26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2848)

224. mál, skattmat eigin húsnæðis til tekna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið í þessar umr., en ég vildi ráðleggja hv. fyrirspyrjanda að lesa skýrslu, sem útbýtt var á Alþ. í gær. Hún heitir Greinargerð félagsmálaráðuneytisins um kristfjárjarðir og aðrar sambærilegar eignir. Ef hann nennti að lesa hana, þá mun hann sjá, að jarðirnar, sem þar eru taldar upp, milli 40 og 50, eru leigðar eða byggðar fyrir afgjald, sem er frá því neðan við 100 kr. á ári og upp í 994 kr. Þetta er leigan eftir jörðina og húsin úti í sveitunum. Ef hann vill svo á sama tíma líta í kringum sig á leigu á íbúðum, jafnvel sem háskólaprófessorar leigja út frá sér, og hafa þeir þó byggt hús sín fyrir hagkvæm lán, þá mun hann finna mánaðarleigu fyrir íbúðir, sem er töluvert miklu hærri en leigan eftir allar jarðirnar með húsunum úti í sveitunum. Svo segir hann, að það eigi að vera sama á báðum stöðunum. Ég hryggist af fávizku prófessorsins í hagfræði, sem sýnilega þekkir ekkert til lífsskilyrða í sveit og leigumála jarða þar.