26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

224. mál, skattmat eigin húsnæðis til tekna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá hefur ríkisskattanefndin með höndum yfirumsjón með skattaálagningu, og hefur fjmrn. beðið ríkisskattanefndina um álitsgerð um þetta mál í tilefni af fyrirspurninni. Með henni ætla ég, að þessari fyrirspurn sé alveg fullnægjandi svarað. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar álitsgerð ríkisskattan. þannig:

„Hið háa ráðuneyti hefur óskað umsagnar ríkisskattanefndar um fyrirspurn hr. alþm. Gylfa Þ. Gíslasonar á Alþingi til hæstv. fjmrh. um skattmat eigin húsnæðis til tekna. Ríkisskattanefndin hefur ekki haft afskipti af mati á eigin húsnæði til tekna við álagningu útsvara almennt, en að því er varðar mat á eigin húsnæði til tekna við álagningu tekjuskatts vill ríkisskattan. taka fram: Árið 1934 aflaði ríkisskattanefndin tillagna yfirskattanefnda um mat á leigu eftir eigin íbúðir og ákvað síðan í samráði við fjmrn. þá meginreglu, að leiga eftir eigin íbúðir skyldi metin 10% af fasteignamati íbúðarhúsa, þar með talin lóð eða lóðarréttindi. Tekið var fram, að frá þessari reglu yrði að gera undantekningar þar, sem sérstaklega stæði á, og þar sem benda mætti á, að venjulegir leigumálar á sams konar íbúðum væru ekki í samræmi við leiguregluna. Þegar verðlag á húsaleigu tók að breytast verulega á stríðsárunum, var farið að hækka prósentuna af fasteignamatinu, fyrst í Reykjavík og síðan í öðrum kaupstöðum.“ — Ég vil skjóta því hér inn í, að það var vitanlega vegna þess, að fasteignamatið var óbreytt, að prósentan var hækkuð. — „Jafnframt brýndi ríkisskattanefndin það fyrir skattanefndum að leitast við að haga eigin húsaleigumati og endurskoðun framtala þannig, að gjöld af eigin íbúðum færu venjulega ekki fram úr eigin húsaleigu.

Með bréfi, dags. 17. febr. 1951, óskaði fjmrh. eftir, að nefndin endurskoðaði þær reglur, sem farið væri eftir við mat á tekjum af eigin húsnæði, og samræmdi þær alls staðar á landinu, og jafnframt, að nefndin léti ráðuneytinu í té tillögur um það, hvort rétt væri í þessu sambandi að breyta gildandi reglum um fyrningu fasteigna. Með bréfi, dags. 17. okt., ítrekaði ráðuneytið þetta bréf frá 17. febr. Sendi þá ríkisskattanefndin ráðuneytinu bréf, dags. 15. nóv. 1951, um niðurstöður sínar af athugun málsins og óskaði jafnframt eftir, að ráðuneytið tæki ákvörðun um, hvort nauðsynlegt væri að breyta skattareglugerðinni í þessu sambandi. Fjmrh. svaraði þessu bréfi frá ríkisskattanefndinni með bréfi, dags. 7. febr. 1952, þ. e. fyrst á þessu ári, þar sem bent er á, að Alþingi hafi þá ákveðið, síðan hin bréfin voru skrifuð, að allsherjar endurskoðun fari fram á skattalöggjöfinni og framkvæmd hennar, og þyki rn. því ekki viðeigandi að setja nýjar almennar fastar reglur um mat á eigin húsaleigu til tekna og fyrningar, eins og þá var komið málum. Hins vegar taldi rn. rétt, að ríkisskattanefndin símaði formönnum yfirskattanefnda að hlutast til um, að undirskattanefndir og skattstjórar endurskoðuðu húsaleigumat það, sem áður hafði verið, með hliðsjón af ákvæðum 12. gr. A. 2 reglugerðar nr. 133 1936 og reglum skattstofunnar í Reykjavík, sem þeim voru kunnar.

Skömmu síðar, eða 20. febr. 1952, sendi ríkisskattanefndin, þ. e. eftir að hún hafði fengið þetta bréf frá rn., öllum yfirskattanefndum og skattstjórum utan Reykjavíkur tilkynningu, þar sem endanleg afstaða nefndarinnar er skýrð, svo hljóðandi:

„Undanfarin ár hefur húsaleiga hækkað mjög og jafnframt kostnaður við húsin, en hins vegar hefur eigin húsaleiga til tekna til skatts verið lítið hækkuð og misjafnlega utan Reykjavíkur. Í Reykjavík hefur verið reynt að fylgjast með verðhækkunum, og enn á ný á þessu ári var gerð hækkun á eigin húsaleigu. Á þessu ári verður eigin húsaleiga í Reykjavík reiknuð 1.200 á ári fyrir herbergi, eldhús reiknað sem herbergi, eða 30% af fasteignamati húss og lóðar, þegar húseigandi hefur flutt í húsið eftir 1. jan. 1941, en 1.000 kr. á ári á herbergi, eða 25% af fasteignamati, þegar húseigandi hefur flutt í húsið fyrir 1. jan. 1941. Það eru sem sé tvær reglur, önnur fyrir það, sem flutt er í eftir 1. jan. 1941, og hin fyrir það, sem flutt er í áður. Er álitið, að þessi leiga sé sízt hærri en útleiga hér í Reykjavík, en leigu eftir eigin íbúð skal meta með hliðsjón af útleigu, þar sem um það er að ræða, sbr. 2. tölulið 12. gr. reglugerðarinnar um tekju- og eignarskatt, nr. 133 frá 1936.“

Enn fremur segir nefndin: „Ríkisskattanefndin hefur athugað ýmsar aðferðir til að koma á samræmi í mati á eigin húsaleigu um land allt, svo sem að miða við fasteignamat, brunabótamat, herbergjafjölda eða grunnflöt húsnæðis. Eftir athugun á kostum og göllum hverrar aðferðar og með hliðsjón af örðugleikum í framkvæmd þykir nefndinni rétt að miða samræminguna fyrst um sinn aðallega við fasteignamat. Nefndin telur, að húsaleiga sé yfirleitt lægri utan Reykjavíkur en þar og sé því rétt að gera nokkurn mun þar á. Ríkisskattanefndin hefur því ákveðið, að eigin húsaleigu í kaupstöðum utan Reykjavíkur skuli að þessu sinni reikna til tekna með 25% af fasteignamati húss og lóðar og 20% af fasteignamati húss og lóðar í kauptúnum og sveitum. Einnig má reikna eigin húsaleigu 1.000 kr. á ári fyrir herbergi, eldhús talið sem herbergi í fyrr nefnda tilfellinu, þ. e. a. s. í kaupstöðum, og 800 kr. í síðar nefnda tilfellinu, enda sé fullkomlega upplýst um herbergjatölu. Síðar nefndu aðferðina getur verið hentugt að nota, þegar húseigandi leigir út hluta af íbúðarhúsi sínu. Ekki verður þó að því fundið, þótt í einstaka tilfelli verði vikið frá ofangreindum reglum, ef um gömul og sérlega léleg hús er að ræða. Ríkisskattan. leggur hér með fyrir yfirskattan. að sjá um, að skattan. í umdæmi hennar reikni eigin húsaleigu eftir þessum reglum að þessu sinni og breyti framtölum í samræmi við það.“

Síðast segir ríkisskattan.: „Telja má víst, að þessi fyrirmæli hafi yfirleitt verkað mjög verulega til hækkunar frá því, sem áður var tíðkað eða látið viðgangast.“