17.11.1952
Neðri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

145. mál, skipun læknishéraða

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við höfum þrír þm. þessarar d. leyft okkur að bera fram á þskj. 225 frv. til l. um, að Egilsstaðahéraði verði skipt í tvö læknishéruð. Flm. ásamt mér eru hv. 1. þm. S-M. og hv. 2. landsk. þm. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að Egilsstaðalæknishéraði á Fljótsdalshéraði sé skipt í tvö læknishéruð, og má gera ráð fyrir, að í hvoru læknishéraði verði þá milli 800–900 manns. Í frv. er gert ráð fyrir, að báðir héraðslæknarnir, sem ætlazt er til að sitji að Egilsstöðum, annist í félagi starfrækslu sjúkrahússins, sem þegar er þar á staðnum, og að sá héraðslæknirinn, sem er eldri í starfi, verði yfirlæknir við sjúkrahúsið. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að með samþykki landlæknis og samkv. reglum, sem hann kann að setja þar um, megi hafa sameiginlega lyfjabúð fyrir báða lækna héraðanna. Og sem bráðabirgðaákvæði er tekið fram í frv., að núverandi héraðslæknir, sem situr að Egilsstöðum, haldi þeirri íbúð í læknisbústaðnum, sem hann hefur nú.

Þetta frv. er að efninu til kunnugt hv. þm. frá síðasta þingi. Þá kom fram í d. frv. til l. um skiptingu á einu læknishéraði á Norðurlandi, og undir meðferð málsins fluttum við sömu þm. brtt., þar sem lagt var til að skipta Fljótsdalshéraði í tvö læknishéruð. Hv. þd. féllst á þessa brtt. og afgr. málið þannig út úr d., en eins og þd. er kunnugt um, þá fékk málið ekki afgreiðslu í Ed. og var vísað frá með rökstuddri dagskrá, þar sem m. a. var gert ráð fyrir, að málið yrði tekið upp á þessu þingi, ef nauðsyn krefði. Hv. þdm. munu frá síðasta þingi vera í minni þær ástæður, sem ég flutti þá fram um nauðsyn þess að skipta Egilsstaðalæknishéraði í tvö læknishéruð.

Það er kunnugt, að Fljótsdalshérað hafði tvo lækna og var tvö læknishéruð þangað til 1945. Með samþykkt l. nr. 8 frá 1944 var ákveðið, að Fljótsdalshérað skyldi framvegis verða eitt læknishérað. Íbúar Fljótsdalshéraðs voru þá þegar mjög margir andvígir þeirri breytingu. Þeir bentu á, að það hefðu áður verið tveir læknar á Fljótsdalshéraði og sýnt sig þá, að það var lágmark þeirrar læknisþjónustu, sem um gat verið að ræða. Þeir bentu á, að það væri fjarri öllu lagi að treysta því, þótt l. nr. 8 frá 1944 gerðu ráð fyrir, að héraðslæknirinn að Egilsstöðum, sem átti samkv. l. að þjóna öllu Fljótsdalshéraði, fengi einlægt aðstoðarlækni. Þá bentu menn á, að það væri ofætlun að gera ráð fyrir því, að einn reyndur læknir gæti annað öllum læknisstörfum í þessu víðlenda og erfiða héraði, þar sem vegalengd milli yztu bæja við sjó til innstu dalabyggða væri hátt á annað hundrað km og héraðið væri þar að auki sundurskorið af stórvötnum og að vetrarlagi mjög erfitt umferðar vegna snjóþyngsla. Það var einnig bent á það af íbúum héraðsins, að það næði ekki nokkurri átt að gera ráð fyrir því, að það sjúkrahús, sem stóð þá til samkv. l. að reisa að Egilsstöðum, væri hægt að nýta til gagns fyrir héraðsbúa með því að hafa aðeins einn fullreyndan lækni, sem þyrfti að sinna sjúkraferðum um allt þetta víðlenda hérað jafnframt umsjá á sjúkrahúsinu, því að jafnvel þótt svo yrði, að einlægt væri til staðar aðstoðarlæknir, þá væri ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það fengist fastur maður í það embætti, enda ekki til þess ætlazt, heldur yrðu það menn, sem kæmu og færu, og yfirleitt yrðu óreyndir læknakandídatar fengnir til starfsins eða jafnvel að það þyrfti að lúta að því að notast við læknaskólanema. Það var þess vegna spá manna strax heima í héraðinu, þegar þessi breyt. átti sér stað, að tvö læknishéruð voru sameinuð í eitt á Fljótsdalshéraði, að það mundi strax sýna sig, að slíkt væri óhafandi, og það kom fljótt í ljós.

