegna hefur ný gjaldskrá verið samin, sem koma mundi til framkvæmda um næstu áramót.