02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

187. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það hefur nú alltaf komið betur og betur í ljós, hversu rík þörf er á því að setja upp öruggt eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana. Raddir meðal almennings eru að verða sí og æ háværari um það, að gerðar séu róttækar ráðstafanir til þess að spara eins og hægt er í rekstri ríkisins og ríkisstofnana, og það er að verða skoðun manna almennt, að slíkum sparnaði sé ekki hægt að koma á, svo að neinu nemi, nema með því að setja einhvers konar eftirlit með rekstrinum. Þetta gildir ekki einungis hér hjá okkur Íslendingum, heldur hafa þessar raddir einnig komið mjög fram í öðrum löndum, og vil ég vísa í því sambandi í þær samþykktir, sem gerðar hafa verið í Þingmannasambandinu, en þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skylda þjóðþingsins að hafa sjálft á hendi eftirlit með gjöldum ríkisins, enda er lokareikningur ríkissjóðs háður samþykki þess.“ Þar er enn fremur sagt: „Frv. eða skýrslu frá hlutaðeigandi fjármálanefnd ber að leggja fyrir þjóðþingið í síðasta lagi tveim árum eftir lok fjárhagsársins, og ber að ræða það mál í heyranda hljóði. — Lokareikning ber að leggja fram í sama formi og fjárlög þau, er hann svarar til, í því skyni að gera virkt eftirlit auðveldara.“ Enn fremur segir: „Nú kveður þjóðþingið sérfræðinga sér til aðstoðar við framkvæmd eftirlitsins, svo sem ráðsmann ríkisins, aðalendurskoðanda eða aðra, og skulu þeir vera óháðir framkvæmdavaldinu og hafa þá aðstöðu, að þeir geti leyst skyldur sínar af hendi algerlega hlutdrægnislaust.“ Þar segir enn fremur: „Ráðherrar þeir, sem hlut eiga að máli, skulu bera ábyrgð á öllum misfellum, er slíkt eftirlit kann að leiða í ljós, og ber þeim skylda til að gefa þinginu nauðsynlegar skýringar.“ Og enn fremur: „Á fjárhagsári því, sem fjárlögin gilda, gæti þingið, eftir því sem unnt væri, komið á eftirliti þingsins með því að hlutast til um, að framkvæmdavaldið fylgist jafnharðan með ríkisgreiðslum, og með kosningu þingnefndar til þess að hafa gætur á, hvernig áætlun fjárlaganna er fylgt. — Þing Þingmannasambandsins lætur þá von í ljós, að bráðlega verði til umr. tekin þau vandamál, sem sífellt fer fjölgandi og varða rétt þjóðþinganna til eftirlits með fjármálum stofnana og fyrirtækja, sem rekin eru á ábyrgð hins opinbera eða eiga rétt á, að ríkið hlaupi undir bagga með.“

Þetta eru samþykktir, sem gerðar voru í Bern og sýna, að það er víðar en hér á landi, sem álitið er, að brýna nauðsyn beri til þess að setja á eftirlit á líkan hátt og farið er fram á með því frv., sem hér liggur fyrir.

