23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2931)

145. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. N-M. vil ég taka þetta fram:

Í fyrsta lagi er þess að geta, eins og fram hefur komið bæði á síðasta þingi og nú, að nokkuð öðru máli er að gegna um skiptingu þeirra læknishéraða, sem hér er um að ræða. Á síðasta þingi var það eitt flutt af hv. heilbr.- og félmn. að skipta Blönduóshéraði, og það var gert að tilhlutun hæstv. fors.- og heilbrmrh. og með meðmælum landlæknis, hvort tveggja eftir minni ósk. Sú brtt., sem þá kom inn í þetta og samþykkt var hér um skiptingu á Egilsstaðahéraði, mun hafa orðið til þess, að þetta mál dagaði uppi. Annars hefði það sjálfsagt verið samþykkt hiklaust hér á þingi í fyrra. Það, sem er ólíku saman að jafna að þessu leyti, er í fyrsta lagi það, að Blönduóshérað er töluvert miklu fjölmennara hérað,en Egilsstaðahérað, og þó einkum hitt, að til þess var ætlazt, þótt Egilsstaðahéraði væri skipt, að báðir læknarnir sætu á sama stað.

Varðandi það, að samþykkt þessarar till. minnar mundi hafa í för með sér, að frv., eins og það er nú orðið, dagaði uppi í hv. Ed., get ég náttúrlega ekki fullyrt neitt, en vona, að ekki þurfi að koma til þess. Ég vil þess vegna halda fast við mína till. og vænti þess, að þessi hv. d. verði í samræmi við það, sem hún var á síðasta þingi, því að hún samþykkti þá einróma þá skipun, sem hér er farið fram á í minni brtt. Og ég vil víkja að því, að hvorugt málið er í raun og veru stofnun nýs embættis, vegna þess að eins og til er ætlazt, þá er aðstoðarlæknir í báðum viðkomandi héruðum. Það er aðeins um það að ræða varðandi mína till., að sá maður, sem nú er aðstoðarlæknir á Blönduósi, verði héraðslæknir í Höfðahéraði og sitji þar. Og það eru mjög sterkar óskir hjá þeim þar út frá að hafa lækni hjá sér. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.