31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

145. mál, skipun læknishéraða

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er nú aðeins stutt mál. Það er aðallega út af fyrirspurn hæstv. dómsmrh. varðandi brtt. okkar hv. 6. landsk. þm. (GÍG) um læknishérað í Kópavogi.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort þar væri ekki sjúkrasamlag, þannig að íbúarnir ættu kost á að velja þá sömu lækna og Reykvíkingar. Þetta er að vísu svo. Það er í Kópavogi starfandi sjúkrasamlag, sem allir eiga að vera í samkv. lögum, en það hefur komið í ljós, að það eru miklir erfiðleikar á því oft og tíðum að fá þá lækna, sem starfa hér í Reykjavík og eru búsettir þar, þegar á þarf að halda, og þótt jafnvel í brýnustu tilfellum sé. Enn fremur veldur þetta íbúum í Kópavogshreppi, sem er mjög víðlendur, allmiklum kostnaði og óþægindum, meðan svo er, að enginn læknir er búsettur þar í byggðinni.

Í hreppnum eru margir bæir, sem eru alllangt frá Reykjavík og nokkuð jafnvel frá aðalbyggðinni, og byggðahverfi, t. d. við Vatnsenda og Lögberg, sem eiga mjög erfitt með að ná til lækna, þegar á þarf að halda, og mér er ekki grunlaust um, að þess vegna sé misbrestur á því, að menn séu þar í sjúkrasamlögum, og verða sumir að leita fremur til læknis í Álafosshéraði, þó að hann sé líka búsettur hér, og þess vegna er það, að eðlilegt væri, að þeir bæir í hreppnum, sem enn eru nú samkv. lögum í Álafosshéraði, yrðu í Kópavogshéraði, ef læknir væri þar búsettur.

Ef héraðslæknir væri búsettur í Kópavogi, þá mundi leiða af því fyrst og fremst það hagræði fyrir íbúana alla, sem skipta þúsundum og fjölgar stöðugt, að það væri auðveldara að ná til læknis, þar sem héraðslæknirinn yrði vitanlega búsettur þar í byggðinni. Í öðru lagi ættu þeir kost á ódýrari þjónustu, m. a. vegna þess, að þá giltu héraðslæknataxtar um þá þjónustu og bílferðir eða ferðir þess læknis yrðu mun styttri til allra þeirra, sem hann þyrfti að gegna. En í þriðja lagi, og það var nú það sem ég ræddi sérstaklega um í framsöguræðu fyrir brtt. minni, er svo heilbrigðiseftirlitið, sem nú heyrir undir borgarlækni í Reykjavík. Það hefur verið unnið að því, síðan borgarlæknisembættið í Reykjavík var stofnað, að koma hér á ströngum reglum um heilbrigðiseftirlit og verið sýnd virðingarverð viðleitni til þess að koma því í framkvæmd, svo að sambærilegt sé við fyrirkomulag þeirra mála í borgum. En það er alveg augljós nauðsyn á því, að sömu reglur og sama heilbrigðiseftirlit gildi í fjölmennum byggðum í næsta nágrenni Reykjavíkur vegna daglegs sambands við bæinn. Það eru miklir erfiðleikar á því fyrir borgarlækni í Reykjavík að koma þessu á í nágrenni bæjarins, sem að vísu heyrir undir hann sem embættismann, og það þarf talsverða starfskrafta til að halda uppi því eftirliti og þeirri þjónustu, sem þörf er á í því sambandi, svo að ég hef leyft mér að fullyrða, að einmitt borgarlæknirinn í Reykjavík mundi beinlínis vera því mjög meðmæltur, að Kópavogsbyggðin væri tekin undan hans umdæmi og þar væri settur sérstakur héraðslæknir.

