03.10.1952
Neðri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

20. mál, Háskóli Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. um laun háskólakennara og breyt. á l. um Háskóla Íslands er flutt vegna eindreginna tilmæla háskólans, sem telur, að ekki verði lengur undan því ekið að bæta við einu prófessorsembætti í lagadeild. Lagadeildin hafði flesta prófessora, þegar háskólinn var stofnaður, en þá voru þeir þrír. Nú eru allar aðrar deildir háskólans með hærri tölu prófessora, en lagadeildin, sem nú hefur enn þá sömu tölu prófessora og þegar skólinn var stofnaður. Þar hefur engu verið bætt um, þó að starf deildarinnar hafi vaxið, eins og kunnugt er, mjög mikið frá þeim tíma, að skólinn var stofnaður fyrir 4 áratugum. Þessi skortur á föstum kennurum í deildinni veldur því meðal annars og ekki sízt, að yfirferðir í einstökum kennslugreinum taka miklu lengri tíma, en æskilegt væri.

Hvað snertir útgjöld fyrir ríkissjóð í þessu sambandi, þá verður hér ekki að öllu leyti um nýtt embætti að ræða, vegna þess að verði skipaður nýr prófessor, tekur hann við kennslu, sem nú er greidd með hálfum dósentslaunum. Prófessorslaun eru nú rúm 54 þús. kr., en hálf dósentslaun eru rúm 25 þús. kr., þannig að mismunurinn, sem þarna kæmi fram til gjaldauka fyrir ríkissjóð fyrir þessa breytingu, er milli 28 og 29 þús. kr. Ég vil því mæla mjög eindregið með því, að þessi breyting, sem hér er farið fram á, nái samþykki þingsins. — Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og menntmn.