21.01.1953
Sameinað þing: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

200. mál, virkjunarskilyrði á Vestfjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú kannske ekki ástæða til þess að vera að ræða þetta nánar, en ég vil nú samt sem áður vekja athygli á því út af þeim ummælum, sem hér hafa fallið um stuðning við dieselrafstöðvarnar, að það er ekki nema ein leið til þess s.ð ráða bót á því, og það er að afla fjárveitingar á fjárlögum til þess að styrkja þessar stöðvar. Að öðrum kosti eru áskoranir á mig og ríkisstj. alveg þýðingarlausar, því að við veitum vitanlega ekki það fé, sem við höfum ekki á milli handa samkvæmt þeim ákvörðunum, sem fjárveitingavaldið — Alþingi — tekur þar um.

Það gegnir sama máli viðkomandi þessum rannsóknum, sem hér er um að ræða. Það var þannig í fyrra, að þegar átti til að taka og hefja rannsóknir á Vestfjörðum, þá var ekkert fjármagn til þess, og var meira að segja vakin athygli fjárveitingavaldsins á því, áður en gengið var frá fjárl. þá, að það yrði ekki fjármagn til þess, því að þessar rannsóknir kosta mikið fé. Hins vegar var veitt nokkurt fjármagn á fjárlögum s. l. árs til þess að vinna þetta verk. Ég fullyrði það, og ég er sannfærður um það, að hv. þm. N-Ísf. kemst að þeirri niðurstöðu við athugun á því, hvernig þetta verk hefur verið unnið, að það hefur verið ómögulegt að hraða því meir. Það hefur yfirleitt verið unnið samstundis fyrir hvern einasta eyri, sem veittur hefur verið af Alþingi til raforkuframkvæmda, hvort sem hefur verið við rannsókn eða annað.

Viðvíkjandi því, að þetta hafi tafið framkvæmdir á Vestfjörðum, þá vil ég nú satt að segja draga í efa, að það sé rétt, af þeirri einföldu ástæðu, að það hefur ekkert lánsfé fengizt til þess að gera þessar framkvæmdir, sem þar liggja fyrir. Það er unnið að öllum raforkuframkvæmdum núna, eins og ég sagði áðan, fyrir hvern einasta eyri, um leið og hann er veittur og um leið og tekst að fá lán til þess að hrinda þessum framkvæmdum áfram. Ég held því, að þetta verk hjá raforkumálastjóra hafi verið unnið eins fljótt og auðið var, og ég held líka, að hann hafi notað til þess þá starfskrafta, sem þeir, sem þarna eiga hlut að máli, geta verið mjög ánægðir með. Ég held, að það fari varla á milli mála, að Árni Snævarr er einn af færustu verkfræðingum landsins, að talið er, og starfskraftar hans hafa verið notaðir til þess að vinna þetta verk undireins og hægt var, vegna þess að fjármunir voru til þess veittir.

Annars er það alveg rétt, og ég vil undirstrika það, sem hv. þm. og fyrirspyrjandi sagði hér, að vitanlega eru fjárveitingar Alþ. allt of litlar til þessara mála, og það er ástæða til þess að undirstrika þau orð hans, og með þessar fjárveitingar hef ég alltaf verið mjög óánægður, bæði í ár og undanfarin ár. En það gengur nú þannig, að það er í mörg horn að líta, og þetta hefur nú orðið svona að vera, þó að slæmt sé við það að una.