05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

33. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera örstutta grein fyrir atkv. mínu um sum atriði þessa máls, en áður en ég vík að því, get ég ekki látið hjá líða að mótmæla algerlega þeim sleggjudómum, sem hv. þm. Barð. hafði hér um það, að hv. S. þm. Reykv. hefði fengið fyrirskipanir í þessu máli frá sínum flokki. Það hefur verið svo, ekki einasta í Framsfl., heldur — held ég — í öllum flokkum þingsins, að þetta mál hefur aldrei verið flokksmál, og hv. 8. þm. Reykv. hefur aldrei fengið neinar fyrirskipanir frá Framsfl. í þessu máli. (Gripið fram í.) Og það mun sýna sig, t. d. á minni atkvgr. í ýmsum atriðum þessa máls, að það hafa þá verið gagnstæðar fyrirskipanir, sem hv. 8. þm. Reykv. hefur fengið og ég, ef um fyrirskipanir er að ræða, og allt þetta tal hans um flokksfjötra er tóm fjarstæða og á ekki við nokkurn skapaðan hlut að styðjast. — Sama er að segja um það, sem hv. þm. Vestm. var hér að tala um, að það hefðu verið gerðar árásir á hæstv. dómsmrh. út af framkvæmd áfengislaganna af pólitískum ástæðum, að mér skildist, frá hendi Framsfl. Þetta hefur aldrei verið gert. Það vita allir, að blaðamaður einn, sem starfað hefur við blaðið Tímann, er mikill áhugamaður í bindindismálum og hann hefur algerlega skrifað á sína ábyrgð, en ekki á ábyrgð flokksins um þessi mál, og það hefur komið alveg ljóslega fram, t. d. með yfirlýsingu hæstv. fjmrh. í því sama blaði. Ég mótmæli því öllum þess konar ummælum.

En þetta, sem ég ætlaði að gena grein fyrir mínu atkv., er í stuttu máli það, að vissulega tel ég, að þörf hefði verið á því að bæta áfengislögin að ýmsu leyti, en ég skal játa það, að ég er ákaflega trúdaufur, einkum eftir að hafa séð vinnubrögð hv. allshn. í málinu, eða meiri hl. hennar, um, að þau lög, sem kynnu að verða sett hér, yrðu til mikilla bóta. Þess vegna hefði ég fyrir mitt leyti haft tilhneigingu til þess að samþ. frestun á málinu, ef það hefði verið rökstutt á skynsamlegan hátt. En sú dagskrártill., sem hér liggur fyrir á þskj. 343 frá hv. meiri hl. allshn., er þannig, að ég álít það alveg fráleitt og jafnvel hreint hneyksli, ef hv. d. fer að samþ. slíka dagskrártill. Efri deild Alþingis getur þó að minnsta kosti ekki samþ. hrein ósannindi, eins og í dagskrártill. eru, þar sem þar er tekið fram, að fulltrúi Stórstúku Íslands hafi ekki átt hér neinn hlut að máli. Mér þykir nú margt fara að horfa undarlega við, ef Brynleifur Tobíasson má ekki teljast fulltrúi Stórstúku Íslands. Hann hefur um langan tíma verið stórtemplar og er einn af kunnustu templurum landsins, eins og hér hefur verið tekið fram. Þess vegna tel ég það ósannindi í dagskrártill., að fulltrúi frá Stórstúku Íslands hafi ekki tekið þátt í þessu starfi. Fyrir utan þetta fæ ég nú ekki skilið það, eins og nú horfir við og eftir að kvenfólk hefur fengið algerlega jafnrétti við karlmenn, hvers vegna það eigi endilega að vera tvær konur í ráðum um þetta. Ég held, að hvert lagafrv. eigi að undirbúa þannig að fá til þess hæfa menn, án tillits til þess, hvers kyns fólkið er, sem að þessu starfar. Ég veit ekki, hvaða sérstöðu konur hafa í þessu, satt að segja. Það var að vísu einu sinni svo, að konur höfðu þá sérstöðu að því er áfengismál snerti, að þær yfirleitt drukku ekki, eins og karlmennirnir gera og gerðu, en sá tími er liðinn. Ég veit ekki betur, en að konur neyti víns alveg eins og karlmenn, eða svo til. Með þessu er ég ekki að segja það, að konur megi ekki taka þátt í undirbúningi þessa máls, en að það sé út af fyrir sig ástæða til að vísa málinu frá, að konur hafa ekki átt fulltrúa í mþn., það fæ ég ekki skilið. Og hvers vegna er það þá ekki líka haft á móti framgangi málsins, að félög karlmannanna sem slík hafa ekki átt fulltrúa í n.? Það hafa þau ekki heldur átt. Það hefur sem sagt ekki verið farið eftir kynjum í þessu efni. Ég get því ómögulega annað en greitt atkvæði á móti þessari dagskrártill., sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir það þótt ég hafi litla von um það, að á þessu þingi verði samþ. löggjöf í þessu efni, sem sé til mikilla bóta.

