05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

33. mál, áfengislög

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég er í þeim meiri hl. hv. allshn., sem stendur að því að leggja til, að þessu frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Þessi till. nefndarmanna hefur mætt gagnrýni allmargra þeirra hv. þdm., sem þegar hafa talað hér, og er ekki aðeins talið ónauðsynlegt að vísa málinu frá og ástæður n. fyrir því ekki nægjanlegar, heldur jafnvel hitt, að með því sé n. að sýna málinu í heild fjandskap og gera tilraun til þess að tefja fyrir því, að gerðar séu þær „lagfæringar“, eins og það er orðað, á áfengislöggjöfinni, sem nauðsynlegar séu og felist í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. frsm. n. hefur nú fært fram þau rök, sem meiri hl. hennar hefur fyrir því að vilja vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá, og hefur þá getið þess, sem rétt er, að meginástæðan, sem fram er færð í rökstuddu dagskránni, er sú, að við undirbúning málsins, þ. e. a. s. þá endurskoðun, sem framkvæmd var á áfengislöggjöfinni af mþn., sem til þess var skipuð, hafi ekki verið nægilega tekið tillit til þeirra félagssamtaka í landinu, sem mest hafa látið þessi mál til sín taka og á einn eða annan hátt varðar það mestu, að vel sé ráðið fram úr því efni, sem hér er um að ræða. Ég held, að það sé alveg rétt, þrátt fyrir þau mótmæli, sem hér hafa komið fram. Þrátt fyrir það að — eins og nefnt hefur verið hér — Brynleifur Tobíasson, sem er mikill bindindismaður og hefur um langt skeið starfað í hópi góðtemplara hér á landi, ætti þarna sæti í n., þá er ekki hægt að segja þar með, að Stórstúkan hafi átt þar nokkurn hlut að máli, því að hann var, eins og líka hefur verið nefnt, skipaður þarna sem starfsmaður ríkisins, sem áfengisvarnaráðunautur eða hvað það nú er kallað, en ekki sem fulltrúi Stórstúkunnar. Og það hefur komið fram, að Stórstúkan telur ekki koma fram í því frv., sem hér liggur fyrir, þau sjónarmið, sem ríkjandi eru í Stórstúkunni, enda stafar það náttúrlega líka af því, að þessi fulltrúi bindindismannanna — eða sem mætti kalla fulltrúa bindindismannanna, þótt hann væri það ekki formlega — var yfirleitt ofurliði borinn í n. um öll hin veigamestu atriði, sem þar voru rædd, og þess vegna koma ekki heldur nema að mjög litlu leyti fram í þessu frv. þær till., sem hann gerði. Samtök kvennanna, sem hafa ekki aðeins mikinn áhuga á þessum málum, heldur líka vegna stöðu konunnar í þjóðfélaginu og á heimilinu alveg sérstaklega mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við það, hvernig með þessi mál er farið, áttu engan fulltrúa í n., og þeirra sjónarmið hafa þess vegna alls ekki komið fram, en hins vegar borizt til n. blátt áfram tilmæli um það, að ný endurskoðun færi fram á áfengislöggjöfinni, þar sem samtök kvenna fengju aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við sjálfa endurskoðunina.

