31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

145. mál, skipun læknishéraða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ekki átt þess kost að fylgjast til hlítar með umr., svo að mér verður að meta það til afsökunar, ef ég spyr um það, sem ef til vill er þegar búið að segja frá hér. En ég minnist þess, að það mun hafa verið ráðgert síðast, þegar hliðstæð mál voru til umr. hér í d., að fram færi allsherjar endurskoðun á læknaskipun. Nú er ég ekki svo kunnugur því, hvað þeirri endurskoðun líður, en mér finnst þó mjög mikilsvert að fá vitneskju um það, áður en afstaða er tekin til þess máls, sem hér um ræðir, því að óneitanlega er hér verið að ræða um það að ráðgera stofnun allmargra nýrra sjálfstæðra embætta og þess vegna eðlilegt, að menn fái vitneskju um það, hvað heildarendurskoðun líður, áður en afstaða er tekin til þeirra embættastofnana. Auk þess minnist ég þess, að í hv. Nd. voru felld frv. um fjölgun kennara við háskólann, bæði í lagadeild og læknadeild, þó að viðurkennt væri af öllum, að út af fyrir sig sé þörf á þeim embættismönnum. Enda er það t. d. greinilegt, að lagadeildin hefur sama kennarafjölda í lögfræði eins og lagaskólinn hafði, þegar hann var stofnaður fyrir meira en 40 árum með örfáum nemendum, en hefur nú nemendur — ég veit ekki hvað mörgum sinnum fleiri, sjálfsagt 10–20 sinnum fleiri, en í fyrstu var, svo að það er engin von til þess, að sú stofnun geti komizt af með sama kennarafjölda og þá var. Eins er mér frá skýrt, að það sé mikil nauðsyn á þeirri aukningu á starfsliði læknadeildarinnar, sem ráðgerð var í því frv., sem um það fjallaði. Það er þess vegna enginn efi á því, að þetta þing hefur ekki treyst sér til þess að stofna ný embætti í þeim mikilsverðu greinum, sem ég þarna drap á. Auðvitað er þeirri þjónustu gegnt á einn eða annan hátt, sem þessir nýju embættismenn eiga að inna af höndum, og segja má þess vegna, að heimurinn farist ekki, þó að ákveðið hafi verið í Nd. að láta það bíða um sinn. Alveg eins er um þau læknaembætti, sem hér um ræðir, að það eru einhverjir menn, sem þessum störfum gegna, og þess vegna geri ég ráð fyrir, að ekki þurfi allt um koll að keyra, þó að bið verði á því þangað til heildarendurskoðun lýkur, að þessi embætti verði stofnuð. Það er þess vegna síður en svo af illvilja við það málefni, sem hér liggur fyrir, að mér finnst, að fara megi um það með svipuðum hætti og varðandi þessa embættafjölgun við háskólann, sem ég tel ekki síður mikils virði, en þá breyt. á læknaskipuninni, sem er ráðgerð í þessu frv. En mér finnst það miklu máli skipta og nauðsyn, að glöggar fregnir berist um það til þessarar d., hvað endurskoðuninni líður, áður en við tökum afstöðu í málinu.

Þá minnist ég þess einnig frá fyrri þingum, að það þótti síður en svo neyðarúrræði, heldur mjög ráðlegt einmitt frá læknislegu sjónarmiði að hafa tvo lækna starfandi saman. Ég minnist þess, að það var talað um það sem sérstaka framför í heilbrigðismálum að hafa þann hátt á t. d. á Héraði, á Egilsstöðum, að tveir læknar gætu unnið saman, þannig að annar gæti þá gegnt sjúklingum heima á staðnum, en hinn farið í ferðir um héraðið, og eins hygg ég að hafi verið ráðgert að hafa þetta á Blönduósi og að því er ég hygg fleiri stöðum. Mér finnst, að áður en frá þessu sé breytt, sé mikil nauðsyn að fá glögga umsögn fróðustu manna um það, hvað breytzt hafi í eðli heilbrigðismála frá því að okkur var talin trú um það fyrir 2–3 árum, að það væri mikil framför að koma þessari skipan á, ef það á nú að vera orðin lífsnauðsyn að afnema hana aftur. Eins og ég sagði, hef ég ekki til hlítar fylgzt með þessum umr., þó að ég hafi heyrt nokkuð af þeim, og ég hef ekki heyrt rök fyrir því, að ástæða sé til að gera á þessu svo snögga breyt. sem sumir vilja nú. Mér finnst þvert á móti, að öll rök hljóti að hníga að því, að þetta mál sé íhugað betur.

Eins finnst mér varðandi Kópavog, að þó að það sé rétt, að þar sé svo mikill fjöldi manna nú, að ekki sé ósanngjarnt, að þeir óski eftir að fá sérstakan lækni, þá vil ég spyrja um það mér til fróðleiks: Er ekki meginfjöldi Kópavogsbúa nú þegar í sjúkrasamlagi, og eiga þeir ekki kost á því að njóta sjúkrasamlagslækna eins og aðrir menn hér í bænum og nágrenni bæjarins, og mundi héraðslæknir í Kópavogi vera betri lausn á vanda þessara manna heldur en það, að þeir geti valið úr sjúkrasamlagslæknum og þannig hver fengið þann, sem honum hentar bezt? Það kann að vera, að þetta hvíli að einhverju leyti á misskilningi hjá mér, en þá er fróðlegt að fá það leiðrétt. Ég er ekki reiðubúinn til þess að taka afstöðu til þeirrar till. fyrr en ég fæ nánari skýringar á þessu atriði.