24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

36. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð vék að nokkrum atriðum þessa frv., sem hann telur þörf á að athuga nánar. Meðal annars er það síðasta mgr. 1. gr. Þar segir, að leita skuli umsagnar Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra um fjárveitingar úr sjóðnum, en ráðherra úrskurðar. — Mér finnst fljótt á litið, að þetta sé eðlilegt og að það sé ekki eðlilegt að ganga alveg fram hjá vitamálastjóra í þessu sambandi. Það má þó vera, að þetta sé athugunarvert, og sjálfsagt verður n. við þeirri ósk hv. þm. að líta á málið á milli umræðna.

Ég verð að játa það, að ég skil ekki fyllilega, hvað hv. þm. á við í sambandi við 2. tölulið. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Lán þessi má þó því aðeins veita, að ábyrgð ríkissjóðs samkv. 1. gr. laga nr. 29 1946 um hafnargerðir og lendingarbætur, komi til.“ Ég fæ nú ekki betur séð, en að þetta ákvæði sé alveg skýlaust um það, að lánin megi ekki veita án ríkisábyrgðar. Ég fæ ekki annað skilið. Og ef það er eitthvað í tilvitnaðri grein, sem kemur í veg fyrir ábyrgð ríkissjóðs, þá sýnist mér, að ekki megi veita lánið.

Annars ræddi hv. þm. mest um það atriði, að rétt væri að taka inn í frv. skýlaus ákvæði um þau tjón, sem hlytust beint af vanrækslu opinberra ráðamanna vitamálanna. Nú kann vel að vera, að þeim hafi oft verið mislagðar hendur, og ég ætla ekki að fara út í að ræða það hér. En það er augljóst mál, að ef setja á í lög nákvæm fyrirmæli um það, hversu með skuli fara í slíkum tilfellum, þegar hafnarmálin eiga í hlut, þá er einnig eðlilegt, að tekin verði inn sams konar ákvæði á fjöldamörgum öðrum sviðum, t.d. um vegagerðir, brúargerðir og fleira, sem ríkið hefur með að gera. Það getur alltaf komið fyrir, því miður, að viðkomandi ráðamönnum skjátlist og það megi segja og sanna, a.m.k. sanna með sterkum líkum, að þeirra sé sökin, hversu fór. Það getur vel verið, að ákvæði vanti um þetta inn í íslenzka löggjöf, ég skal ekkert um það segja, en ég ætla, að þetta sé mál út af fyrir sig, miklu stærra og umfangsmeira en svo, að það verði afgreitt með einni lítilli brtt. við þetta frv. Mér finnst, í fljótu bragði að minnsta kosti, að það eigi ekki heima hér.

Ég held ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég get sjálfsagt lofað því fyrir hönd n., að hún líti á frv. milli umr. og þá með hliðsjón af þeim einstöku atriðum, sem hv. þm. Barð. hefur bent á.