24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

36. mál, hafnarbótasjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Samkvæmt fyrirmælum 1. gr. á þskj. 205 er gert ráð fyrir því, að styrk til hafnargerða og lendingarbóta á þeim stöðum, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum ofviðra, af sandburði, af völdum jarðskjálfta eða flóða eða af öðrum slíkum óviðráðanlegum orsökum, megi veita úr hafnarhótasjóði. Hins vegar er ekki á það minnzt hér, hvernig skuli fara með það tjón, sem beinlínis orsakast af vanrækslu vitamálastjórnarinnar, nema því aðeins að hv. sjútvn. líti svo á, að það eigi að falla undir síðustu orð gr., þ.e. „eða af öðrum slíkum óviðráðanlegum orsökum“. Sé það hugmynd n., tel ég, að það sé nauðsynlegt að breyta þessari grein þannig, að enginn ágreiningur sé um þau atriði.

Það er að gefnu tilefni, að ég hreyfi þessu máli hér. Undanfarin ár hafa komið fjöldamargar kröfur til fjvn. um að bæta að fullu úr ríkissjóði tjón, sem beinlínis stafa af þeim orsökum, sem ég hér hef talað um, þ.e. vanrækslu af hendi þeirra manna, sem ríkið sjálft hefur falið að framkvæma þessi verk.

Skal ég m.a. minnast fyrst og fremst á Bolungavík, þar sem upplýst var, að það væri beinlínis vegna þess, að verkið var framkvæmt gegn mótmælum frá hafnarnefnd Bolungavíkur. Mótmælti hún því, að verið væri að vinna slíkt verk þegar komið var fram í ágústmánuð og vitað var, að steypan gæti ekki verið búin að ná fullum styrkleika áður en vænta mátti hafróts í byrjun septembermánaðar. Kom það einnig á daginn. Hefur þetta kostað ríkissjóðinn hvorki meira né minna en 1.8 millj. kr. og það beinlínis vegna þess, að því er talið er af viðkomandi hafnarnefnd, að það sé sök þeirra manna, sem stjórnuðu verkinu.

Þetta hefur að vísu verið greitt hér, eins og kunnugt er. En það eru ýmis önnur tjón, sem hafa orsakazt af sömu ástæðum sem ég þegar hef lýst, en hafa ekki verið bætt, og vísa ég þar alveg sérstaklega til 159. máls í Sþ., á þskj. 261, sem er till. til þál. um, að Alþ. bæti Ísafjarðarhöfn hvorki meira né minna en 400 þús. kr. án mótframlags vegna skemmda, sem orðið hafa á hafnarmannvirkjum þar og sýnilegt er af grg. og þeim gögnum, sem fyrir liggja, að eingöngu stafa af vanrækslu frá þeim, sem hafa stjórnað verkinu. Hér er ekki um að ræða nein tjón af völdum ofviðris, af sandburði, af völdum jarðskjálfta eða flóða, heldur er orsökin eingöngu sú, að þeir verkfræðingar, sem hafa haft með þessi mál að gera, og sú stofnun, sem hefur átt að bera ábyrgð á verkinu, hafa undirbúið það á þann hátt, að hér hefur orðið slíkt tjón sem sést í þessu þskj.