Strax eftir að l. frá 1944 tóku gildi í ársbyrjun 1945, var horfið að því að byggja að Egilsstöðum, þar sem læknirinn átti að hafa búsetu, læknisbústað ásamt myndarlegu sjúkraskýli. Læknisbústaðurinn var hafður það stór, að auk íbúðar fyrir héraðslækninn var þar ætluð viðunandi íbúð fyrir aðstoðarlækni. En það sýndi sig fljótt. þegar til kastanna kom, að þessi lagabreyt. frá 1944 var óheillaráð. Fyrsti aðstoðarlæknirinn til héraðsins kom ekki fyrr en á miðju ári 1946, og síðan hafa samtals 7 aðstoðarlæknar, hver um tiltölulega stuttan tíma, verið þar starfandi. Og það hefur farið eftir spá manna, að það hafa yfirleitt verið læknakandídatar, sem hafa fengizt um stuttan tíma til þess að fá sína nauðsynlegu þjálfun og hafa síðan horfið frá héraðinu til þess að taka við sjálfstæðu læknisstarfi annars staðar. Það hafa sem sagt einlægt verið óreyndir menn, sem hafa valizt til þess að vera aðstoðarlæknar hjá héraðslækninum að Egilsstöðum. En það hefur ekki einu sinni orðið svo, að aðstoðarlæknir hafi verið úrtakalaust í héraðinu. Það hefur þráfaldlega komið fyrir, að héraðslæknirinn hefur orðið einn að sinna öllum störfum, bæði að fara allar sjúkravitjanir um þetta erfiða og víðlenda hérað, auk þess sem hann hefur þurft að hugsa um sjúklinga á sjúkrahúsinu að Egilsstöðum. Það má nærri geta, hvort sjúkrahúsið út af fyrir sig hefur getað notið sín á þennan hátt. Vöntun aðstoðarlæknanna hefur verið mjög tilfinnanleg yfirleitt, en allra tilfinnanlegust þegar það hefur komið fyrir, sem tvísvar hefur skeð, að hann hefur vantað að vetrarlagi.

Það er því staðreynd, að það verður ekki hægt að una við það lengur, að Fljótsdalshérað sé eitt læknishérað með aðstoðarlækni með höppum og glöppum. Þess vegna er þetta frv. fram komið, þar sem lagt er til, að Fljótsdalshéraði verði skipt í tvö læknishéruð með tveimur föstum héraðslæknum, búsettum að Egilsstöðum. Frv. er flutt samkvæmt einróma áskorun íbúa Fljótsdalshéraðs og þ. á m. héraðslæknisins sjálfs, sem gera verður ráð fyrir að kunni bezt að dæma um, hvað lágmark er í þessum efnum.

Ef á það er litið, hvaða kostnaðarauki fylgir því að skipta læknishéraðinu, þá verður að gera ráð fyrir því, að hann verði mjög lítill og í raun og veru enginn hvað snertir laun, gangandi þó út frá því, að aðstoðarlæknir sé einlægt til staðar, en vegna þess að aðstoðarlæknir hefur ekki einlægt verið í starfi, þá hefur þurft að greiða slíkum manni minna, en þarf að greiða föstum lækni.

Það hafa ýmsir bent á, að læknisbústaðurinn, sem nú er að Egilsstöðum, sé tæplega nógu stór, til þess að hægt sé að láta tveim læknum í té viðunandi íbúð. Það er vitað, að héraðslæknirinn hefur mjög góða íbúð í bústaðnum, og enn fremur, að aðstoðarlækninum er ætluð fjögurra herbergja íbúð til afnota. Það má vel vera, að reynslan verði sú, að þar þurfi einhverju við að bæta og það verði þá aðallega sá kostnaður, sem af þessari breyt. kann að leiða. Vera má, að það þurfi þó, þegar stundir liða, að láta öðrum héraðslækninum í té betri íbúð en hann hefur nú að að hverfa í læknisbústaðnum, sem nú er fyrir hendi.

Ég reifaði þetta mál nokkuð á síðasta þingi og tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið á þessu stigi. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þessi d. taki á málinu með vinsemd og skilningi. Hún gerði það á síðasta þingi og afgreiddi það tafalítið frá sér, og það er ekki við hana að sakast, þótt málið fengi ekki lokaafgreiðslu þá. Ég vil svo mælast til þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.