23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

145. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði nú hálfvegis vænzt þess, að hv. þm. A-Húnv. tæki brtt. sína algerlega til baka, eftir að frv. okkar þremenninganna um skiptingu Egilsstaðalæknishéraðs er raunverulega alveg úr sögunni og eftir er aðeins frv., sem miðar að því einu að reyna að tryggja íbúum Egilsstaðalæknishéraðs betri afnot og öruggari af þeim læknum, sem þeir lögum samkv. eiga rétt til að hafa.

Brtt. hv. þm. virðist mér eiga illa við frv., eins og það er nú orðið, og þar sem þessi hv. þd. hefur að þessu sinni vísað á bug eftir till. heilbr.- og félmn. skiptingu Egilsstaðalæknishéraðs, þá fæ ég ekki skilið. að hv. d. telji eðlilegt að samþykkja nú inn í frv. skiptingu á öðru læknishéraði. Ég tel, að hv. þm. A-Húnv. viti eða megi vita, að ef þetta frv. fer nú á síðustu dögum þingsins þannig til hv. Ed., að um skiptingu læknishéraðs er að ræða, þá sé það í raun og veru forsending, og dugir í því sambandi að vitna til meðferðar hv. Ed. á þessu máli á síðasta þingi. Ef hv. þm. heldur fast við, að brtt. hans komi til atkvæða, og ef hann fær hana samþ., þá tel ég, að hann muni bera það eitt úr býtum að hindra, að þetta Alþ. afgr. frv., sem inniheldur aðeins sjálfsagða og útlátalausa tilraun til umbóta í læknamálum Fljótsdalshéraðs, og þessu fær hann þá áorkað án þess að koma áhugamáli sínu nokkuð meira áleiðis, en nú er. Ég vil því f. h. flm. þessa máls skora mjög eindregið á hv. þm. A-Húnv. að beita því, sem ég tel sjálfsagða sanngirni, og taka aftur brtt. sína. Mér virðist það vera tiltölulega útlátalítið, ef litið er á málið eins og það horfir við nú. En ef þess er ekki kostur, þá vænti ég, að hv. þd. meti málavextina eins og þeir horfa nú við og samþ. ekki brtt. inn í frv.