Ég vildi því mjög vænta þess, þó að þessari umr. verði ekki frestað, — ég læt hv. frsm. um það, — að þá verði þetta mál tekið til athugunar fyrir 3. umr. og alveg ákveðið sagt um það í greininni, hvort einnig bætur fyrir slík tjón skuli greiðast úr sjóðnum. Ég vil vænta þess, að hv. sjútvn. kynni sér þskj. 261 með öllum þeim fskj., sem þar fylgja og eru prentuð með, en þau sýna glögglega, hversu nauðsynlegt er að athuga þetta mál nánar.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að minna á, að Bakkafjörður varð á sínum tíma fyrir allmiklu tjóni, og þegar sótt var til Alþ. um styrk án framlags til þess að bæta það tjón, þá fylgdu því alveg skýlaus ummæli úr héraði, að þetta verk hefði verið framkvæmt gegn mótmælum hafnarnefndarinnar og að það væri meginorsökin fyrir tjóninu, að svo hafði verið gert.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að sömu rök hafa verið færð fyrir því tjóni, sem nú er vitað, að orðið er á Sauðárkrókshöfn og talið er að muni nema allt að 2 millj. kr. að fá bætt. Ég hygg, að eins og greinin er orðuð, þá sé hægt að bæta það samkv. l., því að þetta tjón hefur skeð af sandburði, en hins vegar er talið, að sandurinn hafi komizt inn í höfnina fyrir vanrækslu af hálfu verkfræðinganna, eftir því sem hafnarnefnd Sauðárkróks fullyrðir.

Ég teldi hins vegar, að það væri ekki að ófyrirsynju að láta fara fram gagngerða rannsókn á þessum málum öllum. Það sýnist vera æði þung byrði fyrir hin einstöku héruð að standa fyrir milljónaframkvæmdum í hafnargerðum, þó að þar bætist ekki við, að það sé verið að baka þeim stórkostlegt tjón, vegna þess að kastað er höndunum til undirbúningsins, og þá kannske vegna þess, að sá maður, sem á að gæta þessara mála og bera ábyrgð á þeim, ver svo og svo miklu af sínum tíma til annarra starfa, eins og kunnugt er. Það hefði ekki verið að ófyrirsynju, að hv. sjútvn. hefði eitthvað víkið að þessu málefni í grg. sinni, vitandi hvernig þessu er háttað í landinu.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að ekki hafa valdið litlu tjóni fyrir hafnarbætur um land allt þau mistök, sem hafa verið gerð í sambandi við kaupin á dýpkunarskipinu Gretti, þar sem þetta skip er þannig útbúið, að það verður að hafa 16 menn um borð við uppgröft inni í höfnunum til þess að uppfylla ákvæði sjómannalaganna. Hefði mátt komast af með 1/3 af þessu liði, ef þess hefði verið gætt í upphafi, auk þess sem hér hefur verið útbúið skip með kolakyndingu, eins og gert var fyrir 50 árum, í stað þess að hafa þar dieselmótor til mikils sparnaðar í eldsneyti. Stappar nærri, að það væri heppilegra fyrir ríkissjóðinn að sökkva þessu skipi og kaupa sér nýtízku tæki heldur en að reka það á kostnað ríkissjóðs annars vegar og kostnað fátækra sveitarfélaga og hafnargerða hins vegar eins og það er nú útbúið. Það hefur ekki elnu sinni verið hugsað fyrir því, að þetta skip gæti haft um borð sanddælu, og er nú verið að kosta hundruðum þúsunda til þess að reyna að koma upp sérstakri sanddælu fyrir hafnargerðirnar, svo að hægt sé að nota ódýrari aðferð til þess að dæla upp sandi hingað og þangað í höfnunum, sem sumpart hefur komizt inn í hafnirnar fyrir mistök vitamálastjórnarinnar. Þessi mál eru öll svo stórkostleg, að það er ekki hægt að láta þetta frv. fara hér út úr þessari deild án þess að minnast á þessi mál. Ég vænti því, að hv. sjútvn. þessarar deildar athugi þetta, áður en frv. verður gert að lögum.

Ég vil enn fremur leyfa mér að minnast hér . á annað atriði. Hv. frsm. sagði, að það væri nú tryggt með frv., eftir að því hefði verið breytt í hv. Nd., að allar greiðslur úr sjóðnum kæmu inn í hann aftur. Ég tel, að þetta sé byggt á nokkrum misskilningi.

