20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2887)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við í meiri hl. n. leggjum til, að frv. verði samþ., en tveir nm. vilja hins vegar láta fella frv., og hafa þeir skilað séráliti um það.

Svo sem frá er skýrt í nál. beggja nefndarhluta, þá leitaði samgmn. umsagnar bæði ferðaskrifstofanna þriggja hér í bænum og einnig Sambands veitingahúsa- og gistihúsaeigenda um frv. Umsagnir bárust frá ferðaskrifstofunum öllum, en hins vegar ekki frá Sambandi veitingahúsa- og gistihúsaeigenda. Svo sem vænta mátti, voru umsagnir ferðaskrifstofanna ekki allar á einn veg. Ferðaskrifstofa ríkisins mælti á móti því, að frv. yrði samþ., en hinar tvær ferðaskrifstofurnar mæltu með því og töldu óeðlilegt, að ríkið ræki ferðaskrifstofu, sem hefði algera einokun á móttöku erlendra ferðamanna eins og nú er í l. um Ferðaskrifstofu ríkisins. Bentu þær jafnframt á það, að slíkt skipulag mundi ekki tíðkast hér í neinu nágrannalandi og þó að ríkið ræki ferðaskrifstofur víða, þá væri þeim ferðaskrifstofum fyrst og fremst ætlað að sinna upplýsingastarfsemi um landið á erlendum vettvangi, en ekki beinlínis því verkefni, sem ferðaskrifstofa ríkisins hefur tekið sér hér.

Í l. um ferðaskrifstofu ríkisins er henni veitt einkaaðstaða til þess að sinna móttöku erlendra ferðamanna. Það er þó tekið þar fram, að heimilt sé ráðh. að leyfa erlendum ferðaskrifstofum, sem áður hafa starfað hér á landi, að hafa umboðsmenn hér á landi og setja þá reglur um starfssvið þeirra og eftirlit með starfsemi þeirra. Samkvæmt l. er því gert ráð fyrir því, að víssar undanþágur séu frá þessum einkaréttarákvæðum varðandi ferðaskrifstofuna og nái svoleiðis undanþáguheimildir til erlendra ferðaskrifstofa, sem hafi hér umboðsmenn. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir, að það megi veita undanþágu innlendum ferðaskrifstofum, sem ekki eru aðeins umboðsmenn fyrir erlendar ferðaskrifstofur, heldur starfa hér sjálfstætt. — Meiri hl. n. hefur talið þessa skipun mála óeðlilega, og úr því að ráð er fyrir því gert, að undanþágur séu veittar, og undanþágur munu hafa verið veittar, þá sé í alla staði óeðlilegt að leyfa ekki öðrum aðilum, sem ýmsir hefðu jafnvel enn betri aðstöðu til þess að sinna móttöku erlendra ferðamanna og mynduðu með sér samtök um það, að annast slíka fyrirgreiðslu. Það væri í raun og veru mjög eðlilegt, að ýmsar stofnanir hér á landi, sem einkum sinna verkefnum, sem eru í nánu sambandi við erlendar ferðamannaheimsóknir, hefðu t. d. með sér samstarf um rekstur ferðaskrifstofu, sem vel væri hugsanlegt, og á ég þar við aðila eins og t. d. flugfélögin, Eimskipafélag Íslands, Samband veitingahúsa- og gistihúsaeigenda og ýmsa fleiri, þar sem hægt væri að tengja þetta starf saman á mjög eðlilegan hátt. En ferðaskrifstofa ríkisins getur hins vegar haft það verkefni, sem henni var upphaflega aðallega ætlað, og það er að kynna landið erlendis, sjáum útgáfu bóka og bæklinga um landið og þannig að vekja athygli á því og glæða ferðamannastraum hingað, en að ferðaskrifstofan hafi síðan ein heimild til að veita móttöku þessum ferðamönnum, sem hingað koma, telur meiri hl. óeðlilegt og ekki heppilegt skipulag.

Því hefur verið hreyft af framkvæmdastjóra Ferðaskrifstofu ríkisins, að ef einkaréttur ferðaskrifstofunnar að þessu leyti yrði afnuminn, þá mundi það hafa í för með sér stóraukinn rekstrarhalla á Ferðaskrifstofu ríkisins, og virðast það vera meginröksemdirnar gegn því, að þetta frv. nái samþykki. Ég hygg, að í þessu sé æði mikill misskilningur, vegna þess að reyndin mun vera sú, að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur ekki haft sérlega miklar tekjur af móttöku erlendra ferðamanna, heldur liggja hennar megintekjur á öðrum sviðum, þannig að þó að dragi eitthvað úr því starfi hennar, þá ætti það ekki að skapar neina sérstaka hættu á því, að rekstrarhalli hennar ykist að mun. Það er nú satt að segja dálítið einkennilegt, að það skuli þurfa að vera mikill rekstrarhalli á ferðaskrifstofu ríkisins, ef aðrir aðilar telja sér fært og telja sig hafa möguleika til að reka ferðaskrifstofur hallalaust. Það er því sameiginleg skoðun nm. meiri. hl., að það sé rétt að samþ. þetta frv. með hliðsjón af því ástandi, sem ríkjandi er í þessum málum. Hins vegar óskar einn nm., hv. 2. landsk. þm., sérstaklega tekið fram — svo sem nál. greinir — að fylgi sitt við málið byggist ekki á, neinni andstöðu við Ferðaskrifstofu ríkisins, hann telji eðlilegt, að hún hafi sömu starfsemi áfram og hún hefur haft, en aðrir nm. í meiri hl. telja aftur mjög vel geta komið til greina að athuga, hvort ekki sé eðlilegt að breyta starfsháttum ferðaskrifstofunnar og jafnvel að leggja ferðaskrifstofuna niður, þó að þeir telji ekki tímabært á þessu stigi og í sambandi við þetta mál að gera till. um það.

Það er því sem sagt till. meiri hl. n., að umrætt frv. um að afnema einkarétt Ferðaskrifstofu ríkisins til móttöku erlendra ferðamanna verði samþ.