30.01.1953
Efri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. 1. minni hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið hingað frá hv. Nd. og var upphaflega um það að skipta Egilsstaðalæknishéraði í tvö læknishéruð, vestra og eystra Egilsstaðahérað. Í meðferð hv. Nd. tók frv. fyrst þeim breyt., að héraðinu yrði ekki skipt, heldur skyldi í Egilsstaðahéraði skipa aukalækni, er yrði sjálfstæður starfandi læknir og sæti í Egilsstaðaþorpi, og var frv. þannig eftir 2. umr. í Nd. En við 3. umr. var í Nd. bætt inn í það ákvæði um skiptingu Blönduóslæknishéraðs í Blönduóshérað og Höfðahérað, og er frv. í þeirri mynd nú eins og það liggur hér fyrir á þskj. 634, m. ö. o., hefur inni að halda ákvæði um skiptingu Blönduóshéraðs í tvö héruð og um það, að í Egilsstaðahérað skuli skipaður aukalæknir.

Heilbr.- og félmn. ræddi þetta frv. á tveimur fundum og ræddi um málið við flm. þess, sem eru þm. af Austurlandi. Það gat ekki myndazt neinn meiri hl. um afgreiðslu þessa máls, eins og kemur fram í nál. því, sem ég hef gefið út á þskj. 677, og menn hafa eiginlega skipzt í eins marga hluta og hugsanlegt er með 5 manna n. og eins og hugsanlegt er með jafnlítið frv. og hér liggur fyrir.

Það er till. mín, að frv. verði breytt í það horf, sem það var eftir 2. umr. í Nd., og byggi ég þá till. mína m. a. á þeirri afstöðu, sem tekin var hér í hv. d. á síðasta þingi varðandi skiptingu læknishéraða, en þessi d. leit þannig á, að það mál þyrfti meiri athugunar við, en það hafði þá fengið, og að því er ég bezt veit hefur ekki verið nein athugun gerð á því síðan. Ég tel því ekki rétt, að d. fallist á það núna að skipta læknishéruðum eða fjölga læknishéruðum, fyrr en einhver athugun hefur farið fram, sem væri í anda þeirrar dagskrártill., sem hér var samþ. á síðasta þingi. Af þessum ástæðum legg ég til, að fyrri gr. frv., eins og það kom hingað frá Nd., verði felld niður, en frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það var, er það kom til 3. umr. í Nd., m. ö. o., að það verði veitt heimild til þess að skipa aukalækni í Egilsstaðahéraði, en það felur ekki í sér neina skiptingu læknishéraðsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Nál. tekur í rauninni fram það, sem þarf að segja um málið, og skýrir afstöðu einstakra nm. að öðru leyti en því, að eins og kemur fram, þá er von á nál. frá hv. þm. Barð. Aðrir hafa ekki hugsað sér að gefa út nál., nema þær brtt., sem hafa komið hér frá hv. 7. landsk., sem á sæti í n., og ásamt honum hv. 6. landsk., sem ekki á sæti í n. Ég leyfi mér sem sagt að leggja til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég legg til í nál. mínu á þskj. 677.