Þessi samsetning n., sem að verulegu leyti var skipuð sem sagt starfsmönnum ríkisins, hefur þá líka orðið til þess, að myndazt hefur þar meiri hluti, sem veldur því, að í því frv., sem hér liggur fyrir, koma fram sjónarmið, sem eru í verulegum atriðum — og í þýðingarmiklum atriðum — gagnstæð sjónarmiðum bindindismannanna í landinu. Það er tekið fram hér í l. gr. frv., að tilgangur laganna eigi að vera „sá að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess“, — menn hafa nú hnotið um þetta orðalag, sem von er, og hafa nú komið fram brtt. um það, — þar stendur: „að vinna að hóflegri meðferð áfengis“. Það þýðir nú náttúrlega alls ekki það sama og að vinna á móti meðferð áfengis í landinu, heldur jafnvel það gagnstæða, enda sýnir það sig, að meginefni frv. er alls ekki það að stuðla að einu sinni hóflegri meðferð, heldur þvert á móti er það í raun og veru að stuðla að aukinni meðferð áfengis í landinu, rýmka um þau ákvæði, sem hafa verið til þess að hindra það, að áfengi væri um hönd haft, þó að þau ákvæði hafi nú því miður ekki verkað eins mikið og þurft hefði að vera. En meginnýmælin í frv. eru einmitt um það að rýmka um þessi ákvæði og þannig beinlínis að stuðla að aukinni meðferð, aukinni neyzlu áfengis í landinu. Það eru í raun og veru þau helztu atriði, sem hv. þm. Vestm. nú síðast var að tala um, að ekki mætti stöðva þetta frv. vegna þeirra umbóta og lagfæringa, sem í því fælust. Meginefni frv. er því þvert á móti hitt, að skapa aðstöðu til þess að koma á framfæri til landsmanna meira áfengi heldur en gert hefur verið. Þar má fyrst og fremst nefna ákvæðið um sterka ölið. Það er alveg nýmæli í áfengislöggjöfinni, og auðvitað verður ekki hægt að líta á það öðruvísi, en þannig, að það sé tilraun til þess að koma á framfæri við landsmenn, ja, að minnsta kosti nýrri tegund áfengis. Þó að reynslan ein auðvitað geti skorið úr því til fulls, þá er það að minnsta kosti álit mjög mikils fjölda manna og þar á meðal álit mitt, að það mundi verða til þess að auka áfengisneyzlu í landinu. Sömuleiðis er eitt af helztu nýmælum frv. það, að áfengi skuli veitt á miklu fleiri opinberum stöðum, en nú er leyfilegt samkvæmt gildandi áfengislöggjöf, þ. e. a. s., að veitingahúsum almennt yrði veitt veitingaleyfi, ef þau fullnægja þeim skilyrðum, sem fyrir því eru sett í lögunum og yfirleitt eru þannig, að í framkvæmdinni mundu ekki verða mikil vandkvæði á því fyrir veitingahúsin nokkurn veginn almennt að fá þetta vínveitingaleyfi. Það er annað meginnýmælið í frv., og ég held, að það mundi ekki verða til þess að draga úr áfengisneyzlu í landinu, heldur þvert á móti til þess að auka hana.

Þessi sjónarmið, sem þannig hafa orðið ofan á hjá þeirri n., sem skipuð var til þess að endurskoða áfengislöggjöfina, eru sem sagt í andstöðu við þær hugmyndir, sem bindindismenn í landinu gera sér um það, hvernig eigi að fara að því að draga úr áfengisneyzlunni. Þess vegna álít ég, að það séu full rök fyrir því, sem meiri hl. n. vill láta gera í þessu máli, þ. e. að vísa því frá þinginu nú og láta fara fram nýja endurskoðun á áfengislöggjöfinni, þar sem fulltrúar bindindismannanna í landinu eigi fyllilega kost á því að koma fram sinum sjónarmiðum, frekar en var í þeirri n., sem þetta hafði með höndum.

Það má til viðbótar við þetta, — þar sem það styður að því, hversu telja megi, að þessum undirbúningi hafi verið hagað á ófullnægjandi hátt hvað þetta snertir, — benda á það, að hv. dm. virðast ekki líta þannig á þetta frv., að það sé sérstaklega fullkomið eða vel frá því gengið, því að það eru nú ekki færri, en á milli 60 og 70 brtt., sem þegar er búið að leggja fram hér í deildinni við þetta frv., og hafa verið boðaðar fleiri brtt., ef málið gangi lengra áfram. Ég held, að þetta sé líka nokkur vottur um það, að hv. dm. séu ekki sérlega ánægðir aneð það frv., sem hér liggur fyrir, heldur telji, að þörf sé á að gera á því mjög viðtækar og gagngerar breytingar. Hitt veit maður, hvernig er að ætla að umsteypa í meðferð þingsins svo stórum lagabálki sem hér er um að ræða og í jafnvandasömu máli sem þessu. N. treysti sér ekki til þess að gera það og valdi því þessa leið, sem meiri hl. hennar hefur nú lagt til, þ. e. a. s., meiri hl. hennar treysti sér ekki til þess, með þeim tíma, sem hún hefur til starfa, ásamt afgreiðslu fjölda annarra mála, sem til hennar er vísað, og ég er nokkuð hræddur um það, að þegar hv. þdm. eiga nú að fara að greiða hér atkv. um allar þær brtt., sem hér liggja fyrir, þá geti það orðið nokkuð handahófskennt, hvað ofan á verður, og svo gæti nú farið, að þegar frv. kæmi til 3. umr. eftir þá meðferð, þá yrði það nú kannske ekki á þá leið, sem ákjósanlegast mætti heita. Ég er nokkuð hræddur um það. Ég held, að hitt væri miklu réttara, sem meiri hl. n. leggur til, eins og málið nú horfir við, að þetta sé unnið betur utan þings á þann hátt, sem ætlazt er til með rökstuddu dagskránni.

