21.01.1953
Sameinað þing: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2858)

200. mál, virkjunarskilyrði á Vestfjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn um virkjunarmöguleika á Vestfjörðum hef ég aflað mér upplýsinga frá raforkumálastjóra, sem hefur haft með þessar mælingar að gera, og ég held, að þessu verði bezt svarað með því að lesa í aðalatriðum bréf hans. Tekið er fram, að þó að ekki hafi gengið mjög fljótt með þessa rannsókn, þá hefur verið varið til hennar verulegum fjármunum, og það er vitanlega ekki hægt að búast við því, að þessar rannsóknir eða framkvæmdir á sviði raforkumálanna gangi hraðar en efni standa til samkvæmt þeim fjárveitingum, sem þingið leggur til þeirra, en þær eru, eins og kunnugt er, mjög af skornum skammti.

Ég skal þá lesa upp bréfið, sem gefur upplýsingar um það, hvar þessum málum nú er komið :

„Sumarið 1952 fóru fram landmælingar á svæðunum kringum Dynjanda og Mjólkárnar í botni Arnarfjarðar. Voru framkvæmdar þar mælingar, sem nauðsynlegar voru taldar til viðbótar fyrri mælingum á þessu svæði, til þess að unnt verði að gera frumáætlanir um fullnaðarvirkjun ánna í botni Arnarfjarðar og fella síðan dóm um það, hvort hagkvæmt eða tiltækilegt sé að ráðast í virkjun á þessum stað handa Vestfjörðum öllum.

Hér hefur verið unnið að því að reikna út úr mælingunum og gera uppdrætti samkvæmt þeim. Hefur því verki verið hraðað svo sem tök voru á fyrir það takmarkaða fé, sem til þess var heimilað að nota, og vonast ég til, að uppdrættir af landssvæðinu verði tilbúnir um miðjan febrúar.

Árni Snævarr verkfræðingur var með í ráðum um mælingar í sumar og gerði tillögur um, hver svæði skyldu mæld. Hann fylgdist með úrvinnslu úr mælingunum og hefur tekið að sér að gera síðan í samvinnu við rafmagnsverkfræðinga raforkumálaskrifstofunnar áætlun eða áætlanir um virkjun umræddra fallvatna. Er þess vænzt, að þeim áætlunum verði lokið í vor eða að minnsta kosti svo langt komið, að unnt verði að fella þann dóm, er að framan getur.“ Þ. e. a. s. hvort tiltækilegt sé að virkja þessi fallvötn fyrir Vestfirði alla. Bréfið heldur síðan áfram:

„Afl ánna í botni Arnarfjarðar er talið vera allt að 20 þús. hestöfl, en Vestfirðirnir þurfa ekki á að halda nema í kringum 7 þús. hestöflum. Aflið er því nægilegt, en það er mjög hætt við, að niðurstaða þessara úrslitarannsókna verði sú, að sameiginleg virkjun á þessum stað og veitur út frá henni um Vestfirði muni verða svo kostnaðarsöm, að ekki komi til mála að ráðast í framkvæmd hennar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Verði niðurstaðan þessi, verður í þess stað um það að ræða að virkja nokkrar smáár víðs vegar um Vestfjarðakjálkann handa einstökum kauptúnum, en vinna raforku úr dieselstöðvum eða öðrum stöðvum að því leyti, sem smávirkjanirnar nægja ekki. Fer því nú, samtímis athugun á Dynjanda, einnig fram athugun á því, hvaða smávirkjanir geta komið til greina á hverjum stað, ef ekki er hægt að hafa samveitu fyrir Vestfirði alla.

