08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

33. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera ekki mjög langorður í þessari aths.

Út af ræðu hv. 6. landsk. þm. vil ég aðeins segja þetta, að mest af þeim rökum, sem hann færir fram í þessu máli, eru einnig færð fram í minni aðalræðu, og get ég því verið honum samþykkur um margt af því, sem hann upplýsir í sambandi við þetta mál. Mér finnst hins vegar, að niðurstaða hans í málinu sé sú, að hann leggur til, að þetta sé allt saman óbreytt í heilt ár enn, og það er ég honum ekki sammála um. Ég tel einmitt, að það böl, sem hann lýsti svo átakanlega, sé svo alvarlegt, að það sé nauðsynlegt nú þegar að bæta nokkuð úr því. Ég hef þá skoðun, að ef mínar till. verði allar samþ. eins og þær liggja fyrir, þá sé það strax til bóta. Hins vegar, ef teknar eru út úr mínum till. einhverjar sérstakar till., án þess að annað fylgi, sem ég ætlast til að verði til þess að bæta málið, þá snýr nátturlega málið allt öðruvísi við.

Annars greinir okkur aðallega á um þetta tvennt: Hann og hv. 4. landsk. þm. og þá sjálfsagt kannske allur meiri hl. n. vill fara þá leiðina að herða á banninu, takmarka meira með banni, heldur en gert hefur verið. Þar greinir okkur á vegna þess, að ég vil einmitt, eins og ég tók fram í minni ræðu, reyna, hvort hægt er að þoka bölinu út með uppeldisaðferðinni. Ég vil aðeins benda þessum hv. þm. á það, að í dag og undanfarna daga hefur áfengisverzlunin verið lokuð í landinu, m. ö. o. algert sölubann hefur ríkt í landinu í nokkra daga. Og hver er árangurinn? Hann er sá, eins og ég sá m. a. í Alþýðublaðinu í dag, að nú kvað vínflaskan vera komin upp í á þriðja hundrað krónur. Það er sagt, að það sé aldrei annað eins flóð af víni inn í landið úr skipum, sem liggja hér, eins og einmitt nú, á meðan verzlunin er lokuð. Það kann að vera, að þetta sé rangt, en það er áreiðanlegt, að það hefur ekki verið hægt að útiloka vindrykkju í bænum eða í landinu þessa daga, sem vínverzlunin er lokuð. Það sannfærir mig m. a. um það, að við verðum að horfast í augu við þann raunveruleika, að örðugt mun að fyrirbyggja vínnautn með banni einu og að taka verður upp hina leiðina, að reyna að útrýma bölinu með fræðslu, og að því stefna mínar till:

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. 4. landsk. þm. Ég er honum þakklátur fyrir að hafa nú á þessu stigi málsins rætt málið efnislega, og er það allt annað en hv. frsm. n. gerði. En hann tók hins vegar mínar till. og tætti þær í sundur, ræddi þær út frá allt öðru sjónarmiði og gerði mér m. a. upp ýmis orð, sem ég hef aldrei talað, og það var vegna þess, að hann gaf sér ekki tíma til þess að hlusta á mín rök. Ég nenni ekki hér og get ekki heldur í stuttri aths. endurtekið það, en ef hann hefði hlustað á mínar tvær ræður í málinu, þá hefði hann aldrei haldið þessa ræðu, sem hann hélt hér um mína afstöðu til málsins.

Ég skal svo ekki tefja hv. d. eða misnota leyfi hæstv. forseta í þessu máli, en ég legg ákaflega mikla áherzlu á það, að málið fái hér þá afgreiðslu, að séð verði við 3. umr., í hvaða horf málið færist og hvað af till. fæst samþ. og hverjar ekki, og þá fyrst er nægilegur tími til að fylgja frávísunartill., ef á síðara stigi sést, að ekki sé hægt að fá samkomulag um endurbætur á löggjöfinni frá því, sem hún er nú, á þann veg, að hægt sé að útrýma áfengisbölinu.