21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Stefán Jóh. Stefánsson [frh.:

Herra forseti. Ég skal nú ekki bæta ýkja mörgu við það, sem ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar hér um þetta mál í gær, þar sem ég þóttist hafa gert nokkra grein fyrir því af minni hálfu, hvers vegna ég væri andstæður því frv., sem hér liggur fyrir. Ég vildi aðeins sem eins konar lokaorð í sambandi við þetta mál draga það saman, sem ég hef áður sagt, eða sérstaklega varpa fram þeirri spurningu, sem Rómverjar hinir fornu gerðu: Qui bono — hverjum til góðs — ætti að vera að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir? Ég þóttist hafa fært rök fyrir því, að ég gæti ekki séð, að þjóðfélaginu sjálfu, félagsheildinni, væri nokkur greiði gerður með því að samþ. frv. og gefa þá fleirum kost á að reyna sig og keppa með mismunandi hætti um það að veita fyrirgreiðslu útlendum ferðamönnum, sem til landsins koma, vegna þess að ég þóttist hafa slegið því föstu með nokkuð ríkum rökum, að ferðaskrifstofa ríkisins hefði gegnt þessu hlutverki prýðilega, svo að ekki væri undan kvartað, hvorki af hálfu ríkisins sjálfs, sem rekur þessa stofnun, né af hálfu þeirra viðskiptavina, er sérstaklega hafa til ferðaskrifstofunnar leitað í þessum efnum, þ. e. erlendra ferðamanna. Þvert á móti hafði ég fulla vitneskju um það, að erlendu ferðamennirnir höfðu yfirleitt lokið lofsorði á ferðaskrifstofuna fyrir fyrirgreiðslu hennar. En hvað er þá yfirleitt unnið með þessu, að gefa einhverjum örfáum mönnum tækifæri til þess að reyna sig frekar en áður við að taka á móti erlendum ferðamönnum? Reynslan, sem áður var í þessum efnum, sýndi það greinilega, að það var óheppilegt. Það var slegizt um ferðamennina, eins og maður getur sagt, allt að því eins og hungraður seppi um bein. Það var leitað eftir því að ná í þá til þess að aðstoða þá hér á landi. Stundum voru þeir flekaðir meira að segja af ábyrgðarlitlum mönnum, sem voru nógu tungumjúkir til þess að ná sambandi við þá. Og upp úr því höfðu útlendingarnir það eitt, að þeir fengu minni og lakari fyrirgreiðslu en ella, en urðu að greiða meira fé fyrir.

Ég er hræddur um, að í sama farið mundi falla að nýju, ef breytt yrði hér um skipulagshætti og ferðaskrifstofan ætti ekki ein að annast um þetta, eins og hefur verið síðan l. um

þetta efni öðluðust gildi: Ég sé því sem sagt ekki, að þetta frv. þjóni neinum nytsamlegum tilgangi, heldur sé það eingöngu flutt til þess að gefa kannske örfáum mönnum færi á því að reyna sig í eins konar spákaupmennsku viðkomandi móttöku erlendra ferðamanna, og tel ég, að það yrði frekar til þess að varpa skugga á Ísland og heimsóknir erlendra manna til landsins, heldur en það öfuga. Ferðaskrifstofan hefur sinnt þessu hlutverki sinu; hún getur það, og verkefnið er sannarlega ekki svo víðtækt, að þörf sé á því að leiða fleiri menn að því sérstaklega, hvetja þá til þess að reyna að fá sér aukaaura með því að ná í erlenda ferðamenn og veita þeim atbeina hér á landi.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð mín lengri, en enda með því, eins og ég hef áður lýst í ræðu mínni, að ég legg fyrir mitt leyti eindregið til, að frv., sem fyrir liggur, verði fellt.