31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

145. mál, skipun læknishéraða

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og nál. hv. 1. minni hl. á þskj. 647 ber með sér, þá er n. í raun og veru fimmklofin í þessu máli, og er nú varla hægt að gera ráð fyrir frekari klofningi í fimm manna n. Eins og í þessu nál. segir, þá er ég samþykkur 1. gr. frv., en andvígur 2. gr. Enn fremur hef ég óbundnar hendur um að greiða atkvæði brtt., sem fram kunna að koma, og hef ég þá fyrst og fremst í huga brtt., sem orðuð var um stofnun sérstaks læknishéraðs í Kópavogshreppi.

Ég skal játa það, að það eru ýmis rök, sem mæla með dagskrártill. hv. þm. Barð. á þskj. 687, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur algerlega látið undir höfuð leggjast að láta fara fram þá athugun á skipun læknishéraða, sem gert var ráð fyrir í dagskrártill. þeirri, sem samþykkt var hér á síðasta þingi. Ástæðan til þess, að ég hef þó mælt með því, að 1. gr. frv. yrði samþykkt, er sú, að mér er persónulega um það kunnugt, að ákaflega sterk rök hníga að því, að nauðsynlegt sé að stofna sérstakt læknishérað í Höfðakauptúni eða Höfðahéraði, eins og það er nefnt hér í frv. Þar er nú að vaxa upp talsvert myndarlegt þorp. og fjarlægðin á milli þeirra tveggja þorpa, sem í sýslunni eru, Blönduóss og Höfðakauptúns, er það mikil, að það veldur sjúkrasamlaginu og meðlimum þess mjög tilfinnanlegum kostnaði að þurfa að sækja lækni hvenær sem er inn á Blönduós. Ég veit, að það er mjög almennur áhugi fyrir því í þessum hluta héraðsins, að þessi skipting sé gerð, og álít, að þau rök, sem hafa verið fram borin í því máli, sýni og sanni, að nauðsyn sé á þessari skiptingu.

Hv. þm. Barð. taldi, að með því að skipta héraðinu verði gerð óhægari aðstaða í sambandi við byggingu sjúkrahúss á Blönduósi, sem nú mun vera byrjað á. Ég get ekki verið hv. þm. sammála um þetta. Ég geri ráð fyrir því, að sjúkrahúsið verði notað alveg jafnt af þeim hluta héraðsins, sem fellur undir Höfðahérað, þó að skiptingin fari fram, eins og að héraðinu óskiptu. Um fjárframlög þaðan veit ég ekki sjálfur með víssu, en ég geri ráð fyrir, að enginn munur yrði á þeim, hvor leiðin sem farin yrði í þessu efni. Ég verð að draga mjög í efa, að á Blönduósi kæmu til með að sitja sem starfsmenn sjúkrahússins 3–4 læknar. Ég tel, að eftir byggingu hins myndarlega sjúkrahúss á Akureyri og með þeim sjúkrahúsum, sem til eru hér í Reykjavík nú, og væntanlegri aukningu á þeim, þá væri óhyggilegt að reisa svo stór og viðamikil sjúkrahús úti um land, að þar þyrfti 3–4 fasta lækna. enda hygg ég að sú stærð sem þar er miðað við, fyrir innan við 30 sjúklinga, mundi ekki krefjast slíks.

Ég fæ því ekki séð út af fyrir sig, að sjúkrahúsbyggingin þurfi neinu að valda um það, að hennar vegna sé ástæða til þess að draga enn að skipta þessu stærsta læknishéraði á landinu eins og gert er ráð fyrir í frv.

Um 2. gr. frv. um það að setja sjálfstæðan aukalækni í Egilsstaðahérað gildir að minni hyggju allt annað. Málum er nú þannig skipað á Egilsstöðum, að þar situr fastur héraðslæknir og með honum aðstoðarlæknir. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að í ýmsum héruðum landsins ætti einmitt þessi skipun vel við, að héraðslæknirinn hefði fastan aðstoðarlækni, þannig að ef héraðið er víðáttumikið þá væru líkur til þess, að ekki væru báðir læknarnir fjarverandi samtímis. En á samstarfi og sambúð tveggja lækna, sem báðir eru sjálfstæðir læknar og báðir eigin húsbændur, ef svo mætti segja, hljóta jafnan að verða margir annmarkar, eins og landlæknir, sem ég veit að er þessari skipan andvígur, hefur mjög greinilega bent á. Þarna er sjúkrahús, og það getur verið ágreiningsefni, hvor eigi að hafa forstöðu og ábyrgð sjúkrahússins eða sjúkraskýlisins og vera læknir þess. Sjúkrasamlög eru starfandi um héraðið allt, og getur það einnig valdið nokkrum átökum, ef kæmi til að velja á milli lækna í því sambandi, sem vel getur komið til, og bezt að geta strax í byrjun komizt hjá öllu slíku. Þar sem eru fleiri sjálfstæðir læknar, þó að praktiserandi séu, eins og er t. d. í Keflavík og fleiri stöðum, þar sem svipað háttar um, þá hefur þegar komið í ljós, að það eru nokkur vandkvæði á því að tryggja það samstarf, sem nauðsynlegt er og æskilegt á milli lækna, með þeim hætti, að hver um sig sé sjálfstæður læknir og starfi án sambands við hinn. Ég tel því, að ekki sé ástæða til að gera þær breyt. á læknaskipan í Egilsstaðahéraði, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Mér er ekki kunnugt um, hvernig þetta mál stendur í d. Ég kysi sem sagt helzt, að frv. yrði afgreitt þannig, að 2. gr. yrði felld niður og 1. gr. ein yrði að l., en er því hins vegar andvígur, að 2. gr. verði samþ. Ég áskil mér því rétt til undir umr. að taka til athugunar, eftir því hvernig mér virðist horfa með afgreiðslu málsins, hvort ég gæti fallizt á dagskrá hv. þm. Barð. Það fer nokkuð eftir því, hvað mér virðist líklegt að verði hér ofan á í hv. d. við lokaatkvgr., en það vil ég taka fram, að ef sú dagskrártill. yrði samþ., þá teldi ég, að það væri mjög nauðsynlegt, að í sambandi við þá athugun á læknaskipun og skiptingu landsins í læknishéruð, sem væntanlega fer fram, væri einnig athugað um þörf sjúkrahúsa og hver stærð væri heppilegust á þeim stöðum, þar sem sjúkrahús eru ekki komin upp, því að það skiptir verulegu máli, í nánu sambandi við þær sjúkrahúsbyggingar, sem nú eru að rísa upp hér í höfuðstaðnum, og Fjórðungsspítalann, sem nú má heita fullgerður á Akureyri.