26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

224. mál, skattmat eigin húsnæðis til tekna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að það kæmi fram af þessum upplýsingum, sem ég hefði gefið, byggðum á skýrslu ríkisskattan., að fram að þessu hafi verið miðað við 10% af fasteignamati utan Reykjavíkur. Það kemur ekki fram af skýrslunni, að þetta hafi verið gert. Það, sem er í skýrslunni, er það, að 1934 hafi verið sett þessi regla alls staðar, og síðar kemur fram, að henni hefur verið breytt í Reykjavík, en það segir hvergi í skýrslunni, að reglan hafi haldizt óbreytt allan tímann annars staðar. Ég þori því ekkert um þetta atriði að fullyrða, en hitt segir í niðurlagi skýrslunnar, að nefndin telji, að þessar nýju reglur hafi breytt til hækkunar matinu utan Reykjavíkur. Þetta er það, sem segir um málið í skýrslunni, þannig að það er ekki hægt að fullyrða eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir okkur í dag, að matið hafi verið 10% alls staðar utan Reykjavíkur allan tímann.

Hv. fyrirspyrjandi var að tala hér um í þessu sambandi blað hæstv. fjmrh. Blaðið held ég að hafi ekkert um þetta sagt frá sínu sjónarmiði. Það hefur hins vegar maður ritað greinar í blaðið undir nafni um þessi mál, þar sem hann heldur því fram, að eigin húsaleiga sé yfirleitt of lágt metin. Ég hygg, að hann hafi nú rætt aðeins matið í Reykjavík, en það kemur, eftir því sem ég bezt veit, ekkert fram í þessum greinum um það, að ef hækkað væri mat eigin húsaleigu í Reykjavík, þá ætti ekki einnig að hækka mat hennar annars staðar, ef húsaleigan er hliðstæð annars staðar. Mér skildist nefnilega, að hv. þm. vildi gefa það í skyn, að blað hæstv. fjmrh., eins og hann orðaði það, væri með einhvern sérlegan áróður um að hækka eigin húsaleigumatið hjá Reykvíkingum, en væri ósárt um, þó að það væri of lágt hjá öðrum. Um það hefur á hinn bóginn ekkert komið fram í blaðinu. Þetta vildi ég því leiðrétta.