26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (2852)

225. mál, sölunefnd setuliðseigna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér hefur verið skýrt svo frá, að starfandi sé á vegum ríkisins eins konar verzlunarfyrirtæki, sem verzli með ýmsar eignir, keyptar á Keflavíkurflugvelli af varnarliðinu, og starfi að þessu nokkrir menn. Mér var forvitni á því að vita, hvaða kostnað ríkið hefði af þessum verzlunarrekstri sínum, og fletti þess vegna upp í fjárlögum til þess að gá að því. Ég tvífletti fjárlögunum og fann engar upplýsingar um, að ríkið hefði nokkurn kostnað af þessu. Nú datt mér í hug, að skýringin væri sú, að ríkið hefði hagnað af þessum viðskiptum. En þá hefði verið eðlilegt, að sá hagnaður væri sýndur í tekjuliðum fjárlaganna einhvers staðar. Hann var ekki heldur að finna neins staðar í tekjubálki fjárlaganna. Skýringin á því getur auðvitað verið sú, að þessar tekjur séu færðar sem óvissar tekjur.

Engu að síður vaknaði hjá mér forvitni um að fá að vita meira um þennan verzlunarrekstur ríkisins. Í fyrsta lagi má segja, að það sé óeðlilegur færslumáti á fjárlögunum að tilgreina ekki allan kostnað, sem ríkið hefur af rekstri sínum, jafnvel þó að ríkissjóðurinn fái tekjur á móti, og þá tekjurnar allar í heild, þannig að menn eigi auðvelt með að gera sér glögga grein fyrir, hver niðurstaðan er af þessum rekstri. En sem kunnugt er, hefur ríkisstj. tekið upp á því að sleppa alveg úr fjárlögum vissum gjaldaliðum, ef hlutaðeigandi stofnanir afla sér tekna á móti. Þannig er því t. d. háttað um fjárhagsráð, sem alveg hefur verið sleppt úr fjárlagafrv., vegna þess að kostnaður við fjárhagsráð er greiddur af sérstöku gjaldi, sem lagt er á þá, sem njóta þjónustu ráðsins. Það hefur áður verið að því fundið hér á hinu háa Alþ., að þetta sé óeðlilegt. Og það er óeðlilegt. En sérstaklega óeðlilegt er það þó, ef ríkið stundar ákveðin viðskipti, beina verzlun með vörur, í fyrsta lagi í heimildarleysi, þ. e. a. s. án þess að hafa aflað sér skýrrar lagaheimildar til slíks verzlunarrekstrar frá Alþ., og í öðru lagi án þess að gera Alþ. nokkra grein fyrir því, hver kostnaðurinn er við þennan rekstur og hverjar tekjurnar eru af honum. Það er lagt fyrir Alþ., ef ráða á einn starfsmann í sumar stofnanir. Hefur ýmsum fundizt slík smámunasemi vera ástæðulaus af hálfu löggjafans. En meðan þeirri reglu er þó haldið, að það verður að bera sumar mannaráðningar undir Alþ. eða undir fjvn., þá er náttúrlega eðlilegt, að það gildi um allar mannaráðningar og um allar stofnanir. En hér er sem sagt dæmi um eina stofnun, sem engar upplýsingar finnast um á fjárlögum. Er því fyllsta ástæða til þess, að um sé spurt, samkvæmt hvaða heimild hún sé rekin og hvaða kostnaður af henni hljótist og hvaða tekjur séu samfara þessum rekstri.

Það er af þessu tilefni, sem fyrirspurnin er fram borin. Um það er spurt, hvort sölunefnd setuliðseigna, sem stofnuð var samkv. þál. á sínum tíma, starfi enn eða hvort önnur n. hafi tekið við störfum hennar eða hliðstæðum störfum, og þá, ef nú sé starfandi slík n., hvernig hún sé skipuð og hversu marga menn hún hafi í þjónustu sinni. Enn fremur er spurt um hagnaðinn af þessum viðskiptum öllum frá upphafi og á s. l. ári og enn fremur um kostnaðinn frá upphafi og á s. l. ári. Jafnframt, hver kostnaðurinn muni verða á næsta ári, þar sem engar upplýsingar um hann er að finna í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Og svo að síðustu, sem engan veginn er ástæðulaust, samkvæmt hvaða heimild slík viðskipti eru stunduð.