20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. N-M. var óvenjulega stórorður í hinni stuttu ræðu sinni áðan. Hann talaði um fjarstæðukenndan málflutning, hann talaði um órökstudda dagskrá og ýmislegt því um líkt, sem gerir það að verkum, að ég ætla að leyfa mér að fara fáeinum orðum um ræðu hans og afstöðu hans í málinu yfirleitt. Ég býst við því, að þessi gremja, sem kom fram í ræðu hans, eigi sér tvær orsakir, annars vegar þá, að hann hefur orðið fyrir þeim dálítið undarlegu örlögum að flytja frv., sem enginn í heilbr.- og félmn. vildi taka undir óbreytt, — ekki einu sinni þeir tveir flokksbræður hans, sem sæti eiga í n., og má nokkuð af því marka, hvers eðlis frv. var, að það skyldi ekki hljóta betri undirtektir en þetta. Ég geri ráð fyrir, að gremjan eigi í fyrsta lagi svolitla stoð sína í þessu. Í öðru lagi á hún vafalaust rót sína að rekja til þess, að hann hefur sjálfur ásamt — svo undarlega vill til — hv. frsm. heilbr.- og félmn. fyrir skömmum tíma, rúmum 5 vikum, lagt til að afgreiða tvö önnur embættamál með rökst. dagskrá, svo að segja alveg efnislega samhljóða þeirri, sem ég legg hér nú fram, og kom þá vilja sínum fram. En hinn 9. des. 1952 var í nál. lagt til að afgreiða 20. mál þingsins, sem var frv. um að fjölga um einn kennara í laga- og hagfræðideild háskólans, með svo hljóðandi rökst. dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem rekstrarútgjöld ríkisins eru þegar orðin mjög há og ástæða er til að gæta fyllstu varfærni um fjölgun embætta, telur deildin ekki rétt að lögfesta þetta frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta skrifa Páll Þorsteinsson, fundaskr., frsm., og Halldór Ásgrímsson.

M. ö. o.: Þeir tveir sömu menn. sem hér eru nú að leggja til að fjölga embættum — að leggja til stofnun nýs læknisembættis, hafa 9. des. 1952, eða fyrir um það bil 6 vikum, lagt til, að frv. um embættastofnun yrði vísað frá með tilliti til fjárhags ríkissjóðs. Og þeir létu raunar ekki við þetta sitja, því að þann sama dag — þeir voru stórvirkir þann dag, þeir ágætu flokksbræður og félagar í þessu máli — lögðu þeir einnig fram aðra rökst. dagskrá í sams konar máli, sem varðaði læknakennara, og hún hljóðar svona — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem auka þarf húsnæði læknadeildar Háskóla Íslands, ef sérstakur prófessor í lífeðlis- og lífefnafræði tekur þar til starfa, með því að hann fái til afnota húsnæði það, sem Húsmæðrakennaraskóli Íslands hefur nú til afnota, en ekki er tryggt, að húsmæðrakennaraskólinn fái annað húsnæði, og þar sem rétt er að gæta fyllstu varfærni um fjölgun embætta, vill deildin ekki lögfesta þetta frv., en tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Páll Þorsteinsson, fundaskr., frsm. Halldór Ásgrímsson.“

Ég get í sjálfu sér vel skilið, að þessum sömu ágætu þm. líði ekki reglulega vel, þegar þeir eftir 6 vikur þurfa að standa hér hvor á eftir öðrum og mæla með því, að nýtt embætti sé stofnað, en mæla á móti dagskrá, sem að efni til er nákvæmlega samhljóða þeirri dagskrá, sem þeir hafa undirskrifað og lagt fyrir Alþ. fyrir skömmum tíma. Þetta er velviljaðasta skýringin, sem ég get gefið á því, með hverjum hætti ræða hv. 2. þm. N-M. hér áðan var. Hann gat þess, og raunar hv. þm. A-Húnv. líka, að hann vildi ekki bera saman það að fjölga héraðslæknisembættum í sveit og fjölga læknakennurum við háskólann. Um það er náttúrlega það að segja, að því aðeins fá hinar dreifðu byggðir góða lækna, að sómasamlega sé séð fyrir læknakennslunni, en það verður ekki talið gert að óbreyttri þeirri skipun, sem nú er hvað snertir kennslu í mjög mikilvægum greinum, þar sem allt of mikil kennsluskylda er lögð á einn af kennurunum, þannig að ekki verður nægilega vel séð fyrir hinni fyllstu fræðslu læknaefnanna um þau mál, sem þar er um að ræða. Ég er raunar engan veginn ámælisverður fyrir stuðning við það mál, vegna þess að það var flutt af sjálfri ríkisstj., og ef þessir hv. stuðningsmenn ríkisstj. eru því máli mjög andvígir og telja flutning þess mjög ámælisverðan, þá skulu þeir fyrst og fremst beina skeytum sínum að sinni eigin ríkisstj., en ekki að mér.

Þá hafa hinir tveir undirskrifendur hinna tveggja dagskrártill. fyrir miðjan desember báðir lagt á það nokkuð mikla áherzlu, að hér verði ekki um verulegan kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð, þar sem í gildi séu lagaákvæði um aðstoðarlækni í Egilsstaðahéraði. Þetta er rétt, enda tók ég það fram þegar í ræðu minni áðan, en jafnframt gat ég þess þá, sem ég skal endurtaka núna, að kostnaðaraukinn, sem af þessu mun hljótast fyrir ríkissjóð, kemur ekki þegar í stað, heldur kemur hann þegar fram koma nýjar till. um ný læknisembætti í kjölfar þessa frv., því að það er gersamlega óhjákvæmilegt. Alþ. getur ekki afgreitt þetta mál þannig að fjölga læknum í Egilsstaðahéraði, en fella síðan till. hv. þm. A-Húnv. um skiptingu Blönduóshéraðs, því að Blönduóshérað á meiri rétt á tveim læknum samkvæmt öllum hlutlausum dómum um það mál heldur en Egilsstaðahérað. Það væri gersamlega útilokað, ef einhverri sanngirni og einhverju viti ætti að beita við afgreiðslu héraðslæknamálsins yfirleitt, að neita a. m. k. 5–6 héruðum, sem þegar í stað mundu heimta nýjan lækni, um skiptingu á þeirra læknishéruðum. Nái þetta mál fram að ganga, er því alveg augljóst, að það koma þegar í stað fram kröfur um 5, 6 eða 7 ný læknishéruð, sem ekki er hægt að standa gegn með nokkurri skynsemi, með nokkru réttlæti, ef þetta mál nær fram að ganga. Það getur vel verið, að ríkissjóður sé talinn hafa efni á því að fjölga héraðslæknum svo verulega. Það er annað mál, og það er fyrst og fremst verkefni ríkisstj. og fjmrh. að segja til um það. En verði héraðslæknum fjölgað um einn, þá á það auðvitað að lenda á þeim stað í landinu, í því læknishéraðinu, þar sem mest þörf er fyrir hann, en tilviljun á ekki að ráða því, hvar hann lendir, og þetta er auðvitað kjarni málsins. — Í dagskránni eða í afstöðu minni felst í sjálfu sér engin andstaða gegn því, að héraðslæknum sé fjölgað, heldur einungis lögð áherzla á, að eigi að fjölga þeim, þá sé þeim fjölgað á þeim stað, þar sem brýnust þörf verður talin fyrir þá með réttu.