17.11.1952
Neðri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

145. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Á síðasta Alþ. flutti hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. frv. um breyt. á þeim l., sem hér er lagt til að breyta, á þann veg að skipta Blönduóshéraði í tvennt. Þetta frv. var flutt að tilhlutun hæstv. forsrh., sem jafnframt er heilbrmrh., og samkv. ósk minni fyrir hönd héraðsbúa, þeirra sem eru í hinu fyrirhugaða Höfðahéraði. Þessu frv. var, eins og síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. N-M., tók fram, breytt þannig hér í meðferð þessarar hv. deildar, að inn í það var bætt einnig skiptingu á Egilsstaðahéraði, og á þann veg var þetta frv. samþ. hér í þessari hv. deild og sent Ed., en varð ekki afgreitt þar.

Nú hef ég leyft mér að flytja hér brtt. við það frv., sem fram hefur verið lagt um skiptingu Egilsstaðahéraðs, sem fer fram á þessa sömu ósk, að skipta Blönduóshéraði í tvö læknishéruð, þar sem Höfðahreppur og Skagahreppur verði nýtt læknishérað, en það eru nú orðið nokkuð fjölmennar sveitir. Það skal tekið fram, eins og hér var greinilega að vikið á síðasta þingi, að allir telja það sjálfsagt þar heima í héraði og auðvitað hvarvetna annars staðar, að þó að þessi skipting fari fram, þá verði sameiginlegt það sjúkrahús, sem nú er byrjað að byggja á Blönduósi. Ég vildi flytja þessa brtt. nú þegar, til þess að hún lægi strax fyrir þeirri hv. nefnd, sem fær frv. til meðferðar og auðvitað verður hv. heilbr.- og félmn., og ég vænti þess, að frá henni sé sama skilnings og velvilja að vænta til þessarar breyt. eins og var í fyrra, þar sem hún flutti frv. um það eitt, sem mín brtt. fer fram á. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til nú að fjölyrða frekar um brtt., en veit, að henni verður jafnframt frv. vísað til hv. nefndar.