31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og ég minntist á í gær í sambandi við þetta mál, þá var það nú afgreitt þannig úr heilbr.- og félmn. í þessari hv. d., að n. fimmklofnaði. Það eru í henni fimm nm., og hver hafði sína sérstöku afstöðu til málsins. Að vísu hafa ekki nema tveir nm. gefið út nál., en það er þegar ljóst, að þannig var málið afgreitt frá hv. n. Það ber nú ljóst vitni um það, að þetta mál þyrfti frekari athugunar við, og í sambandi við þetta vil ég einnig leyfa mér að minna hv. formann n. á, að það var einnig verið að afgreiða hér annað mál, 121. mál, úr n., en það er frv. til laga um breyt. á nákvæmlega sömu lögum, og hefði verið langeðlilegast, að þessum tveimur málum hefði verið steypt saman, ef þau eiga að ná fram að ganga á annað borð. Það er ákaflega óviðkunnanlegt, að það sé verið að samþykkja tvö frv. um breyt. á sömu lögum á sama þingi, og ég tel það út af fyrir sig engin vinnubrögð að hafa þann hátt á, en um það hefur nú víst ekki heldur fengizt neitt samkomulag.

Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að upplýsa, að það lá einnig fyrir á síðasta Alþ., og þá var gefið út nál. á þskj. 661 frá heilbr.- og félmn. þessarar hv. d., en í henni áttu þá sæti nákvæmlega sömu menn og m. a. einnig sami formaður, og mér þykir rétt hér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp það nál., sem þá var gefið út um málið. Það er mjög stutt og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum og m. a. kallað til sín landlækni og enn fremur flutningsmenn að þeirri brtt., sem borin var fram á þskj. 231 og samþykkt var í Nd., en þeir telja mikla nauðsyn bera til þess, að Egilsstaðalæknishéraði verði skipt í tvö læknishéruð, eins og fyrir er mælt í 2. gr. frv. Landlæknir tjáði sig hins vegar andvígan þessari skipan málanna og telur það ekki til bóta fyrir íbúa héraðsins, að hún verði lögtekin. Af þeim gögnum, sem n. hefur haft aðgang að, og þeim upplýsingum, sem gefnar voru, þykir rétt, að málið fái betri undirbúning, og leggur nefndin því til, að frv. verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis, á hvern hátt bezt verði séð fyrir læknisþjónustu í Blönduóshéraði og Egilsstaðahéraði, og leggi fram frv. um það, ef nauðsyn þykir, fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Og undir þessu nál. er öll n. óklofin. Nú er það sýnilegt, að síðan þetta skeði hefur hæstv. ríkisstjórn ekki látið gera nokkurn skapaðan hlut í þessu máli, og verður það að skoðast sem bein yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, að hún telji enga þörf á þeirri breytingu, sem hér er farið fram á. Mér er kunnugt um, að m. a. landlæknir er enn þá jafnandvígur því, að skipt sé læknishéraðinu í Egilsstaðahéraði og það verði gert að tveimur læknishéruðum, og ég sé enga nauðsyn bera til þess að setja þar upp sérstakan aukalækni, eins og farið er fram á í frv. nú eftir 3. umr. í hv. Nd., því að samkvæmt lögum er ætlazt til þess, að það sé aðstoðarlæknir í Egilsstaðahéraði, og það hefur einnig verið þar aðstoðarlæknir um langt árabil. Það hefur verið sagt, að það sé ekki hægt að fá þar lækni að staðaldri, en ég sé ekki hvað það ætti að vera til bóta fyrir héraðið, hvort maðurinn er kallaður aukalæknir eða hann er kallaður aðstoðarlæknir. Ég sé ekki, að það breyti nokkrum sköpuðum hlut. Eins og frv. liggur hér fyrir nú, er það ekki nokkur lausn á þeim málum, sem hér er deilt um.

