26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

224. mál, skattmat eigin húsnæðis til tekna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. þessar ýtarlegu upplýsingar. Mér finnst svör hæstv. ráðh. gefa ótvírætt til kynna, að ekki var ástæðulaust, að þessu máli var hreyft hér á hinu háa Alþ. Það kemur sem sagt í ljós, að til skamms tíma hafa reglurnar verið þær, að eigið húsnæði hefur verið metið til skatts hér í Reykjavík á 25–30% af fasteignamatsverði, en utan Reykjavíkur og þó einkum í sveitum hefur sú gamla regla viðgengizt, að eigið húsnæði væri metið aðeins 10% af fasteignamatsverði. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt og er ein af orsökum þess, að tekjuskattsbyrðin hvílir tiltölulega miklu þyngra á Reykvíkingum, en á skattgreiðendum í öðrum kaupstöðum og kauptúnum og sérstaklega í sveitum. Nú hefur ríkisskattan. fyrir tilmæli hæstv. fjmrh. gefið út reglur fyrir allar skattan. til að breyta þessu og samræma skattmatið þannig, að það skuli vera 30% í Reykjavík sem aðalregla í húsum byggðum eftir 1941, 25% í kaupstöðum og 20% í sveitum, og álít ég þann mun í sjálfu sér ekki óeðlilegan, en það, sem hér hefur gerzt og er ámælisvert, að skuli hafa viðgengizt langa lengi, er, að svo gífurlegur munur skuli hafa verið á skattmati eigin húsnæðis í Reykjavík, öðrum kaupstöðum og sveitum sem upplýsingar hæstv. ráðh. báru glöggt vitni um.

Samkvæmt nýútkomnum hagskýrslum nam álagður tekjuskattur og eignarskattur árið 1951 af tekjum ársins 1950 svo sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

Meðaltekjuskattur tekjuskattsgreiðanda í Reykjavík nam 948 kr., í öðrum kaupstöðum 548 kr., en í sveitum aðeins 264 kr. Framtaldar meðaltekjur á skattgreiðanda voru í Reykjavík 23 þús. kr., í öðrum kaupstöðum 19 þús. kr., en í sveitum aðeins 15 þús. kr., þ. e. ekki nema rúmlega helmingur á við meðaltekjur tekjuskattsgreiðanda í Reykjavík. Þessi gífurlegi munur á framtöldum tekjum í Reykjavík og öðrum kaupstöðum og sveitum stingur nokkuð í stúf við meðaleignaframtölin í Reykjavík, öðrum kaupstöðum og sveitum, en meðaleign hjá eignarskattsgreiðanda reyndist í Reykjavík 46 þús., í öðrum kaupstöðum 34 þús., en í sveitum 37 þús., þ. e. a. s. 3 þús. hærri en í öðrum kaupstöðum og aðeins 9 þús. kr. lægri en meðaleignin reyndist í Reykjavík, þar sem þó aðalauðmagn landsins er saman komið.

M. ö. o., á hinni skattskyldu eign er mjög lítill munur í Reykjavík, öðrum kaupstöðum og sveitum; á hinum framtöldu tekjum er aftur á móti gífurlegur munur, þ. e. a. s., framtaldar tekjur í sveitum eru ekki 60% af meðalframtöldum tekjum í Reykjavík. Þessi munur á sér margs konar orsakir, og ræði ég þær auðvitað ekki hér á þessum stað og á þessari stundu. En ein orsaka þessa mikla munar er án efa hið gerólíka og mjög svo rangláta skattmat, sem hefur fengið að viðgangast á eigin húsnæði í sveitum, miðað við það, sem hefur átt sér stað í Reykjavík undanfarin ár. Þess vegna finnst mér, að það hefði verið í sjálfu sér fullt eins mikil ástæða til þess fyrir blað hæstv. fjmrh. að kvarta undan því, ef réttlætið eitt á að vera í heiðri haft, að eigið húsnæði væri í sveitum og öðrum kaupstöðum metið óeðlilega lágt, miðað við það, sem er í Reykjavík, og að kvarta yfir hinu, eins og gert hefur verið að eigið húsnæði sé metið of lágt í Reykjavík, þó að það sé komið upp í 30% af fasteignamatsverði.