21.10.1952
Neðri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

87. mál, prófesorsembætti í læknadeild háskólans

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti.

Frv. þetta var lagt fyrir síðasta Alþingi og hlaut þá ekki afgreiðslu, og hefur ríkisstj. orðið ásátt um að leggja frv. nú fyrir þetta þing. Það er fyrir eindregin tilmæli háskólaráðs, að þetta hefur verið gert, sökum þess að það telur knýjandi þörf fyrir aukna kennslukrafta í þeim fræðum, sem hér um ræðir, í lífeðlis- og lífefnafræði. Eftir að prófessorsembætti var stofnað í þessum fræðigreinum, 1937, innrituðust árlega að meðaltali í læknadeild 16 stúdentar, en á síðustu árum hafa árlega innritazt að jafnaði 44 stúdentar í deildina. Árin 1932–37 var nemendafjöldinn í læknadeild að meðaltali 69 stúdentar, en á árunum 1946–51 var stúdentafjöldinn að jafnaði 156. Af þessu má sjá, að afar mikil aukning hefur orðið á nemendafjölda í læknadeild, síðan núverandi prófessor í lífefna- og lífeðlisfræði tók við störfum.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir Háskóla Íslands að geta veitt stúdentum sem mesta og bezta fræðslu í þessum efnum, svo að þeir þurfi að sækja sem minnsta framhaldsfræðslu til útlanda að námi loknu í háskólanum. — Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntamálanefndar.