26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (2842)

156. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. Hafnf. (EmJ) spurði um það, hvort ætti að halda svo mikið launum niðri við þessa stofnun, að ekki fengist neinn hæfur maður til þess að starfa þar. Mér skilst helzt, að hann álíti, að það sé það, sem fyrir rn. vakir, að þeim mönnum sé svo illa launað, sem að þessu starfa, að eftirlitið verði að leggjast niður. En þessum mönnum er goldið samkv. launalögum, og ef það var ætlun Alþ., að þeir menn, sem vinna að þessum málum, eftir að nýju lögin koma til framkvæmda, komist í hærri launaflokk en þeir eru núna, þá hefði átt að gera þá breyt. á launalögunum um leið, að svo skyldi verða. Hins vegar skal ég fúslega játa, að ég tel sanngjarnt, að þessir menn komist í hærri launaflokk en þeim hefur verið ætlaður samkv. launalögum, þegar þessi nýja breyt. á starfinu kemur til framkvæmda. En þessu atriði ræður fjmrn., og ef það synjar um slíkt, þá getur samgmrn. ekki upp á eigin spýtur ákveðið, hvaða laun þessir embættismenn skuli hafa. Samgmrn. hefur gert till. um þetta til fjmrn., en málið er ekki útrætt. Þess vegna er að öllu leyti ómaklegt af hv. þm. að vera að gefa það í skyn, að rn. sé að eyðileggja vélaeftirlitið með því að reyna að halda mönnum frá því að starfa við það vegna þess, hversu illa þeim yrði launað.

Hv. þm. gat þess, að það væri verið að gera ógildar ráðstafanir Alþ. með því að láta ekki strax koma til framkvæmda þau lög, sem Alþ. samþ. og ákveðið er að skuli þegar taka gildi. Ég vil benda hv. þm. á það, að þó að í þessum lögum sem öðrum, eins og venja er til, standi, að lögin taki þegar gildi, þá er það öllum vitanlegt, að það er ekki hægt að framkvæma þessi lög nema með talsverðum fyrirvara og undirbúningi. Þess vegna er alls ekki um það að ræða, að lögin taki gildi um leið og búið er að undirrita þau. Þetta veit hv. þm. vel, og ég þarf ekki að skýra það fyrir honum. En það er því minni ástæða fyrir hann að vera sérstaklega að fetta fingur út í það, að þessum bókstaf hafi ekki verið fylgt í sambandi við breyt. á þessu starfi, sem hér er um að ræða. Og ég skil nú ekki, að það geti skipt miklu máli um þetta, hvort lögin taka gildi nokkrum mánuðum fyrr eða seinna. Aðalatriðið er það, að þessi stofnun sé undirbúin að taka við starfinu, þegar því verður breytt og það á að fara fram í hinum nýja búningi.