31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

145. mál, skipun læknishéraða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það voru, herra forseti, tvö atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem mér virðist þurfa að svara nokkru nánar eða gera nánari grein fyrir. Í fyrsta lagi segir hann, að það sé ódýrara að sækja héraðslækni, sem sé búsettur í Kópavogi, heldur en praktiserandi lækni hér í Reykjavík. Nú vil ég spyrja: Kemur það í einn stað niður, þó að mennirnir séu í sjúkrasamlagi og séu að sækja sinn sjúkrasamlagslækni? Og er þá engu að síður ódýrara fyrir þá að sækja héraðslækni, þó að þeir séu í sjúkrasamlagi hjá öðrum manni? Og er þá yfirleitt ástæða fyrir þá að vera áfram í sjúkrasamlaginu með þeim hætti að leyfa þeim að hafa aðgang að læknunum hér í Reykjavík? Verður þetta ekki að vera með þeim hætti, ef héraðslæknir er þarna settur og ætlunin er að hann taki að verulegu leyti við því að gegna störfum, að þeim sé þá jafnframt bannað að njóta læknanna hér í Reykjavík, því að annars mundu þeir í raun og veru fá tvöfaldan rétt á við flesta aðra? En ef þeim er bannað að sækja sjúkrasamlagslækna hér í Reykjavík, þá virðist mér að mennirnir verði fyrir réttarskerðingu, en ekki réttaraukningu.

En svo er annað atriði, sem ég ætlaði að spyrja um, og það er það: Er ekki nú þegar a. m. k. einn læknir búsettur í Kópavogi, og gildir þá þessi dýrleiki á sókn lækna til Reykjavíkur einnig um hann? Nægir ekki að borga honum minna, en Reykjavíkurlæknunum, ef hann er sóttur og ef menn njóta þess að vera sjúkrasamlagsmeðlimir hjá honum?