Það var einnig viðurkennt 1949 af báðum hv. d. Alþingis, að þessi nauðsyn væri þá fyrir hendi, og frv., sem þá var borið fram og fór í líka átt og það frv., sem hér um ræðir, komst í gegnum 5 umr. í Alþ. Ágreiningur var enginn um stefnu frv. út af fyrir sig, heldur eingöngu um það, hvernig velja skyldi eftirlitsmanninn. Á því strandaði framkvæmd málsins á því þingi. Þegar ég svo samdi það frv., sem hér liggur fyrir, þá hélt ég mér við þau aðalverkefni, sem ákveðin voru í frv. frá 1949 og höfðu þá náð samþykki, en breytti nokkuð þeim ákvæðum, sem ágreiningur varð um, þ. e. því, hvernig velja skyldi eftirlitsmanninn. Samkvæmt mínum till. er ætlazt til, að eftirlitsmaðurinn sé valinn af fjvn. á 2. fundi, er hún kemur saman eftir hverjar kosningar, og að hann skuli aðeins valinn til fjögurra ára. Geri ég það beinlínis vegna þess, að ég tel, að hér sé um svo vandasamt verk að ræða, að það sé engan veginn rétt að skipa í það mann á sama hátt og embættismenn eru almennt skipaðir, þar sem þá væri ekki hægt að láta hann víkja frá þessu starfi, hvernig sem hann rækti það, nema til kæmu einhver sérstök afglöp. Annars mundi hann sitja í embættinu unz hann væri kominn yfir aldurstakmarkið. Ég tel það mjög óheppilegt og miklu heppilegra, að fjvn. eða Alþ., sem ég geri nú ekki að ágreiningsefni, kjósi manninn til starfsins, og getur Alþingi þá ávallt fylgzt með því, hvernig hann rækir starfið. Og það er einmitt þess vegna, sem ég legg til, að starfstíminn verði ekki ákveðinn í hvert skipti lengur en 4 ár, til þess að það væri þá ávallt hægt að skipta um eftirlitsmanninn, ef hann hefði ekki rækt sitt starf eins og Alþ. og ríkisstj. telja að rækja beri það.

Þá hef ég einnig hér í frv. gert till. um það, að í starfið sé aðeins valinn þm. Er það byggt á þeim staðreyndum, að ég tel, að eftirlitsmaðurinn hafi miklu sterkari aðstöðu til þess að koma fram þeim umbótum, sem hann telur að þurfi að koma fram á ríkisrekstri almennt, ef hann situr sjálfur á þingi og hefur þannig beint samband við alla þm., heldur en ef hann situr fyrir utan þingið og verður að sækja undir annaðhvort hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma eða Alþ. án þess að eiga þar sæti sjálfur til að koma á endurbótum, sem hann telur nauðsynlegar.

Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að ég hef sett inn í frv. þessi ákvæði, sem ég hef hér lýst.

Hv. fjhn. ræddi þetta mál á allmörgum fundum. Raunverulega var mjög lítill eða jafnvel enginn ágreiningur í n. um það, að nauðsynlegt væri að koma á því eftirliti, sem hér um ræðir, og er það raunverulega alveg í samræmi við það, sem áður hefur skeð hér á Alþ., og ég veit ekki nema það hefði tekizt að fá fullkomna einingu um afgreiðslu málsins í hv. fjhn., ef menn hefðu talið, að það væri mögulegt að koma þessu máli í gegnum báðar d. þingsins, þegar svo er liðið á þingtímann, en það taldi hv. minni hl. ógerlegt, til þess stæðu engar vonir, að unnt væri að koma málinu fram á svo skömmum tíma, það sé brátt komið að þingslitum og þess vegna taldi hann betra fyrir málið í framtíðinni að afgreiða það með vinsamlegri og rökstuddri dagskrá, eins og sést á þskj. 680. Ég tel hins vegar, að málið sé svo merkilegt, að það sé þess virði og engum vandkvæðum bundið að fresta heldur þingslitum en láta þetta mál ekki ná fram að ganga á þessu þingi. Ég veit um mörg önnur stórmál, sem afgr. hafa verið hér á Alþ. á skemmri tíma, en enn er eftir af þingi, og ef það væri vilji hæstv. ríkisstj. að koma málinu áfram, þá sé ég ekki, að það eitt þyrfti að tefja málið, að ekki séu eftir nema fáir dagar til þingloka. Hitt er svo annað mál, að ef ekki er hægt að fá um það samkomulag bæði í hæstv. ríkisstj. og hjá meiri hl. Alþ., þá standa að sjálfsögðu ekki til þess neinar vonir. En ég hygg, m. a. eftir því, sem um þetta hefur verið rætt í hv. fjhn. þessarar d., sem hefur haft samband við alla flokkana í þinginu um málið, að þá standi mjög miklar vonir til þess, að það sé hægt að koma málinu fram á þessu þingi, þótt svo sé áliðið, þegar vitað er, hve mikil nauðsyn er til þess að gera hér umbætur á.

