02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

36. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Sjútvn. deildarinnar hefur athugað þetta frv. að nýju á fundi sínum í gær samkv. tilmælum hv. þm. Barð. Þess skal getið, að á þeim fundi voru fjarstaddir Guðmundur Í. Guðmundsson og Steingrímur Aðalsteinsson.

Nefndin sér ekki ástæðu til að flytja brtt. við frv. Um einstaka ábendingar hv. þm. Barð. skal ég taka þetta fram:

Varðandi 1. tölul. í 1. gr. frv. gerði hv. þm. nokkrar athugasemdir. Virtist mér í fyrstu, að hann vildi láta setja þar ákvæði um það, hversu með skyldi fara, ef hafnarmannvirki skemmdust beinlínis fyrir handvömm vitamálastjóra eða vitamálastjórnarinnar. Ég gat þess við 2. umr., að ég sæi ekki í fljótu bragði, að slík ákvæði gætu átt við í þessu frv., og ég hef sannfærzt enn betur um það við nánari athugun. Eigi að setja ákvæði sem þetta inn í íslenzka löggjöf, þá á það ekki heima hér. Það þarf um það sérstaka löggjöf og almenna. En mér skildist nú á seinni ræðu hv. þm. við 2. umr., að hann teldi nægja að fella niður orðið „slíkum“ í 1. tölul. En 1. tölul. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Styrk til hafnargerða og lendingarbóta á þeim stöðum, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum ofviðra, af sandburði; af völdum jarðskjálfta eða flóða eða af öðrum slíkum óviðráðanlegum orsökum.“

Ég tel alveg ástæðulaust að fella þetta orð niður. Mér skilst, að greinin, eins og hún er orðuð, feli það í sér, að heimilt sé að veita styrk til hafnargerða og lendingarbóta, þar sem tjón hefur orðið af einhvers konar náttúruhamförum. Það er að vísu svo, að það getur verið um að ræða tjón af öðrum ástæðum, en af völdum náttúrunnar, en langoftast hlýtur tjónið þó að vera þannig tilkomið einmitt á mannvirkjum hafnanna. Ég ég get ekki séð ástæðu til þess að kveða á um það í l. í eitt skipti fyrir öll, að hafnarbótasjóði sé ætlað að bæta öll tjón, alveg undantekningarlaust, hvað sem fyrir kann að koma. Sem sagt, mér finnst þessi grein nógu rúm, og ég mæli eindregið gegn því, að henni verði breytt. Aðrir nm. áskildu sér hins vegar rétt til að fylgja brtt., sem fram kynni að koma um þetta atriði.

Þá kem ég að 2. tölul. þessarar sömu gr. um vaxtalaus lán til óákveðins tíma. Hv. þm. virtist telja tilvísunina í l. um hafnargerðir og lendingarbætur hortitt. Þetta mun ekki vera rétt og mun stafa af misskilningi. 3. tölul. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðbótarframlög til aðkallandi hafnarbóta á stöðum, þar sem hafizt hefur verið handa um framkvæmdir, en framlög ríkissjóðs samkv. fjárlögum nægja ekki til greiðslu lögákveðins kostnaðarhluta ríkissjóðs við framkvæmdirnar.“

M.ö.o., vanti framlag ríkissjóðs í bili í framkvæmdir, sem eru í gangi, þá má hafnarbótasjóður lána ríkissjóði — raunverulega ríkissjóði — til allt að 3 ára það, sem vanta kann af ríkisframlaginu. 2. tölul, gr. hljóðar hins vegar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxtalaus lán til hafnar- og lendingarbótasjóða á þeim stöðum, þar sem hafnarmannvirki standa ófullgerð eða nokkuð á veg komin, en ekki hefur tekizt að ljúka vegna fjárskorts. Lán þessi má þó því aðeins veita, að ábyrgð ríkissjóðs samkv. 1. gr. l. nr. 29 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur, komi til. — Ráðherra ákveður lánstíma og greiðsluskilmála.“

Hér ræðir sem sagt um lán með ríkisábyrgð til óákveðins tíma samkv. ákvörðun ráðherra. Tilvísunin í l. um hafnargerðir og lendingarbætur bindur þessa aðstoð hafnarbótasjóðs við þann hluta kostnaðar, sem héruðin standa straum af. Þetta ákvæði er þess vegna fyllilega eðlilegt á þessum stað. Það virðist ástæðulaust, að hafnarbótasjóður láni ríkissjóði upp í framlag hans sjálfs til lengri tíma en 3 ára. N. leggur því til, að þetta atriði standi óbreytt.

Þriðja atriðið, sem hv. þm. Barð. gerði aths. við, er í síðustu mgr. 1. gr. Þar segir:

„Leita skal umsagnar Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra um fjárveitingar úr sjóðnum, en ráðherra úrskurðar.“

Hv. þm. andmælti því, að leitað væri álits vitamálastjóra. Nú er það hins vegar alkunna, að vitamálastjóri er starfsmaður ríkisins, hann er sérstakur trúnaðarmaður þess varðandi þennan málaflokk. Það virðist því ákaflega eðlilegt, að ráðh. hafi samráð við hann sem slíkan. Hv. þm. taldi á þessu þau tormerki m.a., að vitamálastjóri væri þm. sérstaks kjördæmis. Við því verður náttúrlega ekki gert og ómögulegt að miða löggjöf við slíkt. Ég held þetta sé út af fyrir sig hrein rökleysa. Ráðherrar eru líka oftast þm. einstakra kjördæma, svo að það er vandsiglt fram hjá því skeri að komast með úrskurði þessu viðkomandi fram hjá embættismönnum, sem líka kunna að vera þm. á vissum tímum. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að taka meira fram um þessi einstöku atriði. En sem sagt, n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.