20.10.1952
Efri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (3011)

80. mál, útsvör

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þegar l. nr. 53 frá 1950, um breyt. á útsvarslögunum, voru sett, þá var ég að ýmsu leyti óánægður með þau, og undir meðferð málsins hér í hv. d. bar ég fram nokkrar brtt. við frv., sem ekki náðu þó fram að ganga. Vildi ég þá, að réttur atvinnusveitar til að leggja útsvar á atvinnurekstur yrði gerður nokkru víðtækari, en í frv. var ákveðið, en hætt yrði með öllu að krefjast útsvars af atvinnutekjum eða launum utan heimilissveitar. Mér fannst, að þessi skipting væri réttari og einfaldari heldur en það krull í þessu, sem áður hafði verið. Skipting útsvara var að vísu að mestu afnumin með þessum l., að minnsta kosti útsvara vegna atvinnutekna, en í þess stað var sett ákvæði í 3. gr. þessara l. um það, að ef útsvör eru lægri í heimilissveit gjaldanda heldur en í atvinnusveit hans, þá geti atvinnusveitin lagt eins konar útsvarsauka á gjaldandann, sem nemi mismuninum á útsvari hans í heimilissveitinni og því, sem honum hefði borið að gjalda í atvinnusveitinni, ef hann hefði verið þar heimilisfastur.

Það er nú fengin nokkur reynsla af þessu lagaákvæði, og þar sem ég þekki til, er hún ekki góð. Sérstaklega finnst mér áberandi, að menn í sama hreppi verða fyrir miklu misrétti vegna þessa ákvæðis. Manni sem hefur tekjur sínar heima í sveitinni, er gert að greiða útsvar að sjálfsögðu samkvæmt þeim reglum, sem gilda í hans sveit. Nágranni hans, sem ef til vill hefur sömu tekjur og að öllu leyti svipaðar ástæður, fær sama útsvar í heimilissveitinni, en svo stendur á um hann, að hann verður að leita sér atvinnu í annarri sveit eða kaupstað, og þá leggur sú sveit á hann kannske jafnhátt útsvar eins og heimasveitin gerir, svo að þannig greiðir hann samtals ef til vill helmingi hærra útsvar til sveitar- eða bæjarsjóðs, þó að ástæður séu sömu, heldur en nágranni hans greiðir. Ég veit nú þegar ýmis dæmi um svipað og þetta, þó að lögin séu ekki búin að standa lengi. Hvað sem um þetta má segja að öðru leyti, þá held ég, að enginn geti haldið því fram, að þetta sé jafnrétti, og mér finnst nú þó, að löggjöfin ætti að stefna að því, að þegnarnir nytu jafnréttis, eftir því sem hægt er við að koma.

Menn munu nú kannske segja, að utansveitarmanni sé ekki vandara um að greiða útsvar í atvinnusveitinni heldur en íbúum þeirrar sveitar, hann njóti atvinnuréttinda og á móti því verði að koma það, að hann greiði sams konar útsvar og íbúar þeirrar sveitar, þar sem hann nýtur atvinnuréttinda. En ég hygg, að þó að einhverjir vildu segja sem svo, þá sé það byggt a. m. k. að miklu leyti á misskilningi. Það má benda á það, og var nú raunar gert undir umr. um þau l., sem ég legg nú til að breyta, að heimamenn njóta ýmissa réttinda í sveitinni, sem utansveitarmenn njóta ekki, jafnvel þó að þeir fái að stunda þar atvinnu. Sveitin ber t. d. ábyrgð á afkomu þeirra. Ef þeir geta ekki séð sér farborða, þá er það þeirra heimilissveit, sem tekur við þeim og sér þeim farborða. Heimilissveitin verður að gjalda margs konar gjöld af hverjum íbúa sveitarinnar. Þá má benda á það, að íbúar sveitarinnar einir hafa rétt til þess að láta börn sín ganga í skóla sveitarinnar, og þannig mætti lengi telja.

Fyrir utan þetta, að ég tel þetta ákvæði ranglátt og valda misrétti innbyrðis í sveitunum, þá hygg ég, að þetta hafi nú þegar fremur litla fjárhagslega þýðingu fyrir sveitar- og bæjarfélög. Ég hygg, að það sé Akureyri, þar sem ég er nú sjálfur gjaldandi, sem hefur haft hlutfallslega einna mestar tekjur af útsvörum lögðum á eftir þessum ákvæðum á utansveitarmenn. En sú upphæð, sem þannig hefur verið lögð á til bæjarsjóðs Akureyrar, skiptir ekki verulegu máli og mundi ekki hafa nein veruleg áhrif á útsvör gjaldenda í bænum, íbúa bæjarins, þó að þetta væri afnumið. En hafi þetta nú ekki haft verulega þýðingu hingað til, sem ég hygg að ekki hafi verið, þá er ég alveg sannfærður um það, að í framtíðinni hefur það enga þýðingu eða sama og enga, því að ég þekki þá illa til sveitarstjórna, ef það verður ekki upp tekið, ef þetta lagaákvæði á að gilda, að leggja eins há útsvör á þá menn, sem vinna utan sveitarinnar, eins og mundi verða lagt á þá í atvinnusveitinni. Það má gera þetta að sjálfsögðu með samkomulagi við mennina og sjá það svo á einhvern hátt við þá á eftir, svo að það valdi ekki ágreiningi. Ég er því alveg sannfærður um það, að þegar fram í sækir, þá verður afar lítið upp úr þessu að hafa og ákvæðið þýðingarlítið, en þá er alltaf réttara, ef ákvæði verður þýðingarlítið eða þýðingarlaust, að nema það úr l., heldur en að halda því í l., en fara svo í kringum það. Ég hygg því, að það sé réttast að afnema þetta lagaákvæði, eins og ég legg til með því frv., sem hér liggur fyrir. — Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. allshn.umr. lokinni.