Þetta mál var sent til endurskoðunardeildar fjmrn. til umsagnar, og er umsögnin birt sem fskj. með þskj. 661. Ég held, að það verði nú ekki séð á umsögninni, að endurskoðunardeildin sé andvíg málinu út af fyrir sig. Hins vegar telur hún, að hún sé að vinna að því smám saman að koma á betri og bættari árangri af starfi sínu, eftir því sem henni vinnst tími til að gefa fleiri stofnunum sérstakan gaum í því skyni að koma á samræmi. Við, sem setið höfum í fjvn., höfum nú ekki orðið þess varir, að þessi fjölmenna stofnun, sem nú er þó það fjölmenn, að ekki veitti af því einnig að hafa eftirlit með hennar störfum, hafi unnið nokkuð á í þessum málum síðan hún var gerð svo fjölmenn sem hún er í dag. Ég hef ekki orðið var við það sem form. fjvn., að frá henni sérstaklega hafi komið neinar till. til n. um skipulagsbreyt. til bóta í neinni stofnun eða hjá neinum embættismanni, og ég hef ekki heldur séð, að þegar ágreiningur hefur verið um aukningu í embættum hjá hinum mismunandi ráðuneytum, þá hafi sá ágreiningur verið sendur til endurskoðunardeildarinnar, til þess að hún segði sitt álit um þau mál. Þessi ágreiningur hefur að minnsta kosti tvö undanfarin þing verið sendur til fjvn., sem vegna stöðu sinnar hefur enga aðstöðu til þess að geta dæmt um það, hvort það sé rétt að fjölga þar mönnum eða fækka, því að til þess þyrfti hún að starfa allt árið. En ef settur væri upp slíkur eftirlitsmaður eins og hér er gert ráð fyrir, þá gæti hann að sjálfsögðu leiðbeint ráðuneytunum í sambandi við slík mál hvenær sem væri, vegna þess að það væri hans sérstaka verk að kynna sér þau mál, kynna sér, hvort nauðsynlegt sé að bæta við starfskröftum eða hvort hægt væri að fækka þeim með betra skipulagi.

Ég þykist ekki þurfa að ræða langt mál í sambandi við þetta frv. Það er þm. vel kunnugt frá fyrri þingum, var þá mjög rætt frá öllum hliðum. Þar að auki er öllum hv. þm. svo kunnugt, hversu mikil nauðsyn er að koma þessu starfi á til þess að koma á endurbótum í hinum ýmsu stofnunum, að ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það miklu frekar. Ég skal hins vegar ljúka máli mínu með því að benda á, að það veltur að sjálfsögðu mjög mikið á því, hvers konar maður velst í starfann. En ég ber engar áhyggjur fyrir því, þó að hópurinn sé takmarkaður við tölu hv. þingmanna, að þá finnist ekki þar margir hæfir menn til þess að gegna þeirri stöðu, sem hér um ræðir, svo að ég get ekki fallizt á, að það eitt, að ekki sé hægt að velja menn til starfans, sem séu hæfir í hann, ætti að verða málinu að falli. Ég vil nú vænta þess, að þetta mál nái hér fram að ganga, og ef það er sýnilegt, að hv. d. fellst á till. og lætur málið ganga til 3. umr. og fellir þá rökstuddu dagskrá, sem hér er fram komin, þá vildi ég mega vænta þess, að hægt væri að taka upp samkomulag við hæstv. ríkisstj. og hæstv. forseta um að haga svo störfum, að það sé hægt að fá þetta mál samþ. í báðum d. þingsins, áður en til þingslita kemur.