Ég ætla ekki að fara að ræða í einstökum atriðum þær brtt., sem hér liggja fyrir. Þær eru, eins og ég nefndi áðan, mjög margar, og ég ætla ekki að fara að ræða þær í einstökum liðum, á meðan ekki er enn þá séð, hvort rökstudda dagskráin verður samþykkt eða ekki. En ég get ekki varizt því að minnast ofur litið á þá ræðu, sem hv. þm. Barð. flutti hér áðan, og þá í því sambandi örfáar af þeim till., sem hann flytur.

Við vitum það nú allir hér, hv. þdm., og að sjálfsögðu fjöldi annarra einnig, að hv. þm. Barð. er ákveðinn bindindismaður, neytir sjálfur ekki áfengis og allajafna þegar slík mál sem þessi hafa verið á dagskrá hér í þinginu, þá hefur hann gerzt talsmaður bindindismanna, og ég býst við, að hann hafi talið sig gera það enn í þeirri löngu og ýtarlegu ræðu, sem hann flutti hér áðan. Ég heyrði hana ekki alla, en nokkuð af henni samt, og ég gat nú ekki varizt því að lita svo á, að það væri í raun og veru ekki bindindismaðurinn Gísli Jónsson, sem var að tala í ýmsum köflum þeirrar ræðu, heldur væri það fyrst og fremst formaður fjvn. Hv. þm. Barð. leggur þar t. d. til — eða tekur það upp úr frv. að vísu — í brtt., sem hann gerir við 7. gr. frv.. að leyfð sé bruggun á sterku öli, — tekur það upp úr 7. gr. frv. í sína brtt. Það stendur nú hér á þskj. 111,4, í brtt. hv. þm., með leyfi hæstv. forseta: „Þó skal ríkisstj. heimilt að leyfa tilbúning öls, sem hefur inni að halda meira en 2¼% af vínanda að rúmmáli, enda verði tollar og skattar greiddir af því öll eftir sömu reglum og gilda um annað öl, sem framleitt er í landinu.“ Síðan er gert ráð fyrir, að ef þetta verði samþykkt með þjóðaratkvæði, þá sé hægt að leyfa sölu á þessu öll bæði innanlands og til útflutnings. Hv. þm. Barð. gerir sem sagt ráð fyrir því, að þessi háttur verði tekinn upp, ef það verður samþykkt við þjóðaratkvgr., og sönnunin fyrir því, að hann geri áreiðanlega ráð fyrir því, að þetta geti komið til framkvæmda, er sú, að hann talaði um það í sinni ræðu og er búinn að gera um það útreikninga, að ef þetta verði gert, þá geti ríkið fengið af þessu tekjur, sem nemi 1/3 af þeim tekjum, sem það nú hefur af áfengissölu ríkisins, svoleiðis að hv. þm. talaði um það sem líklegan möguleika, að þetta verði gert og að af þessu fái ríkið mjög miklar tekjur. Að vísu bætti hann því svo við, að þegar þessar tekjur væru fengnar með þessum hætti, þá gæti ríkisstj. takmarkað starfsemi áfengisútsölunnar með því að flytja þá minna af áfengi til landsins og selja minna af því heldur en gert hefur verið, sem þessu næmi. En mér dettur nú satt að segja ekki í hug, að hv. þm. Barð. geri ráð fyrir því í fullri alvöru, að ef svona væri komið og ríkið væri búið að fá þessar tekjur eftir þessari leið, þá færi ríkisstj. að leggja sérstakar hömlur á starfsemi Áfengisverzlunarinnar. Ég held, að hún hafi mjög vel þegið þær tekjur, sem af henni hafa fengizt að undanförnu í ríkissjóðinn, og anundi halda áfram alveg eftir sem áður að stuðla að því, að þær yrðu sem mestar og að þessar tekjur af sterka ölinu yrðu aðeins til viðbótar því, sem ríkið fær nú og mundi halda áfram að fá frá áfengisútsölunni. Ég held, að þarna hafi komið fram sjónarmið fjvn.-mannsins, en alls ekki það sjónarmið, sem bindindismaðurinn Gísli Jónsson hefur svo oft túlkað fyrir okkur hér í þinginu og víðar.