Hér stendur í 3. tölul. 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Viðbótarframlög til aðkallandi hafnarbóta á stöðum, þar sem hafizt hefur verið handa um framkvæmdir, en framlög ríkissjóðs samkv. fjárlögum nægja ekki til greiðslu lögákveðins kostnaðarhluta ríkissjóðs við framkvæmdirnar. Styrkir og framlög, sem greidd eru úr hafnarbótasjóði samkv. 1. og 3. lið, skulu endurgreidd sjóðnum úr ríkissjóði á næstu 3 árum.“

Hins vegar er ekkert sagt um, hvernig eigi að fara með það, sem látið er úr sjóðnum samkv. 2. lið, því að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxtalaus lán til hafnar- og lendingarbótasjóða á þeim stöðum, þar sem hafnarmannvirki standa ófullgerð, eða nokkuð á veg komin, en ekki hefur tekizt að ljúka vegna fjárskorts. Lán þessi má þó því aðeins veita, að ábyrgð ríkissjóðs skv. 1. gr. laga nr. 29 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur, komi til,“ — en þessi grein, sem vísað er í, segir ekki annað eða meira en að ríkissjóður þurfi að ábyrgjast sitt framlag. Það er annaðhvort 40% eða 50% af því, sem lagt er til hafnarbótanna. Hins vegar ber ríkissjóði eftir þessum fyrirmælum í frv. á þskj. 205 hvorki að endurgreiða úr ríkissjóði það framlag, sem á að koma að heiman frá héruðunum, né heldur að ábyrgjast það. Vildi ég því biðja hv. sjútvn. að athuga þetta mál fyrir 3. umr. Ég sé ekki, að það sé ástæða til þess að stöðva málið við þessa umr., en vildi mjög biðja n. að athuga þetta fyrir 3. umr. Ég hygg, að eins og frv. liggur nú fyrir, þá sé það alveg skýlaust, að sjóðurinn fái endurgreitt á 3 árum allt það, sem lagt er til, annað en þann hluta, sem héruðin eiga að greiða samkv. 1. gr.

Þá vil ég að síðustu benda á, að mér þætti mjög vel við eigandi, að betur væri tekið fram í 1. gr. frv., hvort þetta fé, sem ætlazt er til að greitt sé úr sjóðnum samkv. fyrirmælum 1. liðar 1. gr., sé lagt fram alveg án mótframlags eða hvort það sé látið að jafnaði í hendur ráðuneytisins að dæma um það, hvort eigi að greiða það aftur, annaðhvort allt eða einhvern hluta þess. Það er ekki nægilega skýrt eins og það er tekið fram í greininni, það mætti skilja svo, að það ætti allt að vera án mótframlags, þó að það sé ekki nákvæmlega tekið fram. En það kynnu að vera ýmsar ástæður þannig, að það væri full ástæða að heimta á móti eitthvert framlag, þó að það væri ekki fullt, en um það er ekkert sagt í greininni.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að benda á, að í 1. gr. er málsl., þar sem sagt er, að leita skuli umsagnar Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra um fjárveitingar úr sjóðnum, en ráðherra úrskurðar. Þetta hefur verið í brbl., en mér þykir ákaflega miklu miður, ef þessi grein á að standa í því, og mér finnst það vera algerlega óverjandi, að hún standi, svo lengi sem vitamálastjóri situr á Alþ., því að till. hans geta engan veginn orðið hlutlausar, á meðan hann situr í þessu embætti samfara því að vera á Alþ. og á þá oft og tíðum að sækja m.a. fyrir hönd síns héraðs um greiðslur úr sjóðnum. Ég vil því mjög mælast til þess, að hv. nefnd vildi gera till. um það að fella þennan lið niður. Það er ekki heldur nú í l., en hefur komizt inn í brbl. fyrir einhverja vangá. Þetta veldur aðeins erfiðleikum fyrir hæstv. ríkisstj., að þurfa að leita til þessara stofnana, og engan veginn eðlilegt, að það sé leitað til vitamálastjóra, meðan hann situr á þingi, eins og ég hef tekið fram. Sjái hv. nefnd sér ekki fært að fella þennan lið niður, þá neyðist ég til að bera fram brtt. í sambandi við það, en vonast til, að til þess komi ekki.