Ég vil einnig í sambandi við Blönduóshérað leyfa mér að benda á, að síðan þetta mál var hér á þingi, hefur verið hafizt handa um að byggja stórt og mikið sjúkrahús á Blönduósi, hús, sem búizt er við að kosti a. m. k. 5–6 millj. kr. Það atriði var mjög rætt í n. á s. l. þingi, og það voru þá skoðanir uppi í n. um, að það væri mjög vafasamur greiði, sem gerður væri fyrir Blönduóshérað almennt, að fara að kljúfa héraðið í sundur og setja nýjan lækni á Skagaströnd eða fyrir nokkurn hluta héraðsins, eins og ætlazt er til að sé gert nú, og til þess þar með að veikja aðstöðuna til að koma upp raunverulega sterkri og góðri heilsugæzlustofnun á Blönduósi. Og þessi stefna að kljúfa læknishéruðin, í hvert skipti sem fólksfjölgun verður þar, og á sama tíma að vera að eyða stórkostlegu fé til þess að koma upp stórum, myndarlegum sjúkrahúsum, sem þurfa ekki einn, heldur helzt þrjá eða fjóra lækna, ef á að reka þau með nokkrum myndarskap og vera nokkuð til bóta heilsugæzlunni, er náttúrlega algerlega óviðeigandi. Og það er fyrir þetta álit mitt og fyrir þær umræður, er ég hef átt við heilbrigðisstjórnina út af þessum atriðum, að ég get ekki verið með að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir nú. Það er líka alveg ljóst, að ef þetta frv. er samþykkt nú óbreytt, þá er ýtt undir það að kljúfa fleiri læknishéruð í tvo eða fleiri parta, stofna fleiri ný læknishéruð, byggja fleiri nýja læknisbústaði. Það er m. a. hér á ferðinni brtt. frá hv. 7. landsk. (FRV) um að setja upp nýtt læknishérað í Kópavogi, og hún er ekki síðasta till., sem kemur fram í sambandi við ný læknishéruð, ef þessi stefna er tekin, og í sambandi við það vil ég þá einnig leyfa mér að benda á, að ríkið sér, sér ekki fært í dag að leggja fram nauðsynlegt fé til þess að byggja læknisbústaði og sjúkrahús og sjúkraskýli í þeim héruðum, sem þegar eru í landinu. Samþykkt á þessu frv. mundi því hafa það í för með sér, að krafizt yrði að byggja læknisbústað og sjúkraskýli á Skagaströnd, læknisbústað og sjúkraskýli á Egilsstöðum, þar sem læknisbústaður og sjúkraskýli eru fyrir, svo og læknisbústað í Kópavogi og sjúkraskýli þar, ef sú till. verður samþykkt, og þannig má halda áfram, og ég tel, að það sé lítil fyrirhyggja í því að samþ. þessi mál þannig nú. Ég álít, að þessi mál séu slík, að breytingar á gildandi lögum um læknishéruð ættu að koma frá hæstv. ríkisstj., þegar henni að rannsökuðu máli þykir nauðsynlegt að setja einhvers staðar upp nýtt læknishérað, og að þá sé það jafnframt athugað gaumgæfilega, hvort það sé ekkí jafnmikið til óhagræðis fyrir aðra íbúa héraðanna en þá, sem beinlínis fá læknisbústaðina, en að það verði ekki gert á þann hátt, sem hér er lagt til, að órannsökuðu máli.

Ég legg því til, að þetta mál verði afgreitt með rökstuddri dagskrá á þann hátt, sem fram kemur á þskj. 687, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til að leggja fram frv. um breytingar á læknaskipun landsins á þessu þingi, þrátt fyrir þá rökstuddu dagskrá, sem samþykkt var á síðasta þingi, sbr. þskj. 661, lítur d. svo á, að ekki sé aðkallandi að stofna ný læknisembætti á þessu ári með þeim aukakostnaði, sem þau hljóta að hafa í för með sér; og í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga það fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþ., á hvern hátt bezt verður fyrir komið læknisþjónustu í héruðum þeim, sem hér um ræðir, og geri síðan till. um þá skipan málanna fyrir næsta Alþ., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það hafa ekki verið færðar fyrir því neinar þær ástæður, sem ég get tekið gildar, að mínir hv. meðnm., 4 að tölu, hafa breytt um skoðun á þessu máli. Og í nál. hv. form. n. kemur ekki heldur fram neinn rökstuðningur fyrir því, að hér sé um nauðsyn að ræða. Ég hygg, að það sé af velvilja til flokksmanns hv. þm. miklu frekar, en af nokkrum öðrum ástæðum, að hann leggur til, að málið sé afgreitt þannig, en ég legg til, að það verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, eins og ég þegar hef lýst hér að framan.