Ég ætla ekki að fara að rekja þær brtt., sem hér liggja fyrir, enda yrði það of langt mál, að minnsta kosti á þessum fundi, sem nú er að ljúka. Þó get ég ekki stillt mig um að minnast á eina brtt., sem liggur fyrir, og það er 4. brtt. hv. þm. Barð., um það í höfuðdráttum, að það skuli fara fram þjóðaratkvæði, ekki einasta um það, hvort áfengi sé leyft í landinu, heldur líka um það, hvort þjóðin fallist á að taka á sig þá skatta, sem óhjákvæmilegir eru í staðinn fyrir áfengissöluhagnaðinn. Hv. þm. Barð. tók það fram í sinni ræðu hér fyrr í dag, að hann væri fús að athuga það, hvort atkvgr. um þessi tvö atriði ætti ekki að fara fram í einu lagi, og væri fús til að athuga það fyrir 3. umr., ef till. hans næði fram að ganga nú. Ég álít, að þetta sé alveg nauðsynlegt. Ég álít, að eins og allt þetta mál horfir við, þá eigi að fara fram þjóðaratkvæði alveg tvímælalaust um það í einu lagi, hvort þjóðin aðhyllist áfengisbann, og þá um leið, hvort hún er fús til að taka á sig þá auknu skatta, sem af því mundi leiða. Ég mun því greiða atkvæði með þessari brtt. hv. þm. Barð., í þeirri von, ef hún verður samþ., að með okkur tækist þá samvinna um að breyta þeim ákvæðum nokkuð fyrir 3. umr.

Mín skoðun á þessum málum er í stuttu máli sú, að það séu í raun og veru ekki nema tvær leiðir í þessum málum. Önnur er sú að gera tilraun til þess að útiloka áfengi með öllu, og ef þjóðin vill það og vill fórna einhverju fyrir það, þá er sjálfsagt að reyna það. Hin leiðin álít ég að sé aftur á móti sú að vera ekki að hafa óþörf lagaákvæði og reglugerðarákvæði um alls konar takmarkanir og höft, sem allir vita að eru ekki til annars, en þess að brjóta og er ekki hægt að hafa öðruvísi. Ég minni aðeins í þessu sambandi á eitt atriði, sem hér hafa verið töluverðar deilur um á Alþingi fyrir stuttu — ekki á þessu þingi. Það var um bann við því að flytja með sér áfengi í bil. Ætli það sé nú ekki nokkurn veginn flutt áfengi í bílum um landið, eftir að þessi lög voru sett, eins og áður? Ég hugsa það. Ég hugsa, að lítið hafi dregið úr því, að áfengi sé flutt í bílum. Og svona er um fleira.

Í sambandi við þetta vil ég aðeins drepa á 10. gr. frv., sem slær því föstu, að héruð, þ. e. a. s. kaupstaðir, geti ákveðið með atkvgr. að afnema áfengisverzlun. Ég álít, að slíkt ákvæði sé ákaflega vafasamt til bóta, á meðan áfengissala er í landinu á annað borð. Ég veit ekki betur, en að í allflestum héruðum þessa lands gildi eins konar héraðabann. M. ö. o., það er svo um flest héruð, að þar er alls engin útsala áfengis. Það er t. d. engin útsala áfengis í Skagafirði, Húnavatnssýslu o. s. frv. En það er bara drukkið alveg eins í þeim héruðum eins og í þeim héruðum, sem áfengisútsölurnar hafa. Ég held því, að þetta geti ekki aukið hófsemi eða dregið úr áfengisnautn á nokkurn hátt, en það geri annað, það auki leynisölu áfengis. Það er enginn vafi á því. Það kann að vera, að leynisala sé atvinnuvegur, eins og hv. þm. Barð. segir, en það er sá atvinnuvegur, sem ég held að Alþingi eigi ekki að vera að hlynna að. Þess vegna mun ég, ef frv. verður ekki vísað frá, greiða atkvæði á móti 10. gr. frv., þótt nokkur hluti hennar þurfi nú reyndar að standa. Það má þá bæta þeim atriðum inn aftur við 3. umr.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, þótt margt fleira mætti um þetta mál segja, en ég vil endurtaka það, að ég vil frábiðja mér og mínum flokki öll brigzl um það, að þm. lúti hér fyrirskipunum, að minnsta kosti míns flokks, og ég held yfirleitt, að þetta mál sé ekki flokksmál, hvorki málið í heild né einstök atriði þess, í nokkrum flokki.