Sama virðist koma fram í annarri brtt., við 10. gr. frv., þ. e. 7. brtt. á þskj. 111, þar sem talað er um útsölustaði áfengisins. Það hefur verið svo undanfarið og er gert ráð fyrir því í frv., að þessir útsölustaðir verði leyfðir aðeins í kaupstöðum og ekki víðar, en í þessari brtt. hv. þm. Barð. er gert ráð fyrir því, að það megi leyfa útsölustaði, ja, mér skilst eiginlega svo að segja hvar sem er á landinu, ef atkvgr. á viðkomandi stað leyfir það, — ekki aðeins í bæjum og kaupstöðum, eins og nú er gert, heldur í „bæjar- eða sýslufélagi, sem í hlut á“, eins og hann orðar það í sambandi við atkvgr. um þetta efni. Hann virðist þarna sem sagt ganga lengra, heldur en verið hefur í gildandi lögum og heldur en gert er ráð fyrir hér í frv. í því efni að leyfa möguleika á því að setja upp áfengisútsölur svo að segja hvar sem er á landinu. Þarna kemur aftur fram, að því er mér virðist, þetta sjónarmið fjvn.-mannsins að halda opnum sem mestum möguleikum fyrir ríkissjóð til þess að afla tekna, einnig þótt það sé í sambandi við áfengissölu.

Mér kom þetta dálítið á óvart, og ég vil nú álita, að þetta sé ekki neinn vottur um hugarfarsbreytingu hjá hv. þm. hvað bindindissemi snertir, heldur sé það bæði þetta, sem ég hef verið að tala um, að hann sé of haldinn þarna sjónarmiði fjvn.- formannsins, og svo líka hitt, sem ég nefndi áðan, að það er enginn hægðarleikur að ætla sér að fara að umsteypa frv. slíku sem þessu í fljótum hasti við meðferð málsins í þingdeildinni. Og þetta mun líka vera vottur um það, að hv. þm. hafi haft heldur nauman tíma til þessa, þó að hann hafi í það ráðizt af miklum dugnaði eins og endranær, og að þess vegna séu þessar tillögur hans og enda ýmsar aðrar brtt., sem fram hafa komið við frv., ekki nægilega hugsaðar, og niðurstaðan af öllu þessu mundi þess vegna verða sú, sem ég líka gat um áðan að ég óttaðist nokkuð, að afgreiðslan á brtt. og þar með á frv. í heild, ef það heldur áfram, mundi verða nokkuð handahófskennd, og niðurstaðan gæti orðið sú, að það, sem út úr afgreiðslunni kæmi, eins og málið nú horfir við og með þeim undirbúningi, sem það hefur fengið, yrðu engan veginn neinar umbætur á núverandi áfengislöggjöf, heldur til þess að stórskemma hana á ýmsan hátt. Þar á ég þó sérstaklega við þau tvö meginatriði, sem ég nefndi áðan, bruggun sterks öls og fjölgun veitingastaða, og e. t. v. samkvæmt þeim brtt., sem hérna væru, fjölgun útsölustaða í talsvert stórum stíl. M. ö. o., niðurstaðan yrði sú, að samkvæmt þeirri áfengislöggjöf, sem kæmist í gildi við samþykkt þessa frv., yrði stuðlað að aukinni áfengisneyzlu í landinu, þvert á móti því, sem átti að vera tilgangurinn með endurskoðun áfengislöggjafarinnar og að nokkru leyti er látið í veðri vaka með þessu frv. hér, þó að meiri hl. mþn. hafi vegna þeirra sjónarmiða, sem þar voru ofan á, jafnvel ekki tekizt betur en 1. gr. frv. ber vott um að dylja þann tilgang, sem raunverulega liggur á bak við þetta frv. Ég mun þess vegna, þrátt fyrir þá gagnrýni, sem komið hefur fram á afstöðu meiri hl. n. hér, halda fast við þá afstöðu, að réttast sé að vísa frv. frá, eins og málum nú er komið.