09.12.1952
Neðri deild: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

71. mál, iðnaðarlög

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Lögin um iðju og iðnað, sem nú gilda, eru að stofni til frá árinu 1927, en á þeim voru gerðar allmiklar breyt. árið 1936 og raunar fleiri síðar, en smávægilegar, og við þetta hefur svo verið unað til þessa dags. Það hefur þó komið á daginn upp á síðkastið, að það eru nokkrir annmarkar á þessum lögum, sem æskilegt væri að færa til betri vegar, og vil ég þar sérstaklega nefna, hversu óglögg eru nú orðin mörkin milli þess, sem venjulega er kallað handiðnaður og iðjustarfsemi. Það tíðkast nú orðið æ meir, að það, sem áður var handiðn, er nú unnið í vélum, og þarf þá ekki til þess jafnt faglærða menn og áður þurfti.

Þetta hefur sjálfsagt m. a. verið ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. skipaði á árinu 1950 nefnd til þess að endurskoða þessa löggjöf, lögin um iðju og iðnað. Þessi n. hefur nú skilað áliti í frumvarpsformi, sem hér hefur verið lagt fyrir, og er það þetta frv., sem hér er til umr.

Í grg. fyrir frv. segir, að það sé að mestu flutt eins og n. gekk frá því, en þó eru tvær breyt. gerðar, eins og nánar er tiltekið í grg., sérstaklega í 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að í sérstöku tilfelli megi ófaglærðir menn taka að sér iðnaðarstörf.

Málið var sent til umsagnar Landssambands iðnaðarmanna, og hefur iðnn. borizt frá Landssambandinu bréf það, sem prentað er sem fylgiskjal I á þskj. 318, þar sem gerð er grein fyrir afstöðu Landssambandsins til málsins. Og það er í stuttu máli að segja um þessa afstöðu Landssambandsins, að það leggur eindregið til, að frv. verði ekki samþ. í þessari mynd, heldur verði afgreiðslu þess frestað og því gefinn kostur á að athuga málið fyrir næsta Alþingi, til þess að freista, hvort ekki væri unnt að fá það lagfært í það horf, sem Landssambandið óskar.

Þá hefur iðnn. einnig borizt bréf frá póst- og símamálastjórninni og Verkfræðingafélagi Íslands, sem fara bæði í þá átt að veita fleirum starfsréttindi í iðnaði heldur en nú hafa þessi réttindi. Í till. póst- og símamálastjórnarinnar er sérstaklega óskað eftir því, að sá iðnaður, sem ríkið hafi einkarétt á að reka, verði undanþeginn þessum lögum. Er þar sérstaklega átt við útvarpsvirkjun og símavirkjun. Getur það að mínu viti haft nokkuð til síns máls, þótt vel þurfi að draga þar mörkin, ef út í þetta yrði farið.

Verkfræðingafélag Íslands hefur sent n. brtt. við frv., sem prentaðar eru sem fskj. IV á þskj. 318, þar sem hv. dm. geta séð, í hvaða átt þessar till. Verkfræðingafélagsins stefna. Þar er gert ráð fyrir að veita verkfræðingum og húsameisturum allvíðtæk réttindi í iðnaði, sem ég sannast sagna, þó að verkfræðingur sé, er ekki fyllilega sammála. En þetta er þó til athugunar. Ég vil gjarnan — og tel raunar sjálfsagt að þessar till. Verkfræðingafélagsins verði teknar til athugunar ásamt með till. póst- og símamálastjórnarinnar og athugasemdum stjórnar Landssambands iðnaðarmanna, áður en endanlega yrði frá þessu máli gengið.

Það hefur þess vegna orðið samhljóða niðurstaða okkar í iðnn. að leggja til, að frv. yrði afgr. með rökst. dagskrá, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. láti taka mál þetta til athugunar á ný og freisti að ná um það samkomulagi við þá aðila, sem lögin snerta mest, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Málið er viðkvæmt mál og þarf að fara að því á alla vegu með talsverðri gát, svo að þess vegna teldi ég óhyggilegt, að það yrði þvingað í gegn hér með einhverjum atkvæðamun, miklum eða litlum, kannske litlum og kannske tilviljunarkenndum. Þetta eru atriði, sem þurfa að athugast og ákveðast af sérfróðum mönnum, sem á þetta bera fullt skyn og reyna að ná sameiginlega hinni skynsamlegustu niðurstöðu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða málið frekar, en óska að sjálfsögðu, að hin rökstudda dagskrá verði samþykkt.