Í leit að hagkvæmum virkjunarskilyrðum í smáám á Vestfjörðum hefur ótrúlegur fjöldi áa og lækja verið athugaður. Meðfylgjandi er listi yfir 80 ár, sem raforkumálaskrifstofan hefur látið athuga meira og minna. Vatnsrennslismælingar hafa farið fram á 37 þeirra, og fastir mælistaðir eru á átta stöðum á Vestfjörðum. Því miður er meginþorri áa og lækja á Vestfjörðum hreinar dragár, sem renna um bratt, jarðvegslítið land og eru að kalla vatnslausar svo að mánuðum skiptir á vetrum og þess vegna alls ekki nýtanlegar til virkjunar til raforkuvinnslu nema e. t. v. fyrir einstök býli. Nokkrar ár renna þó úr stöðuvötnum, sem safna vatni úr gljúpum jarðvegi og nálgast það að vera lindarár eða hafa önnur miðlunarskilyrði. Sumar þeirra og einstaka af hinum stærri dragám koma til athugunar til virkjunar handa einstökum kauptúnum eða fleiri saman.

Áætlanir eru fyrir hendi um virkjanir að minnsta kosti á 16 af þessum ám, og eru þær hér taldar.“

Hafa menn áhuga fyrir því, að lesinn sé upp listinn yfir þessar 16 ár, — það geta fyrirspyrjendur fengið í þessu áliti, en það eru taldar hér upp 16 ár, sem hafa verið athugaðar? (Gripið fram í.) Að fá þær lesnar upp? Það er „1. Þverá á Langadalsströnd, 2. Kalmansá í Mjóafirði, 3. Húsadalsá í Mjóafirði, 4. Eyrardalsá í Álftafirði, 5. Langá í Engidal, 6. Fossá í Hólshreppi, 7. Núpsá í Dýrafirði, 8. Hvallátraá í Dýrafirði, 9. Hvammsá í Dýrafirði, 10. Fossá í Fossfirði, 11. Seljadalsá við Bíldudal, 12. Djúpsá við Bíldudal, 13. Tunguá í Tálknafirði, 14. Ósá í Patreksfirði, 15. Suður-Fossá á Rauðasandi, 16. Vatnsdalsá í Vatnsfirði.

Áætlanir þessar benda til þess, að við ekkert af kauptúnum á Vestfjörðum muni fást hagkvæm virkjun fullnægjandi að afli í námunda við kauptúnin og að hvarvetna muni þurfa að reka dieselstöðvar með smávirkjunum sem vara- og toppstöðvum. Ísafjarðarkaupstaður er ekki betur settur, en aðrir staðir á Vestfjörðum í þessu efni, og hafa sem kunnugt er verið gerðar áætlanir um gufurafstöð fyrir kaupstaðinn, sem sameinuð yrði hitaveitu um bæinn.

Ég mun ekki rekja,“ segir raforkumálastjóri, „þessi mál öllu lengur hér, en get gefið ýtarlegri greinargerð með nokkrum fyrirvara, ef ráðuneytið óskar þess, en eins og áður er sagt, er stefnt að því að ljúka nú í vetur höfuðþætti rannsóknanna og fá úr því skorið, hvort hyggja eigi á sameiginlega vatnsvirkjun og eina veitu um Vestfirði alla eða notast við smávirkjanir og olíu- og kolastöðvar um næstu framtíð.

Þá er og ætlunin að hafa samtímis tilbúnar tillögur um hentugar smávirkjanir, er komið gætu til mála í stað stórvirkjana.“

Ég vænti þess, að þetta séu nægar upplýsingar um það, sem um er spurt. Eins og kemur fram í bréfi raforkumálastjóra, segist hann vera fús til þess að gefa nánari upplýsingar um einstakar ár, og þær voru nú að vísu gefnar hér í þinginu í fyrra, en það yrði svo langt mál að lesa upp þessar niðurstöður, sem ég hef nú ekki heldur hér meðferðis, að ég sá ekki ástæðu til þess að koma með þær hingað og gera það, en þær upplýsingar geta fyrirspyrjendurnir fengið í ráðuneytinu, hvenær sem þeir óska.