20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Hin rökstudda dagskrá, sem hv. mínni hl. heilbr.- og félmn. flytur og hefur gert grein fyrir, er byggð á því, að í kjölfar þessa frv., sem hér er til umr., hljóti það að fara, að mörg ný embætti verði stofnuð. Ég tel ástæðu til að fara um þetta örfáum orðum og gera grein fyrir því, hvernig mér virðist málið liggja fyrir og að þessi rökstudda dagskrá fái ekki með öllu staðizt.

Ég ætla, að það hafi verið árið 1942, að lagaákvæði voru sett um aðstoðarlækna héraðslækna. En 1944 eru tvö læknishéruð í Múlasýslu sameinuð og læknisbústaðurinn ákveðinn á Egilsstöðum. Jafnframt því að þetta er gert árið 1944, eru endurskoðuð lagaákvæðin um aðstoðarlæknana, og samkv. gildandi lögum eru þessi ákvæði um aðstoðarlæknana þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að verja úr ríkissjóði fé til að greiða laun allt að 5 aðstoðarlæknum héraðslækna í fjölmennum læknishéruðum, þar sem ekki eru starfandi læknar aðrir. en héraðslæknar.“ Um launagreiðslur til þessara manna er vísað í 10. gr. launalaga, og kem ég að því síðar. „Landlæknir semur við héraðslækna um víst og kjör aðstoðarlækna og skal að jafnaði leitast við að vista a. m. k. einn aðstoðarlækni í hverjum landsfjórðungi. Egilsstaðahérað skal ganga fyrir öðrum héruðum um aðstoðarlækna.“

Þetta er fellt í lög 1944, um leið og læknishéruðin voru þar sameinuð. Í 10. gr. launalaga, sem vitnað er til um launagreiðslur til þessara manna, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Héraðslæknar í héruðum 3. flokks hafa að launum 10.200 kr. Það eru grunnlaun, eins og þau voru ákveðin fyrir gengisbreytinguna. —Héraðslæknar í héruðum 2. flokks hafa í grunnlaun 7.200-9.600 kr. — Héraðslæknar í héruðum 1. flokks hafa í grunnlaun 6.000—7.800 kr. Aðstoðarlæknar héraðslækna, sbr. l. nr. 52 1942, hafa 9.600 kr., þ. e. a. s. hámarkslaun héraðslækna í 2. flokks héruðum.“

Af þessu er auðsætt, að það var ætlun löggjafans þegar 1944, að Egilsstaðahérað skyldi ganga fyrir öðrum læknishéruðum um aðstoðarlækna og að laun þeirra væru eins og hámarkslaun héraðslækna í 2. flokks héruðum. Og í trausti þess, að þannig yrði þetta í framkvæmd, mun sameiningin hafa átt sér stað, sem gerð var í Múlasýslu 1944. En því miður hefur reynslan orðið sú, að aðstoðarlæknarnir hafa ekki setið að Egilsstöðum að staðaldri, og af því mun sá áhugi vera sprottinn, sem að baki þessu máli liggur. Fyrsti aðstoðarlæknirinn kom ekki fyrr, en á miðju ári 1946, en alls hafa sjö læknakandídatar sinnt aðstoðarlæknisstörfum á Egilsstöðum frá þeim tíma til þessa dags. Sá fyrsti dvaldist á Egilsstöðum 15 mánuði, en þurfti á þeim tíma að hverfa frá um skeið til að þjóna öðru læknishéraði vegna forfalla læknisins þar. Annars hafa flestir aðstoðarlæknarnir verið 610 mánuði í starfi, og hefur héraðið alloft verið aðstoðarlæknislaust og tvisvar sinnum að vetrarlagi, en þessar upplýsingar tek ég úr grg. frv. Þrátt fyrir það að lagaákvæðin um, að Egilsstaðahérað skuli ganga fyrir öðrum héruðum um aðstoðarlækni, hafi verið í gildi 8 ár, þá hefur reynslan orðið þessi. Það, sem reynt er að tryggja með þessu frv. og þeim till., sem meiri hl. heilbr.- og félmn. stendur að er það, að á þessu verði sú breyting, að í Egilsstaðahéraði verði að staðaldri tveir læknar. Sameiningin var á sínum tíma gerð í trausti þess, að svo yrði, og til þess hefur verið ætlazt, að ríkið launaði þarna að staðaldri fastan aðstoðarlækni, svo að ný útgjöld vegna þessa máls eiga ekki að verða stórvægileg frá því, sem ætlað hefur verið, og er það von okkar, sem stöndum að áliti meiri hl. n., að verði þetta frv. afgreitt í því formi, sem við höfum lagt til, þá leiði reynslan í ljós, að með því fáist veruleg bót í læknaskipun á Fljótsdalshéraði frá því, sem verið hefur nú um sinn.