Það er ekki nokkur vafi á því, að það verður fyrr eða síðar að gera breyt. á skipun þessara mála í Reykjavík og nágrenni. Íbúum Reykjavíkur fjölgar, eins og allir vita, mjög ört. Þar er einn embættismaður, sem á að halda uppi mjög nákvæmu heilbrigðiseftirliti og sjá um, að því sé haldið uppi, og eins og ég sagði áðan, er fyllsta nauðsyn á því, að það sé einnig í þeim byggðum, sem næstar eru Reykjavík, en þar fjölgar íbúum svo ört, að það getur skipt þúsundum á hverju ári, sem þar bætist við af fólki alveg á næstu árum, svo að ég er alveg viss um, að fyrr eða síðar verður horfið að því ráði að gera þá breyt. á skipun þessara mála, sem við hv. 6. landsk. þm. leggjum til, eða aðra sambærilega. Það má vera, að menn kynni að greina þar eitthvað á um nákvæma takmörkun þess svæðis, sem væri tekið og gert að sérstöku læknishéraði, en það er algert aukaatriði. Það mundi koma í ljós, hvort viðkomandi heilbrigðisyfirvöld, eins og landlæknir og borgarlæknirinn í Reykjavík, vildu gera aðrar till. um það, en ég og meðflm. minn að brtt., sem fyrir liggur, leggjum nú til, en okkur virðist hún eðlileg, og ég held, að borgarlæknirinn í Reykjavík t. d. mundi telja hana eðlilega. En það er í mínum augum ekkert höfuðatriði, hvort þessi breyt. verður gerð árinu fyrr eða síðar.

Ég efast ekki um, að ef heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. vildi afla sér upplýsinga um þetta frá landlækni og borgarlækninum í Reykjavík, þá mundu þær fáanlegar mjög fljótt. Það þyrfti ekki annað, en að óska þess, að þeir mættu á einum fundi stutta stund til þess að upplýsa það, að þessi tilhögun, sem hér er lögð til, væri ekki á móti þeirra ráði í neinum aðalatriðum a. m. k. Eins og þetta mál liggur fyrir, þá get ég ekki séð, að það hafi verið sýnt fram á ríkari nauðsyn á breyt. á skipun læknishéraða í þeim héruðum, sem eru nú í því frv., sem hér liggur fyrir, heldur en ég hef sýnt hér fram á, að er á nýskipun á læknishéruðunum hér í Reykjavík og Kópavogi.

Þessi hv. d. taldi í fyrra rétt að afgreiða þetta sama mál á þann hátt að óska eftir nánari athugun á því af hálfu heilbrigðisyfirvaldanna, fyrst og fremst fyllri rökum, nákvæmari tillögum um skipun þessara mála í þeim héruðum, sem í frv. er nú gert ráð fyrir að breyta tilhögun um. En þær upplýsingar, sem þessi hv. d. óskaði þá eftir, virðast ekkert liggja fremur fyrir, nú en þá. Ef ekki er sýnt fram á ríka nauðsyn þess að breyta nú þegar læknisskipun í Egilsstaðahéraði og Blönduóshéraði, sem mér virðist nú ekki hafa verið sýnt fram á, þá get ég ekki séð, að það kalli fremur að nú, eins og málin liggja fyrir, að breyta læknisskipuninni um þau héruð og stofna til nýrra embætta, heldur en í því héraði, sem ég hef sérstaklega flutt till. um, Kópavogshéraði. Ég gæti vel fallizt á, að þessu máli væri enn frestað og þess krafizt, að þær upplýsingar og till., sem þessi hv. d. óskaði eftir í fyrra, kæmu fram, því að ég tel það ekkert höfuðatriði hvað Kópavog snertir, eins og ég sagði áður, hvort það yrði horfið að þeirri skipun, sem við leggjum til. Það er að vísu hægt að upplýsa afstöðu heilbrigðisyfirvaldanna og viðkomandi embættismanna til þess máls nú þegar á mjög stuttum tíma, en það er ekki höfuðatriði. En ef á að breyta skipun læknishéraða að ekki meira athuguðu máli og með ekki fyllri upplýsingum og rökum en fyrir liggja, þá álít ég, að Kópavogshérað geti alveg eins komið til greina eins og hin héruðin, sem hér er rætt um.